24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í málefnasamningi ríkisstj. er því lýst yfir, að stjórnin vilji að því stuðla að bæta kjör og afkomu verkafólks, bænda, sjómanna og annarra þeirra, sem við hliðstæð kjör búa. Síðan segir í málefnasamningnum, að í því skyni, að hægt verði að tryggja láglaunafólki árlegar og eðlilegar kjarabætur, muni ríkisstj. beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í kjaramálum:

1. Vinnuvikan verði með lögum stytt í 40 stundir án breytinga á vikukaupi.

2. Orlof verði lengt í 4 vikur og framkvæmd orlofslaga auðvelduð.

3. Kaupgjaldsvísitalan verði leiðrétt um þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögunum, og komi sú leiðrétting þegar til framkvæmda.

4. Þau 2 vísitölustig, sem ákveðið var í verðstöðvunarlögunum, að ekki skyldu reiknuð í kaupgjaldsvísitölu fram til 1. sept., verði strax tekin inn í kaupgjaldsvísitöluna.

Og að lokum var því lýst yfir, að auk þeirra kjarabóta, sem að framan greinir, telji ríkisstj., að með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. eigi að vera mögulegt að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars láglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum, og muni hún beita sér fyrir því, að þessu marki verði náð.

Nú kunna menn að spyrja: Hvað er nú með efndir þessara fyrirheita? Jú, það er fljótsagt, að kaupgjaldsvísitalan hefur verið leiðrétt og hinum niður felldu vísitölustigum þannig skilað aftur. Sama er að segja um vísitölustigin tvö, sem frestað hafði verið að reikna með í kaupgjaldsvísitölu. Og nú hefur verið lagt fyrir hv. Alþ. frv. til laga um 40 stunda vinnuviku og einnig frv. til laga um orlof, þ.e. lengingu þess úr 3 vikum í 4 víkur. Í þessum frv. báðum felast umtalsverðar réttinda- og kjarabætur. Þegar frv. þessi hafa öðlazt lagagildi, hefur fyrirheitum þeim, sem ég áðan greindi frá, öllum verið fullnægt.

Ég vil vænta þess, að ekki gæti mikillar tregðu hér á hv. Alþ. um viðurkenningu þeirra réttarbóta, sem í frv. þessum felast verkafólki til handa. Andspyrna við þau væri raunar í algeru ósamræmi við afstöðu þeirra hv. þm., sem studdu fyrrv. ríkisstj., en hún stytti vinnutíma starfsmanna ríkisins úr 44 stundum á viku í 40 stundir eða gerði nákvæmlega hið sama, sem verið er að gera með frv. því, sem hér er til umr. varðandi fólkið við framleiðslustörfin, erfiðu störfin í þjóðfélaginu, fólkið í verkalýðshreyfingunni. Með fordæmi það í huga, sem fráfarandi stjórn gaf, væri um algert misrétti að ræða, ef ekki kæmi sams konar leiðrétting, sem nú er fram borin í frv. um 40 stunda vinnuviku. Ég vænti þess því, að hv. þm., hvar í flokki sem þeir standa, verði sjálfum sér samkvæmir varðandi þetta mál.

Ekkert var raunar auðveldara fyrir mig en að snara strax fram frv. um styttingu vinnuvikunnar í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans. En það taldi ég þó að athuguðu máli óhyggilegt að gera. Þetta er allstórt mál og varðar mjög báða aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna taldi ég affarasælast að gefa bæði Alþýðusambandi Íslands og samtökum atvinnurekenda kost á að fjalla um málið strax á undirbúningsstigi þess. Ég kvaddi því strax í haust fulltrúa þessara samtaka á minn fund og innti þá eftir, hvort þeir vildu eiga samstarf um undirbúning lagasetningar um styttingu vinnuvikunnar úr 44 stundum í 40 stundir. Og er þar skemmst af að segja, að þótt atvinnurekendur lýstu sig strax andvíga lagasetningu um málið, þá vildu þeir þó heldur eiga hlut að því, hvernig lagasetningu yrði háttað, ef fastákveðið væri á annað borð, að lög yrðu sett um þetta. Niðurstaðan varð því sú, að samstarfsnefnd var sett til að semja frv. til laga um styttingu vinnuvikunnar. Alþýðusamband Íslands tilnefndi þrjá menn í n., Vinnuveitendasamband Íslands tvo og Vinnumálasamband samvinnufélaganna einn, þannig að verkið skyldi unnið af jafnmörgum mönnum frá verkalýðssamtökum og samtökum atvinnurekenda. Ráðuneytisstjórinn í félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, var svo oddamaður í n. og formaður hennar.

Síðan hefur starfið verið í höndum þessarar n., sem að mínu áliti hefur nú skilað ágætu verki. Fram hafa komið m.a. í blöðum ásakanir í garð ríkisstj. um að hafa legið á málinu og tregðazt við að efna gefin loforð um styttingu vinnuvikunnar. En þessar ásakanir eru tilefnislausar með öllu og eru áreiðanlega á algerum misskilningi byggðar. N. lauk störfum nú s.l. laugardag. Sérstakar ráðstafanir voru gerðar til að fá frv. prentað á sunnudag, og því var svo útbýtt, að ég hygg, hér í þinginu á mánudag. Annars væri réttast, að fulltrúar Alþýðusambands Íslands segðu til um það, hvort það sakar félmrn. um að hafa dregið málið á langinn eða ekki, því að ásakana um slíkt er sennilega ekki að vænta frá atvinnurekendum eðli málsins samkvæmt, þar sem þeir hefðu látið sér í léttu rúmi liggja, þó að það kynni að dragast eitthvað á langinn.

