12.05.1972
Neðri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

250. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem lagt var fram á þskj. 547, hefur komið frá háskólaráði og gerir ráð fyrir breytingum á nokkrum greinum háskólalaganna. Breytingin, sem felst í 1. gr., lýtur fyrst og fremst að því, að fulltrúar stúdenta séu kjörnir þannig til setu í háskólaráði, að samhengi verði þar í störfum af þeirra hálfu, þannig að ekki víki báðir úr ráðinu í einu, heldur víki þeir þaðan til skiptis.

Breytingin, sem felst í 2. gr. frv., till. um breytta 10. gr. háskólalaga, er í samhengi við 8. gr. frv., sem hér liggur fyrir og fjallar um breytingu á 38. gr. háskólalaganna. Þessi breyting lýtur að því, að við Háskólann megi ráða kennara, sem þar hafi kennsluskyldu, en gegni rannsóknaskyldu við stofnanir utan Háskólans. Þetta á við tilvik þegar svo hagar til, að ófær tvíverknaður þykir kostnaðar vegna að koma upp sérstakri rannsóknaaðstöðu við Háskólann, úr því að hann er fyrir áður við aðrar stofnanir.

3. gr. fjallar um breytingu á stöðuheitum. Það heimilar að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu samkv. ákvæðum, sem sett verði um það í reglugerð.

Í 4. gr. er fjallað um, að háskólaráð ákveði starfsskyldu einstakra háskólakennara, hvernig starfsskyldan skiptist milli kennslu og annarra starfsþátta, sem sé stjórnunar og rannsókna. Vilji kennari ekki una þeirri úrlausn, sem háskólaráð veitir um þetta efni, má hann skjóta úrlausninni til ráðh.

5. gr. fjallar um það, að rýmka aðgang námsmanna, sem ekki hafa lokið stúdentsprófi, að Háskólanum. Bæði er þar um að ræða þá, sem lokið hafa öðru fullnaðarprófi frá menntaskóla en stúdentsprófi, en ráð er fyrir slíku gert í nýju menntaskólalögunum. Sömuleiðis skrásetningu einstaklinga, sem lokið hafa öðru námi með árangri, sem metinn er veita þeim rétt til háskólanáms.

6. gr. fjallar um það, að þegar ekki er völ hérlendis á prófdómara utan Háskólans til að dæma próf í einstökum greinum, megi taka prófdómara úr röðum háskólakennara. Þetta er vegna vandamáls, sem upp hefur komið við félagsfræðikennslu, og er að sjálfsögðu undantekningarákvæði, sem ekki yrði beitt nema nauður ræki til.

Loks er í 7. gr. fjallað um það, hversu háskóladeildir geta með samþykki háskólaráðs veitt heiðursdoktorsnafnbætur. Breytingin, sem í henni felst, er sú, að í stað samþykkis allra, sem atkvæðisbærir eru um heiðursdoktorsnafnbót, þurfi ekki nema samþykki 3/4 hluta atkvæðisbærra deildarmanna. Þessi breyting styðst við það, að þegar ákvæðið var sett um algjörlega einróma afgreiðslu heiðursdoktorskjörs, voru deildir afar fámennar, en nú eru komnar upp það fjölmennar deildir, að þeir, sem atkvæðisrétt eiga, skipta jafnvel tugum.

Eitt ákvæði þessara laga, það, sem um er fjallað í 2. gr. og 8. gr., um skipun háskólakennara með kennsluskyldu í Háskólanum, er gegni rannsóknaskyldu utan hans, er umdeilt í röðum háskólamanna. Því var breytt í meðförum Ed. eins og fram kemur á þskj. 709. Þar er þessi heimild þrengd og bundin við eina deild Háskólans, verkfræðiskor raungreinadeildar eingöngu. Sömuleiðis var í meðförum Ed. breytt 5. gr., þannig að hún var enn rýmkuð, þannig að í stað þess að fjallað skyldi um hverja einstaka umsókn frá þeim, sem ekki hafa stúdentspróf til inngöngu, bæði á deildarstigi og af hálfu rektors, er fortakslaust ákvæði um, að raungreinadeildarpróf frá Tækniskóla Íslands veiti rétt til skrásetningar til verkfræðináms og sömuleiðis, að heimilt sé að setja í reglugerð ákvæði um, að ákveðin próf frá íslenzkum skólum veiti rétt til skrásetningar í tiltekið nám við Háskólann. Þar er sem sagt gert ráð fyrir, að tiltekin próf önnur en stúdentspróf veiti af sjálfu sér rétt til inngöngu, að vísu takmarkaðan, í stað þess að fjalla þurfi sérstaklega um hverja umsókn. Ég vil skýra hv. deild frá því, að þetta ákvæði, eins og því er þarna háttað, mun einnig vera umdeilt innan Háskólans.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. menntmn.