26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

10. mál, erfðafjárskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni þessara ummæla hæstv. félmrh. Mér finnst vera meginmunur á því, hvort eftirlifandi maki er leystur undan þessari skattgreiðslu eða börn og kjörbörn. Það er sá munur, að hjónin hafa í sameiningu unnið að því að koma upp sínum eignum og það er meginröksemdin fyrir því, að við teljum rétt, að eftirlifandi maki losni við skattinn. Í öðru lagi er það svo tvísköttunin, sem er alveg ótvíræð.

Það hefur verið minnzt nokkuð hér á erfðafjárlöggjöf annarra þjóða og sérstaklega minnzt á, að löggjöfin í Danmörku sé kannske líkust því sem hún er hjá okkur. Í dönsku löggjöfinni er það þó svo, að eftirlifandi maki þarf ekki að greiða skatt af fyrstu 50 þús. kr. d. Ég man ekki alveg, hvað danska kr. er. Ætli það sé ekki 600–700 þús. kr. ísl.? Þetta hafa þeir talið réttlátt að hafa í sinni löggjöf. (Gripið fram í.) Já, það er þá um 600 þús. kr. Þetta hafa Danir talið réttlátt að hafa í sinni löggjöf. Ég veit, að það hefur verið boðuð breyting í Danmörku á löggjöfinni um erfðafjárskatt, og það er vissulega til hækkunar, en ég held, að þetta ákvæði sé látið haldast. Eitt af því, sem hefði getað komið til umr. í heilbr.- og félmn., ef vilji hefði verið fyrir hendi, var það að setja á þetta eitthvert hámark, eins og hv. 3. landsk. þm. minntist hér á í sinni ræðu við 2. umr. um daginn. En þetta var ekki reynt. En við hefðum áreiðanlega verið og erum enn til viðtals um það að breyta eitthvað þeim till., sem við höfum lagt fram.