18.05.1972
Efri deild: 89. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um Tækniskóla Íslands, hefur áður verið til afgreiðslu í Ed. og þar voru nokkrar breytingar gerðar á frv. Þær breytingar hafa nú verið staðfestar í Nd., en aftur á móti hefur Nd. gert þá breytingu á frv., að sett er upp sérstök skólastjórn, sem segja mætti að væri nokkurs konar innri stjórn skólans, en eftir sem áður er skólinn undir stjórn skólanefndar, sem skipuð er fulltrúum ýmissa aðila utan skólans. Ég get lýst því yfir fyrir eigin munn, að ég tel, að þessi breyting sé tvímælalaust til bóta og hefði gjarnan mátt koma í meðförum Ed., og ég hef ekkert við þessa breytingu að athuga, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess persónulega, að menntmn. fjalli um þessa breytingu.