Með tilliti til hinna viðamiklu og viðkvæmu kjarasamninga, sem nú standa yfir, held ég, að það hafi verið vel ráðið að leita fulls samráðs við samtök atvinnurekenda um samningu þess frv., sem hér liggur nú fyrir. Í skipunarbréfi n., sem frv. samdi, sagái, að nú ætti að semja frv. til laga um vinnutíma, sérstaklega með það fyrir augum, að vinnuvikan verði með lögum stytt í 40 stundir án skerðingar á vikukaupi. Þessu meginmarkmiði lagasetningarinnar er fullnægt með ákvæðum 2. og 8. gr. frv. 40 dagvinnutímar í viku eru hámarksákvæði, og það er líka beint fram tekið, að heimilt sé að semja um skemmri vinnuviku. Af ákvæðum frv. leiðir, að sú upphæð, sem nú er greidd fyrir 44 klukkustundir, skal, þegar það hefur hlotið lagastaðfestingu, greiðast óskert fyrir 40 unnar stundir. Þetta er óneitanlega veruleg kauphækkun, en á móti koma vafalaust í hlut atvinnurekenda aukin vinnuafköst, enda hefur sú orðið reynslan í öllum þeim löndum, þar sem reynsla af styttingu vinnutíma hefur verið könnuð nákvæmlega.

Um auknar vinnutekjur verkafólks er þó ekki að ræða, ef aðeins er unninn lögákveðinn dagvinnutími. Þannig kemur því aðeins til aukins vinnulaunakostnaðar hjá atvinnurekendum, að þeir látí vinna aukavinnu, og það er ávallt undir mati og ákvörðun þeirra sjálfra komið, en ekki verkafólksins. Í aths. með frv. er gerð nákvæmlega grein fyrir efni þess, og vísast til þess, sem þar segir. Lögin skulu taka gildi 1. jan. 1972.

Á fskj. með frv. gera fulltrúar atvinnurekenda grein fyrir sjónarmiðum sínum og helztu ágreiningsefnum. Þar kemur fram, að þeir telja vinnutímastyttinguna of mikla, og gera þar samanburð á Íslandi og nágrannalöndum okkar, og það er rétt, að verði frv. að lögum, verður nettóvinnutími nokkru styttri en í nágrannalöndum okkar. En ég vil ekki viðurkenna það sem neitt algilt lögmál, að Ísland skuli í einu og öllu og alltaf vera eftirbátur annarra þjóða, og það er rétt, að við lögfestingu frv. yrðum við Íslendingar í fremstu röð þjóða varðandi vinnutíma. Fulltrúi Vinnumálasambands samvinnufélaganna játar þó hreinskilnislega, að búið sé að segja á með ákvörðun um 40 stunda vinnuviku opinherra starfsmanna og því verði ekki hjá því komizt að segja b. Um þetta segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins ber þó að gæta, að í des. 1970 gerðu stjórnvöld samninga við starfsmenn ríkisins, þar sem ákveðin er stytting vinnuvikunnar úr 44 klst. í 40 klst. á viku „brúttó“, þ.e. að meðtöldum greiddum kaffitímum og aukahelgidögum. Samkv. þessu er t.d. vinnutími verkamanna, iðnaðarmanna og verzlunarfólks í opinberri þjónustu 35.13–35.27 unnar klst. á viku.

Er ljóst, að fordæmi sem þetta hefði gefið tilefni til þess að taka vinnutímamálin til sérstakrar meðferðar í yfirstandandi samningagerðum milli aðilanna á hinum almenna vinnumarkaði.“

Ég vek athygli á, að þetta eru orð atvinnurekendafulltrúa, og það er ekki sízt þetta fordæmi fyrrv. stjórnar, sem veldur því, að ekki fékkst heldur samkomulag um annað meginágreiningsmál aðilanna á vinnumarkaðinum, sem sé það, hvort vinnutímastyttingin ætti að eiga sér stað í einum áfanga frá næstu áramótum að telja eða í tveimur eða fleiri áföngum. Fulltrúum verkamanna fannst það undansláttur frá jafnréttiskröfu, ef málið væri ekki leyst í einum áfanga. En það sýnir þó bezt, að til verks hefur verið gengið með fullum samkomulagsvilja og sáttahug, að fallizt var á svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði aftan við frv.:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara er aðilum vinnumarkaðarins [þ.e.a.s. hinum einstöku verkalýðsfélögum í þessu tilfelli heimilt að semja um að fresta til 1. jan. 1973 allt að helmingi þeirrar styttingar vinnuvikunnar, sem af gildistöku laganna leiðir.“

Þetta er bráðabirgðaákvæðið. Í þeim tilfellum, að slíkir samningar væru gerðir, mundi sem sé þessi aðgerð eiga sér stað í tveimur áföngum, og mundi þá kauphækkun, sem því næmi, koma á móti. Þarna er bersýnilega haldið opnum dyrum, þar sem gagnkvæmur vilji kynni að vera fyrir hendi um að leysa málið í tveimur áföngum.

Herra forseti. Með því, sem ég nú hef sagt, hef ég leitazt við að skýra þetta mál, svo að það liggi í meginatriðum fullljóst fyrir öllum hv. alþm. Ég þakka svo öllum þeim, sem unnið hafa að samningu frv. og þannig stuðlað að farsællegri lausn málsins. Ég legg svo til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. deildarinnar.