10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að vara eindregið við þeim hugmyndum, sem fram hafa komið innan þings og utan, að flytja Tækniskóla Íslands frá Reykjavík til Akureyrar. Sannleikurinn er sá, að ég held, að sú stofnun í höfuðstaðnum sé vandfundin, sem er verr til þess fallin að vera flutt af höfuðborgarsvæðinu og út á land heldur en einmitt Tækniskólinn. Ástæðan er sú, að varla nokkur skóli á landinu, að Háskólanum þó e. t. v. frátöldum, þarf á að halda sérhæfðara kennaraliði heldur en einmitt Tækniskólinn, kennaraliði, sem hvergi er völ á nema í Reykjavík. Í byggingardeild skólans einni, — nám hennar tekur þrjú ár, — starfa í vetur hvorki meiri né minna en 34 kennarar. Þar af eru aðeins 6 fastráðnir kennarar, en 28 kennarar eru lausráðnir og eru verkfræðingar, tæknifræðingar og arkitektar. Það er útilokað, að hægt væri að njóta kennslukrafta 28 verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta á Akureyri, og þó munu starfa þar flestir utan Reykjavíkur, enda hefur reynslan sýnt, að mjög erfitt hefur reynzt að koma upp því kennaraliði, sem nú starfar við Tækniskólann og er ágætt og fjölmenntað. Þegar hliðsjón er höfð af því, að þetta á við byggingardeildina eina, en brýna nauðsyn ber til að fullmennta innanlands sem fyrst bæði rafmagns- og véltæknifræðinga, þá má geta nærri, hversu kennaraliðinu þarf að fjölga mikið í framhaldi af því. Það væri ógerningur að fullmennta auk byggingarfræðinga rafmagns- og véltæknifræðinga nokkurs staðar á landinu nema í Reykjavík.

Þá má á það minna, að Tækniskólinn hefur víðtæka samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins á Keldnaholti og nýtur alveg bráðnauðsynlegrar tilraunaaðstöðu þar. Á það má enn fremur minna, að á döfinni er að koma upp tækjamiðstöð í Reykjavík. Það er eitt hið brýnasta nauðsynjamál Tækniskólans, að það gerist sem fyrst. Tækjamiðstöðin verður auðvitað í Reykjavík, og ef Tækniskólinn yrði þá kominn til Akureyrar, þá yrði ekkert af þeirri nauðsynlegu samvinnu og sjálfsögðu samvinnu, sem á milli slíkra stofnana er fyrirhuguð.

Meginrökin gegn því að flytja Tækniskólann frá Reykjavík eru sem sagt þau, að eingöngu í Reykjavík er völ á jafn sérhæfðu kennaraliði og Tækniskólinn þarf á að halda. Ef Tækniskólinn yrði fluttur frá Reykjavík, hlyti kennsla við hann að setja niður, m. ö. o.: það yrði dregið úr gæðum þeirrar menntunar, sem þessi mikilvægi skóli veitir, og það væri að sjálfsögðu verulegt spor aftur á bak.

Tækniskólinn er einn af yngstu skólum landsins, en jafnframt einn af mikilvægustu skólum landsins. Hann hefur undanfarin ár verið í uppbyggingu, og uppbygging hans þarf að halda áfram. Jafnvel bollaleggingar um hugsanlegan flutning hans geta orðið til þess eins að tefja nauðsynlega uppbyggingu skólans. Ákvörðun um að flytja hann mundi að mínu viti beinlínis stöðva nauðsynlega uppbyggingu skólans. Það þarf sem fyrst að hefja byggingarframkvæmdir í þágu skólans hér í Reykjavik. Meðan verið er að bollaleggja nm, að hugsanlega sé rétt að flytja skólann, og meðan það er óvíst hvort það verður gert eða gert ekki, má gera ráð fyrir því, að endanlegar ákvarðanir um byggingarframkvæmdir tefjist, og það bæri að sjálfsögðu að harma og það yrði að sjálfsögðu harmað.

Þess má einnig geta í þessu sambandi, þó að ég telji það ekki skipta meginmáli, — ég tel það vera meginatriði, sem ég er þegar búinn að lýsa, — en rétt er að geta þess einnig, að langflestir nemendanna eru búsettir í Reykjavík eða a. m. k. á Reykjavíkursvæðinu, langflestir þeirra. Meðalaldur þeirra er tiltölulega hár, um það bil 22 ár, og margir þeirra eru fjölskyldufeður. Það gefur auga leið, hvílíkur kostnaðarauki það mundi verða fyrir þá, sem tækninám stunda, ef þeir yrðu að sækja það burt af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Það virðist liggja nokkuð beint við, að ef sú ákvörðun yrði tekin, yrði að koma upp heimavist með ærnum kostnaði fyrir nemendurna á Akureyri eða hvar sem skólinn yrði annars staðar en hér í Reykjavík, en engum dettur í hug, að bygging heimavistar fyrir Tækniskólann hér í Reykjavík sé nauðsynleg. Þó endurtek ég, að ég tel búsetu nemendanna ekki merg málsins, heldur hitt, að gæði kennslunnar, gæði skólans hlytu að stórrýrna, ef hann yrði fluttur frá Reykjavík.

