26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

10. mál, erfðafjárskattur

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Það hefur komið mér nokkuð á óvart, hvernig sjálfstæðismenn hafa brugðizt við þessum erfðafjárskatti. Í fyrsta lagi vegna þess að þessi erfðafjárskattur er lægri og í flestum tilvikum verulega lægri en nokkurs staðar annars staðar á Vesturlöndum. Í öðru lagi, þegar um það er að ræða, að maður, sem erfir milljón, þarf að greiða 70 þús. kr. í erfðafjárskatt, þá fara sjálfstæðismenn að tala um, að hér sé kominn ríkissósíalismi. Ég verð að segja, að svona málflutningur er furðulegur, því að það er verið að gera hér úlfalda úr mýflugu og reyna að villa um, hvað er hérna um að ræða. (Gripið fram í: Þetta sagði enginn.) Og ég vil bara taka það skýrt fram, að þessi erfðafjárskattur, sem hér er um að ræða, er mjög óverulegur, og þegar menn eru að tala um ríkissósíalisma eða kommúnisma í þessu sambandi, þá eru það steinaldarmenn.