03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði leyft mér á milli 1. og 2. umr. að flytja brtt. Ég átti ekki sæti hér á þingi, þegar frv. var til 1. umr., og varamaður minn þá hér hafði flutt brtt., sem gengur nokkuð í sömu átt, en ekki þó eins langt og brtt. mín gerir. Ég skal ekki segja um, hvernig ber að meðhöndla þá till. hér. Ég mundi telja eðlilegast, að hún verði tekin til baka, en vafasamt, að aðalþm. geti ákveðið, hvað verður um till. varamanns hans, svo að það er forsetamál að ákveða um það, en það kannske skýrist, þegar ég vík að minni eigin till. og vilja mínum um meðferð hennar, vegna þess að það hlýtur að rísa nokkur vandi um það, hvernig á að fara með þessa tillögu Halldórs Blöndals.

Það er öllum hv. þdm. kunnugt, enda vék hv. frsm. n. að því, að það hefur verið mikið áhugamál Norðlendinga — og reyndar hafa fleiri stutt það mál, að Tækniskóli Íslands yrði fluttur til Akureyrar. Og með hliðsjón af þeirri ósk var till. mín orðuð eins og raun ber vitni um, og í rauninni var naumast annarra kosta völ með hliðsjón af því, hvernig frá frv. er gengið. En ég skal taka það fram strax, að ég í rauninni gerði mér aldrei í alvöru vonir um það, enda skiptir það engu meginmáli fyrir mig efnislega í þessu máli, að það yrði ekki starfræktur tækniskóli í Reykjavík, heldur að n. mundi taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að slá því föstu, að tækniskólar skyldu vera tveir, annar starfa í Reykjavík og hinn á Akureyri. Ég álít, að þetta frv. sé ákaflega óheppilega orðað eða upphaf þess, þar sem talað er um, að Tækniskóli Íslands starfi í Reykjavík. Mér finnst nánast broslegt að láta sér detta það í hug, að einhver skóli beri heitið Tækniskóli Íslands, vegna þess að það kemur í rauninni fram í 7. gr. frv., að það er gert ráð fyrir því, að á öðrum stað á landinu rísi fullkominn tækniskóli, og hvað á hann þá að heita — Tækniskóli Akureyrar og Tækniskóli Íslands? Það hefur engum dottið í hug, held ég, að tala um Menntaskóla Íslands, og það er öllum vitanlegt og hlýtur að hafa verið þeim ágætu mönnum, sem undirbjuggu þetta mál, að tækniþróunin, þetta er mjög vaxandi námsgrein í landinu. Aðsókn að þessum skóla fer mjög vaxandi og mun áreiðanlega gera það á næstu árum og áratugum, og ég skil ekki í, að nokkrum í alvöru hafi getað komið til hugar, að til langframa yrði það svo, að allt tækninám eða eini fullkomni tækniskólinn yrði hér í Reykjavík og héti Tækniskóli Íslands. Það er út af fyrir sig að segja, að tækniskóli skuli starfa í Reykjavík. Og eins og ég segi, þá brýtur þetta algerlega í bága við orðalag 7. gr., úr því að það er þó stefnt að því, að sjálfstæður tækniskóli rísi á Akureyri og undirbúningsdeildir verði stofnaðar raunar víðar, sem hljóta þá í tímanna rás að þróast upp í fullkomna tækniskóla. Það væri miklu nær að gera ráð fyrir því, að tækniskólar yrðu settir á stofn í landinu, eftir því sem einhverjar almennar reglur segðu til um og eftir nánari ákvörðun menntmrh., eins og ég hef raunar orðað það í síðari brtt. minni. En ég hafði látið mér detta það í hug eða gert mér vonir um það, að hv. n. mundi fallast á þá niðurstöðu í málinu að breyta 1. gr. á þann veg, að tækniskólar skyldu starfa í Reykjavík og á Akureyri, og síðan almennt ákvæði um fleiri staði, sem kæmu til álita, eftir því sem nauðsyn krefur. Hins vegar, eins og ég segi, flutti ég till. mína með þessum hætti, þar sem frv. gefur beint tilefni til þess, að það sé einhver aðaltækniskóli til í landinu, og þá voru óskir manna nyrðra um, að hann yrði fluttur til Akureyrar.

