26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um Tækniskóla Íslands, sem hér er lagt fyrir, er samið af nefnd, sem skipuð var s. l. sumar til að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um Tækniskóla Íslands. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það, þó að margt mætti um segja, hversu Tækniskóli Íslands er á vegi staddur. Ég býst við, að hv. þm. sé allvel kunnugt um það, að þessi þarfi skóli, sem allir eru vafalaust áhugasamir um, að ræki sem bezt sitt hlutverk, hefur átt við margvíslega byrjunarörðugleika að stríða. Sérstaklega er hann enn á hrakhólum með húsnæði, og ekki hefur gengið allt of vel að halda saman þeim kennslukröftum, sem ákjósanlegastir eru taldir. En sem sagt, um það ætla ég ekki að fjölyrða að þessu sinni, heldur greina fyrst og fremst frá tilefni þess, að þetta frv. er borið fram, og lýsa nokkuð efnisþáttum þess.

Ástæðan til að ráðizt var í að undirbúa frv. að nýjum lögum um Tækniskólann, er fyrst og fremst sú, að þegar að því kom, að hann útskrifaði í fyrsta sinn tæknifræðinga, þá komu upp nokkuð deildar meiningar um það, hvort það nám, sem hann hafði veitt þeim og mundi að því er séð yrði veita á næstunni, væri í raun og veru fullgilt tæknifræðinám, í samræmi við þær kröfur, sem til tæknifræðinga eru gerðar samkv. ríkjandi lögum um, hverjir hafi rétt til að bera það starfsheiti. Úr varð, að skipuð var þriggja manna nefnd, skipuð skólastjóra Tækniskólans, Bjarna Kristjánssyni, Jóni Sveinssyni, tæknifræðingi, samkv. tilnefningu Tæknifræðingafélags Íslands, og formaður hennar var Andri Ísaksson, deildarstjóri skólarannsóknadeildar menntmrn. Skipunarbréf nefndarinnar felur í sér, hvert hlutverk henni er ætlað, og vil ég lesa úr því kafla, sem það varðar. Þar segir:

„Nefndin skal hlutast til um, að í frv. til laga og/eða reglugerðar um skólann verði ákvæði, er tryggi, að nemendur hans fái jafngóða menntun og nemendur viðurkenndra tæknifræðiskóla í nágrannalöndunum, að því er varðar kennslumagn, kennslu- og námstímalengd og annað, er máli skiptir í því efni. Enn fremur skal í lagafrv. gert ráð fyrir, að skipuð verði skólanefnd við skólann, þar sem eigi m. a. sæti fulltrúi frá Tæknifræðingafélagi Íslands og atvinnuvegunum.“

Nefndin skilaði s. l. haust því frv., sem hér er lagt fyrir, og þar er í samræmi við skipunarbréf hennar tekið upp það ákvæði í 1. gr., að í starfi Tækniskóla Íslands skuli jafnan miðað við þróun tæknimenntunar meðal nágrannaþjóða. Svo er í 2. gr. sett ákvæði um, að menntmrn. skipi við skólann skólanefnd. Jafnframt er starfsheiti skólastjóra breytt í heitið rektor til samræmis við það, sem talið er eðlilegast á því skólastigi, sem hér er um að ræða. Loks er enn eitt atriði, sem máli skiptir. Það er, að í 8. gr. er bætt við ákvæði um. að verkskólun og verkleg þjálfun, sem krafizt er af mönnum til inngöngu í skólann, skuli ákveðin í reglugerð, en um þetta hafa ekki gilt skýr ákvæði til þessa.

Hvað varðar skólanefndarskipunina er lagt til, að í hana tilnefni fjórir aðilar menn. Þeir eru Tæknifræðingafélag Íslands, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna og Alþýðusamband Íslands. Formaður skal síðan skipaður af ráðh.

Enn fremur er bætt inn í þetta frv. frá því, sem er í gildandi lögum, ákvæðum um, að undirbúningsdeild undir Tækniskólann skuli ekki aðeins heimilt að starfa á Akureyri, heldur einnig á Ísafirði, en á báðum þessum stöðum starfa nú undirbúningsdeildir og hafa gert um skeið. Loks er hér einnig bætt við í 7. gr. ákvæði um, að stefnt skuli að því, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli.

Ég held, að um það verði alls ekki deilt, að þegar verið er að leitast við að færa inn í landið nám í verklegum greinum, sem áður hefur orðið að sækja til annarra landa, skipti það höfuðmáli, að þannig sé staðið að framkvæmdum, að þeir, sem útskrifast úr hinum íslenzku skólum, hafi fengið sambærilega kennslu og sambærilega þjálfun við það, sem gerist í hinum erlendu skólum, sem ella yrðu sóttir héðan. Ef ekki er leitazt við að efla skólastofnanirnar, svo að þær geti risið undir þessum kröfum, þá eigum við á hættu, að í raun og veru lækki færnistig í þýðingarmiklum starfsgreinum, og það verður að fyrirbyggja með öllum tiltækum ráðum. Að þessu marki stefnir það frv., sem hér er lagt fyrir, hvað Tækniskóla Íslands varðar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.