26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

10. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég átti hlut að því, að á það var fallizt, að umr. skyldi frestað til þess að athuga nánar a. m. k. eina af þeim brtt., sem fyrir lágu varðandi 2. gr. frv. Það hafði verið lagt til, að erfðafjárskattur yrði ekki tekinn af því hjóna, sem eftir lifði og talið, að þar væri um tvísköttun að ræða á því sameiginlega fé hjónanna. Þetta hef ég nú kynnt mér nánar og kemst þá að þeirri niðurstöðu, að ef eftirlifandi maki yrði ekki látinn greiða erfðafjárskatt, væri þá ekki alveg eins ástæða til þess að börnin yrðu laus við slíka kvöð? Eða kjörbörnin? Eða fósturbörnin. sem öll eru þarna í sömu erfð, 1. erfð? 1. erfð félli þá bara niður, sem ég mundi nú ekki geta fallizt á. En þarna er skattlagningin væg. Af fyrstu 200 þús., sem hverfa til þess hjóna, sem eftir lifir, til niðja, kjörniðja og fósturbarna, svo og af þriðjungshluta, ef ráðstafað hefur verið með erfðaskrá, þá kemur 5% skattur af fyrstu 200 þús. 6% skattur af næstu 200 þús., 7% skattur af þriðju 200 þús., 8% skattur af fjórðu 200 þús., 9% skattur af þeim fimmtu, og þegar komið er yfir milljón, er það 10% skattur í 1. erfð. Og þetta er sama hámark eins og er í gildandi lögum. Ég mundi ekki telja neitt minni ástæðu til þess að hlífa þá börnum, sem misstu foreldra sína, við greiðslu erfðafjárskatts heldur en því hjóna, sem eftir lifir, en skattur hefur einungis verið tekinn af helmingshlut makans, sem látizt hefur. Ég held, að við nánari athugun sé ekki hægt að taka þessa till. til greina nema því aðeins, að menn vildu þá hreint og beint ganga svo langt að fella niður 1. erfð og skattleggja ekki það hjóna, sem lifir hitt, eða börn þeirra. En í frv. er þetta lagt til, og ég legg til, að frv. sé samþ. eins og n. hefur mælt með því.