17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

250. mál, Háskóli Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég skal nú vera skjótorður, því að mörg mál liggja fyrir deildinni. En ég vildi þó í tilefni af því, sem hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, sagði, taka fram eftirfarandi.

Hann lét í það skína, að það væri eins og menntmn. hefði að einhverju leyti vanrækt að hlýða á mál stjórnar Félags háskólakennara og hefði vanmetið þau rök, sem stjórn félagsins færir fram varðandi þær breytingar, sem menntmn. gerði á frv. frá Ed. Þessu er síður en svo svona farið. Menntmn. gerði sér fyllilega grein fyrir þeim vanda og þeim ágöllum raunar, sem felast í þessu frv. Ágallarnir eru þeir, að það geta myndazt einhvers konar tvær stéttir í Háskólanum. Önnur stéttin hefur aðalstarf í Háskólanum, sinnir rannsóknastörfum í Háskólanum og helgar starf sitt nær eingöngu Háskólanum, hin stéttin getur haft stöðu úti í bæ við opinbera stofnun, en að auki getur sá hópur fengið líka stöðu við Háskólann, haft raunverulega tvær stöður. Þannig gætu myndazt tvær stéttir með mismunandi aðstöðu, mismunandi launakjör. Þetta er mjög alvarlegt mál og n. gerði sér fyllilega grein fyrir þessu. Ég vil taka það fram. Það er ekkert nýtt, sem hv. 9. landsk. þm. sagði um það atriði. Hins vegar vil ég benda á það, að háskólayfirvöld töldu sig ekki geta mannað skólann, eins og síðasti ræðumaður tók fram, og hér varð að velja á milli tveggja kosta og við töldum rétt að fara að vilja háskólayfirvalda í þessu efni.

Þá vil ég bæta því við, að hér ríður á, að framkvæmd mála sér styrk. Það er gert ráð fyrir því um þá menn, sem geta haft tvær stöður, að þá sé þó a. m. k. um að ræða opinbera stofnun utan Háskólans. Og þar með gefst tækifæri, svo sem fyrir launamáladeild fjmrn. og aðra slíka, að tryggja, að þessum mönnum sé ekki ofgreitt. Það þarf að tryggja, að það safnist ekki upp her manna á einum og hálfum launum, og hér eru vissulega margar holur, en við treystum því, að hið opinbera, fjármálaeftirlitið, haldi þannig á málum, að spornað sé gegn þessu. Þetta er það, sem ég vildi segja. Það eru ágallar á þessu, en hér er valið á milli tveggja kosta og við völdum annan. Við höfum fullan skilning á áhyggjum Félags háskólakennara, því að það er óskemmtilegt á vinnustað, þótt það sé í Háskólanum, að hafa við hliðina á sér menn, sem hafa kannske aðra stöðu úti í bæ og eru á einum og hálfum launum. Þetta er ósköp skiljanlegt mál. Þetta hefur að vísu tíðkazt í læknadeild og e. t. v. í stöku öðrum deildum, en þetta er afskaplega óheppileg þróun. En því miður eigum við engra kosta völ og það var með þungri áhyggju, sem menntmn. lét þetta frá sér fara, þannig að það er alveg óþarft fyrir 9. landsk. þm. að slá sér hér á brjóst sem einhver málsvari Félags háskólakennara.