Hitt get ég fúslega tekið undir og tel skynsamlega stefnu, að hafa undirbúningsdeild undir tækninámið á Akureyri, jafnvel einhvern hluta námsins í upphafi mætti stunda þar, en fullmenntun byggingartæknifræðinga, að ég ekki tali um rafmagns- og véltæknifræðinga, er óhugsandi, ef vel á að vera, utan Reykjavíkur. Og þetta tel ég algerlega kjarna málsins.

Með þessum orðum er ég engan veginn að andmæla því, sem sumir kalla nú byggðastefnu, þ. e. að rétt sé að dreifa stofnunum ríkisins og stofnunum þjóðfélagsins yfir höfuð að tala meira um landið heldur en nú á sér stað. Þá stefnu tel ég tvímælalaust vera heilbrigða. Við höfum verið of sinnulausir um það að láta stofnanir safnast saman hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu yfir höfuð að tala. Við höfum látið það viðgangast með algerlega óeðlilegum hætti, að Reykjavík ein þætti hæf til þess að hýsa merkar þjóðfélagsstofnanir. Margar þeirra gætu allt eins vel starfað á Akureyri eða Ísafirði eða Seyðisfirði eða Siglufirði og annars staðar á landinu utan Reykjavíkur yfir höfuð talað. Mér finnst, ef ríkisvaldið, ef þeir, sem nú ráða málum í landinu, hafa raunverulegan áhuga á því að efla t. d. Akureyri sem annan höfuðstað í landinu, sem ég tel vera skynsamlegt og vera heilbrigða þróun, þá eru margar stofnanir hér í landinu miklu betur til þess fallnar að vera fluttar til Akureyrar heldur en skóli eins og Tækniskólinn, sem er sérhæfðasti skóli landsins. Ég skal nefna t. d. Búnaðarfélagið og Fiskifélagið. Ég segi í fyllstu alvöru, að ríkisstj. ætti að taka það til athugunar að flytja skrifstofur og starfsemi Búnaðarfélags og Fiskifélags frá Reykjavík og einmitt til Akureyrar. Hvaða ástæða er til þess, að allir starfsmenn Búnaðarfélagsins, allir skrifstofumenn og starfsmenn aðrir, starfi hér í Reykjavík? Þeir hafa engu betri starfsaðstöðu í Reykjavík en á Akureyri, síður en svo. Og hvaða ástæður eru til þess, að starfsmenn Fiskifélagsins, bæði skrifstofumenn og jafnvel vísindamenn, hafi aðsetur hér í Reykjavík? Þeir eru engu verr settir á Akureyri en í Reykjavík. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., að hún athugi það í fyllstu alvöru, hvort ekki komi til greina, hvort ekki sé rétt að flytja t. d. Búnaðarfélagið og Fiskifélagið, — ég skal ekki nefna fleiri stofnanir að sinni, sem ég tel geta komið til mála, en þessar tvær. Hafi ríkisstj. ekki áhuga á því að flytja Búnaðarfélag og Fiskifélag til Akureyrar, þá dreg ég þá ályktun af byggðastefnutali ýmissa fylgismanna hennar og annarra, að ekki fylgi alls kostar hugur máli.

Það getur ekki verið umhyggja fyrir Tækniskólanum, sem veldur því, að hugmynd hefur skotið upp kollinum um að flytja hann frá Reykjavík til Akureyrar. Það getur ekki verið. Það er umhyggja fyrir Akureyri. Það er umhyggja fyrir eflingu Akureyrar. Þá umhyggju get ég skilið, hún á fullkomlega rétt á sér. En það á þá að framkvæma hana með réttum og skynsamlegum hætti. Vilji menn efla Akureyri, þá er hægt að efla hana með því að flytja Búnaðarfélagið og flytja Fiskifélagið til Akureyrar. Það gerir þessum stofnunum bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut til. Það kemur að engu leyti niður á starfsemi þeirra, en Akureyri mundi eflast mjög verulega við þetta. Hins vegar er ómögulegt með nokkru viti að andmæla, að það mundi koma niður á Tækniskólanum, ef hann yrði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar. Það mundi rýra gæði skólans, það mundi rýra gæði þeirrar kennslu, sem þar á sér stað.

Ég sé, að aðrir hafa kvatt sér hljóðs, virðulegir þm., sem ég þykist vita að hafa aðra skoðun á þessu máli en ég. Mér þætti mjög girnilegt að heyra skoðun einmitt slíkra þm., sem bera eflingu Akureyrar sérstaklega fyrir brjósti, á þeirri hugmynd að flytja Búnaðarfélagið og Fiskifélagið til Akureyrar.