17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

250. mál, Háskóli Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hér mun hafa verið gerð grein fyrir áðan, er með þessum brtt. frá menntmn. gert ráð fyrir að færa þetta mál í mjög svipaðan búning og það var upphaflega, þegar það var lagt fram fyrir hv. Ed., og rektor Háskólans og háskólastjórnin mæla með því, að þessi háttur verði á hafður, sem menntmn. d. leggur nú til að verði aftur settur inn í frv„ en þeim ákvæðum hafði verið breytt í hv. Ed. N. leggur því til, að farið verði að ráðum háskólarektors og stjórnar Háskólans. En það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður tók fram, að forustumenn háskólakennarafélagsins hafa varað við þessu og eru annarrar skoðunar, eins og hann rakti.

N. taldi skynsamlegt að fara hér að ráðum háskólarektors, sem telur, að þeir geti ekki mannað Háskólann næsta haust heppilega, nema að fá þessi nýju lög gerð úr garði á þá lund, sem menntmn. d. leggur til. Það má ræða mikið um þetta fram og aftur. Það má benda á ýmsa ágalla á því fyrirkomulagi, sem stungið hefur verið upp á að viðhafa í þessu. En áreiðanlega fleiri ágalla á því að verða ekki við óskum rektors og háskólastjórnarinnar og þess vegna tók menntmn. þann kostinn að leggja það til.