04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Við 2. umr., sem fram fór hér í hv. d. í gær, kom ég og fleiri ræðumenn inn á spurninguna um staðsetningu Tækniskólans. Það var rætt um þær ákveðnu óskir, sem höfðu komið fram um það, að Tækniskóli Íslands yrði fluttur til Akureyrar. Menntmn. gerði brtt. við frv., sem samþ. voru við 2. umr. Það kom fram ríkur skilningur í n. fyrir því, að tæknimenntun færi fram á Akureyri, og það munaði minnstu, ef svo mætti segja, að n. væri búin að koma tæknimenntuninni til Akureyrar. En það var samt ekki alveg. Það var gert ráð fyrir, eins og frv. var samþ. við 2. umr., að Tækniskóli Íslands skyldi vera í Reykjavík. En það var hins vegar gert ráð fyrir því, að sú breyting yrði hvað varðar Akureyri, að það yrði þegar í stað stofnuð þar raungreinadeild til viðbótar við undirbúningsdeild tækniskóla, sem þar hefur verið, og að það skyldi stefnt að því að koma upp sjálfstæðum tækniskóla á Akureyri. Eins og hv. d. gekk frá frv. við 2. umr., munaði því ekki miklu, að búið væri að ákveða, að tæknimenntun hliðstæð því, sem er í Reykjavík, væri sett á stofn á Akureyri, en þó var það ekki fullkomið. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hreyfði því hér í umr. í gær, að betur færi á því, að það stæði í 1. gr. frv., að Tækniskóli Íslands skyldi vera í Reykjavík og á Akureyri og fór þess á leit, að menntmn. tæki málið til frekari meðferðar. Það var gert á fundi n. í morgun, og þar ákveðið að bera fram brtt. þær af hálfu n., sem eru á þskj. 681.

Þessar breytingar eru þannig, að það er lagt til, að 1. málsl. 1. gr. frv. hljóði svo:

„Tækniskóli Íslands starfar í Reykjavík og á Akureyri, sbr. 3. mgr. 7. gr.“ En 3. mgr. 7. gr. er ný mgr. í frv., sem gert er ráð fyrir í brtt. menntmn. á þskj. 681. Sú grein er á þá leið, að á næsta skólaári og framvegis skuli starfrækja á Akureyri undirbúningsdeild og raungreinadeild, og stefnt skuli að því, að á Akureyri verði sjálfstæður tækniskóli, og getur ráðh. ákveðið það með reglugerð. Þetta ákvæði er samhljóða því, sem var í 2. mgr. 7. gr., eins og frv. var samþ. til 3. umr. í gær, með einni undantekningu, og það er veigamikið atriði, því að í brtt. n. á þskj. 681 er tekið fram, að ráðh. geti ákveðið með reglugerð, hvenær skólinn á Akureyri verði sjálfstæður tækniskóli. En þegar talað er um sjálfstæðan tækniskóla, þá er ekki reiknað með, að skólinn verði fluttur úr Reykjavík, heldur að það verði stofnaður annar skóli með sérstjórn á Akureyri. Þetta telur n. eðlilegt að leggja til, að skólarnir verði tveir með tilliti til þess, að telja verður, að það séu næg verkefni fyrir a. m. k. tvo skóla nú á næstunni, sem veita kennslu hliðstæða því, sem Tækniskóli Íslands veitir í dag.

Ég vænti þess, að þessar viðbótarbrtt. frá menntmn. mæti skilningi hv. deildar og verði samþykktar.