16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

217. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 443 er frv. til l. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er, að samkv. 4. gr. núgildandi laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er sjóðstjórn heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn bæjar-, sýslu- og hreppsfélaga og stofnana, er þeim tilheyra og hafa sérstakan fjárhag. Á undanförnum árum hafa verið stofnuð samtök sveitarfélaga í ýmsum kjördæmum utan Reykjavíkur og hafa fjögur þeirra þegar ráðið sér framkvæmdastjóra. Starfslið þessara samtaka hlýtur að verða það fátt, að ekki verði grundvöllur til þess að stofna sérstaka lífeyrissjóði á þeirra vegum. Þrátt fyrir téð heimildarákvæði mun stjórn lífeyrissjóðsins hafa talið leika vafa á því, að henni væri heimilt að taka slíka starfsmenn í tölu sjóðfélaga, þar sem þessi samtök væru ekki lögbundin, og er frv. flutt til þess að taka af allan vafa í þessu efni. Enn fremur er lagt til að heimilt sé að taka í tölu sjóðfélaga starfsfólk sparisjóða, samnorrænna stofnana og uppeldis- og heilbrigðisstofnana, sem reknar eru af sjálfstæðum styrktar- eða líknarfélögum.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta mál frekar, enda hefur það verið fram tekið, sem máli skiptir, en legg til, herra forseti, að að umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.