24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Ingvar Jóhannsson:

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr. um 40 stunda vinnuviku, fylgja tvö sérálit, annars vegar sérálit þeirra Björgvins Sigurðssonar og Hauks Björnssonar, fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands, og hins vegar Júlíusar Valdimarssonar, fulltrúa Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Fram kemur nokkurn veginn samdóma álit þessara fulltrúa hinnar ráðherraskipuðu n., sem sjá átti um samningu frv. til laga um vinnutíma, sérstaklega eins og fram kemur í skipunarbréfi n., með það fyrir augum, að vinnuvika verði með lögum stytt í 40 stundir án skerðingar á vikukaupi. Þessi tvö sérálit eru í samræmi við niðurstöður kjararannsóknarnefndar, sem er hlutlaus n., skipuð fulltrúum vinnumarkaðarins. Í skýrslu kjararannsóknarnefndar frá 18. ágúst 1971 um raunhæfan samanhurð vinnutíma í Svíþjóð, Noregi og Danmörku kom m.a. eftirfarandi í ljós:

Vinnutími er lengstur á Íslandi, 44 klst., en stytztur í Danmörku, 41 klst. og 45 mín. Greiddir helgidagar eru svipaðir hjá öllum löndunum, eða frá 1.16 klst. á viku í Noregi til 1.36 klst. í Svíþjóð. Hins vegar eru Íslendingar einir um að hafa greitt hlé, þ.e.a.s. kaffitímann, sem er 3.40 klst. á viku hjá Dagsbrún. Af þessu leiðir, að þótt lengstur vinnudagur sé á Íslandi, verða unnar vinnustundir á viku fæstar eða 38.50 klst., en í Svíþjóð 40.54 klst., í Danmörku 40.30 klst. og í Noregi 41.14 klst. Orlof eru 3.5 vika eða 21 virkur dagur á Íslandi og í Danmörku, en 4 vikur eða 24 virkir dagar í Svíþjóð og Noregi.

Með tilkomu efnahagsbandalaganna og inngöngu Íslands í EFTA hefur þörfin á meiri samræmingu á vinnutímatilhögun og annarri aðstöðu íslenzkra atvinnuvega orðið æ brýnni, til þess að hægt sé að vega samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum löndum. Aðrar þjóðir hafa skilgreint hugtakið 40 stunda vinnuviku sem raunverulega virkan vinnutíma, þ.e.a.s. þann tíma, sem starfsmaður er við framleiðslustörf. Matar- og kaffihlé lengja aðeins viðverutíma hjá starfsmönnum þessara þjóða. Þótt hér hafi viðgengizt, að kaffihlé teljist til vinnutíma, þá verður það að teljast mjög varhugavert að lögfesta vinnutíma að kaffitíma meðtöldum niður í 40 klst. dagvinnu á viku. Slíkt mun óneitanlega hafa alvarleg áhrif á samkeppnisaðstöðu íslenzkra atvinnuvega í framtíðinni. Með samþykkt þessa frv. óbreytts mun virkur dagvinnutími á viku fara niður í tæpar 35 klst. eða milli 5 og 6 klst. skemmri dagvinnu á viku en á hinum Norðurlöndunum.

Af því, sem hér að framan hefur verið sagt, er ljóst, að með frv. þessu óbreyttu er verið að lögfesta stytztu vinnuviku, sem vitað er um í allri Vestur-Evrópu. Ég vil því aðeins spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. hafi við gerð málefnasamnings sins gert sér grein fyrir þeim mismun virkrar dagvinnuviku hér og í nágrannalöndum okkar. Auk þess er rétt að geta þess, að fækkun vinnustunda í dagvinnu leiðir óhjákvæmilega til aukningar á eftir- og næturvinnu, og sé reiknað með óbreyttri álagsprósentu fyrir eftir- og næturvinnu, skal þess getið, að hún er mun hærri hér á landi en á öðrum Norðurlöndum.

Ég hef við I. umr. þessa máls viljað vekja athygli á þessum sjónarmiðum, því að vissulega er það svo með þetta mál eins og mörg önnur, að á því eru tvær hliðar. Vinnutímastyttingin mun koma mjög mismunandi niður í hinum ýmsu starfsgreinum, því að í sumum hverjum mun þetta leiða til tekjuaukningar hjá launþegum, vegna þess að verkefnum verður að ljúka án tillits til þess, á hvaða tíma sólarhringsins er, eins og t.d. í fiskiðnaði. Í öðrum atvinnugreinum, t.d. í iðju, verður engin aukning á heildartekjum launþega.

Frv. það, sem hér er til umr., er vottur um breytingu á starfsaðferðum stjórnvalda, hvað viðvíkur deilum samningsaðila vinnumarkaðarins. Hingað til hefur löggjöf varðandi lausn vinnudeilna verið í samræmi við niðurstöður samkomulags deiluaðila og frv. því verið flutt í samkomulagi við þá, nema um hafi verið að ræða sérstakar bráðabirgðaráðstafanir. Með frv. þessu er brotið blað í afskiptum ríkisstj. af kjarasamningum, og kom reyndar skýrt fram í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., að ætlunin er að blanda sér beint í þau mál, sem hingað til hafa verið samningsatriði aðila vinnumarkaðarins. Það er skoðun mín, að sú staðreynd, að enn hafa ekki náðst samningar milli aðila á vinnumarkaðinum þrátt fyrir tveggja mánaða samningaumleitanir, sé bein afleiðing af þessum nýtilkomnu afskiptum hæstv. ríkisstj. af þessum viðkvæmu málum. Á þessum málum hefur verið tekið með fádæma klaufalegum hætti, og því hefur nú svo farið sem farið hefur, að verkföll hafa verið boðuð eftir fáa daga.

Ég lýsi því afdráttarlaust yfir sem minni skoðun, að lengd vinnutíma á að ákveða með frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins, en ekki með einhliða valdboðum stjórnvalda, eins og gert er í einræðisríkjum. Það er því nauðsynlegt, að þetta mál fáí nákvæma skoðun og yfirvegun í n., áður en til 2. umr. kemur.