Nú hefur komið hér á borð þm. ákaflega ósmekklegt bréf frá ýmsum aðstandendum Tækniskóla Íslands. En látum það vera, aðrir hafa bætt þar úr og séð sóma skólans borgið í því að senda annað öllu meira viðeigandi bréf í sambandi við þetta mál. En þessir róttæku menn, sem ekki geta hugsað sér annan stað en Reykjavík fyrir tækninám, ég veit ekki, hvað yfir þá kemur, þegar þeir sjá till. hv. n. um það að athuga möguleikann á því, að tækniháskóli rísi á Akureyri. Ég er sammála hv. n. um, að sjálfsagt sé að rannsaka þetta, og ég er n. þakklátur fyrir það, hvernig hún tekur á þessu máli. Engu að síður, vegna þeirrar afstöðu n. og þar sem hún sameiginlega stendur að sínu áliti og gert er ráð fyrir að efla nokkuð undirbúningstækninám á Akureyri, þá mun ég taka a. m. k. við þessa umr. brtt. mínar til baka, því að það er þó nokkur vinningur að því í fyrsta lagi að fá raungreinadeild ákveðna á Akureyri nú þegar og jafnframt að þessi athugun fari fram á möguleika þess, að þar verði settur upp tækniháskóli. En ég verð þó að láta í ljós þá skoðun mína, að ég hefði talið það æskilegra og vil raunar leyfa mér að beina því til hv. n., þótt ég taki till, mína aftur nú í þetta sinn eða við þessa umr., að hún taki vinsamlega til athugunar, og það hefur engin áhrif á það ákvæði til bráðabirgða, sem hún hér flytur, en taki vinsamlega til athugunar, hvort n. geti orðið sammála um — og það sýnist mér í anda hennar starfs í rauninni — að gera þá breytingu á 1. gr. frv., að þar segi svo, að tækniskólar skuli starfa í Reykjavík og á Akureyri, og síðan verði í 7. gr. haldið niðurlagi hennar, að undirbúningsdeildir tækniskóla verði á Ísafirði og öðrum þeim stöðum, þar sem slíkt þykir henta. Þá er enginn sviptur neinu, svo sem frv. gerir ráð fyrir og hv. n., eins og nál. hennar er nú, því að sannleikur málsins er sá, að þótt raungreinadeild sé sett á laggirnar á Akureyri, þá verður aðeins um undirbúningsnám að ræða, og ég held, að það hljóti að vera öllum ljóst, að yrði niðurstaðan sú, að tækniháskóli yrði settur á Akureyri, þá yrði óumflýjanlegt, að byrjunin yrði sú, að þar yrði fullkominn tækniskóli, en ekki að menn yrðu að fara úr undirbúningsdeild tækniskóla á Akureyri hingað suður til Reykjavíkur til þess að ganga gegnum tækniskólann hér og fara svo aftur norður til Akureyrar í tækniháskólann. Það held ég, að yrði ákaflega óeðlileg þróun, og býst ekki við, að hv. n. geri ráð fyrir, að þannig yrði á málum haldið. Þess vegna eru það nánast tilmæli mín, — og eins og ég segi, ætla ég ekki á þessu stigi að flytja um það formlega brtt„ — hvort n. vildi íhuga það á milli 2. og 3. umr., hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um það, að nú þegar yrði þessi breyting gerð á 1. gr., að tækniskólar skyldu starfa í Reykjavík og á Akureyri, og síðan haldið því ákvæði varðandi aðra staði, sem segir í 7. gr.

