17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

249. mál, Bjargráðasjóður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl. gerði nokkrar aths. við frv. og þá einnig aths. varðandi upphaf aths. við það. Þar segir, að Bjargráðasjóður Íslands hafi verið stofnaður með lögum nr. 45 frá 10. nóv. 1913, og þótt breytingar hafi verið gerðar á lögunum um hann á undanförnum árum, hafi engin heildarendurskoðun þeirra átt sér stað. Ég játa, að ég hef ekki haft aðstöðu til eða leitt hugann að því að aðgæta, hvort þetta er rétt staðhæfing, en ef þetta er rangt, þá ber vissulega heldur að hafa það, sem sannara reynist, ef einhver heildarendurskoðun hefur farið fram á lögunum, eins og hv. þm. staðhæfir. En þessar aths. með frv. eru einnig samdar af stjórn Bjargráðasjóðs.

Það má vissulega deila um það nýmæli í frv., að stjórn sjóðsins sé heimilt að skipa nefnd til þess að rannsaka tjón og gera till. um aðstoð, þegar um almennt tjón í heilum byggðarlögum er að ræða, eða hvort eigi að hafa þann háttinn á, sem verið hefur, að landbrh. í slíkum tilfellum skipi sérstaka harðærisnefnd. Ég ímynda mér nú, að nokkuð mikill kostnaður hafi orðið af starfi þessarar harðærisnefndar, og veit ekki nema e. t. v. yrði hægt að komast nokkuð hjá auknum kostnaði, ef stjórnin sæi um þetta að öllum jafnaði eða kysi til þess sérstaka nefnd. Þetta skal sannarlega athugað í þeirri þn., sem fær málið til meðferðar. Bjargráðasjóðsstjórnin telur heppilegra og eðlilegra, að hún tilnefni nefnd til rannsóknar og tillögugerðar, og getur þess í aths., að hingað til hafi landbrh. skipað harðærisnefnd undir slíkum kringumstæðum. Hins vegar segir, að það sé undir venjulegum kringumstæðum að jafnaði hlutverk sjóðsins að bæta úr áföllunum, og það er vissulega rétt. En verði stóráföll, þá verður að koma til kasta ríkissjóðs og enginn veit fyrir fram, hversu stór í sniðum slík áföll geta verið. Og þá má vel vera, að það yrði búið að koma fætinum inn fyrir þröskuld hjá ríkissjóði með því, að landbrh. hefði skipað nefndarmenn og þeir væru þannig meira á hans vegum. Um þetta skal ég ekki deila, en þetta var einasta veigameiri aths., sem hv. þm. gerði við frv., eins og það er hér fram lagt.