Það er búið að vera í lögum áður að stefna að því, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli, þannig að Alþ. hefur markað þá stefnu sína, og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að með það verði beðið, það er þegar komið í ljós, að tækniskóli getur auðveldlega starfað á Akureyri, og það er ekkert annað en fyrirsláttur, að það sé ekki hægt að koma við þeirri fræðslu, sem nauðsynleg er, og fá þann kennslukraft, sem þarf í þeim efnum. Þetta er nákvæmlega sami fyrirslátturinn sem átti sér stað í sambandi við annað mál, sem var eitt fyrsta mál, sem ég flutti hér á Alþ. fyrir um 20 árum, og það var, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands yrði fluttur til Akureyrar. Þá var skólinn hér húsnæðislaus, þá stóð þar nýbyggt hús, fullkomið og ágætt hús, sem hafði verið ætlað til annarra nota, en hefði ekki þurft að breyta í einu né neinu til þess að flytja skólann þangað. Það var hafin herferð gegn því máli, af því að aðstandendur skólans gátu ekki hugsað sér að vera neins staðar nema í Reykjavík, og málið var að vísu samþykkt í hv. Nd., en það var Ed., sem kom því fyrir kattarnef. Þess vegna finnst mér það vel við eigandi, að Ed. skuli hefja þessa stefnu til vegs og sóma nú og stefna í þá átt, sem till. meiri hl. n. óneitanlega bendir til, að sé vilji fyrir a. m. k. hjá þeim hv. þm., sem skipa n., að marka stefnu í aðra átt í þessu efni. Það er enn fremur rétt að vekja athygli á því, sem hefur lýst sér í mörgum till. manna, sérstaklega nú á þessu þingi, og er einnig eitt af stefnuskráratriðum hæstv. núv. ríkisstj., að leita úrræða til þess að dreifa stofnunum um landið meira en gert hefur verið. Þetta er auðvitað mikið álitamál um ýmsar stofnanir, sem eðli málsins samkvæmt hljóta að eiga aðsetur í höfuðborginni, og það getur verið hæpið að dreifa stofnunum á þann hátt, að það beinlínis leiði til erfiðleika fyrir þá menn, sem eiga hingað erindi hvort eð er við einhverjar slíkar stofnanir, og á ég þar ekki sízt við ýmsar framkvæmdastofnanir ríkisins. Það hafa þó komið fram hugmyndir um, að deildir úr þeim stofnunum eða útibú yrðu sett upp úti á landi, og tel ég þær till. allrar athygli verðar. En ég held, að skólar séu dæmigerðar stofnanir, sem hægt er að dreifa um landið, og hefur líka verið gert í stórum stíl. Það hefur hins vegar verið ríkjandi þetta dæmalausa tregðulögmál. Á sínum tíma — það var að vísu fyrir þingtíð okkar allra, sem hér sitjum, var haldið uppi hörðum árásum á þáv. hæstv. menntmrh. fyrir það að ákveða að setja á laggirnar menntaskóla á Akureyri. Það var talið með sama hætti, að þar væru engir kennslukraftar og engin aðstaða til þess að halda þar uppi menntaskóla. Ég held, að sá skóli skili fullkomlega þeim árangri, sem aðrir skólar í landinu skila nú, og engum detti í hug að fara að leggja hann niður, nema síður væri.

Ég held því, að hér sé um fullkomlega raunsætt mál að ræða og að það sé í fyrsta lagi ljóst, að það er óeðlilegt með öllu, að við höfum hér skóla, sem heitir Tækniskóli Íslands. Það er allt annað mál, að það rísi síðar skóli, sem héti Tækniháskóli Íslands, því að það dytti engum í hug að hafa fleiri en einn tækniháskóla a. m. k. á næsta áratug. En öll þróun tæknimála leiðir glöggt í ljós, að það er fjarri öllu lagi að ætla sér að hafa hér einn aðaltækniskóla og gera öllum skylt að sækja hann og ætlast til þess, að það séu aðeins undirbúningsdeildir starfandi annars staðar á landinu. Þess vegna tel ég í rauninni, að það sé alveg nauðsynlegt að breyta 1. gr. frv. um, að Tækniskóli Íslands starfi í Reykjavik, — vilji menn ekki fallast á annað, má segja, að tækniskóli starfi í Reykjavík, — og í rauninni sé þetta óumflýjanleg nauðsyn, ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir með hliðsjón af orðalagi 7. gr., þar sem beinlínis er gert ráð fyrir öðrum tækniskóla.

Herra forseti. Eins og ég áðan sagði, með hliðsjón af sameiginlegum till. hv. n., tek ég aftur við þessa umr. a. m. k. þær brtt., sem ég hef flutt. Ég beini því hins vegar til hv. n., hvort hún mundi vilja fyrir 3. umr. íhuga það, sem ég hef hér bent á, að fella niður ákvæði um Tækniskóla Íslands og ákveða það, að tækniskólar skuli nú þegar vera tveir: í Reykjavík og á Akureyri, og gerð viðeigandi breyting á 7. gr. og á engan hátt skertir möguleikar, sem þar eru opnaðir til þess, að tækniskólar séu á fleiri stöðum. En að öðru leyti mun ég við þessa umr. að sjálfsögðu greiða atkv. með brtt. hv. nefndar.