24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hlýt að fagna því, að þetta frv. er fram komið, ekki sízt með hliðsjón af því, að það voru einróma kröfur fólks úr öllum pólitískum flokkum, að ég hygg, að setja þetta inn í aðalkröfur verkalýðsfélaganna í þeirri deilu, sem verkalýðsfélögin standa nú í við vinnuveitendur um laun sín og kjör. Og ég á þá ósk eina í sambandi við framgang þessa máls, að hér verái, eins og sagt er á slæmu máli, um að ræða „effektíva“ aukna hvíld fyrir verkafólk almennt í landinu, en komi ekki fram í því, sem of oft vill brydda á hjá því miður of stórum hópi manna, sjálfsagt vegna lágra tekna, að það sé beinlínis gert að kröfu, þegar um nægjanlegt vinnuframboð er að ræða, að hlutaðeigandi fái svo og svo mikla eftirvinnu. Það er sem sagt von mín og ósk, að sá aukni frítími, sem frv. þetta boðar fyrir það fólk, sem lögin ná til, verði raunverulegur og fólkið fái raunverulega meiri hvíld frá oft erfiðum störfum, sem það innir af hendi.

Það er út af fyrir sig ekki út í bláinn að vitna til þess, að við starfsfólk ríkisins og velflestra bæjarfélaga hefur verið samið eða samkomulag við það gert í einu eða öðru formi um styttingu vinnutímans ofan í 40 stundir. Það mun vera hægt að leiða að því rök, að velflest af því fólki vinnur a.m.k. ekki svo líkamlega erfiða vinnu, að það sé sambærilegt við velflest það fólk, sem hér um ræðir, þó að ég harmi það á sama tíma, að of stór hópur verður eftir sem áður, þrátt fyrir samþykkt þessara laga, utan við þá tryggingu um hvíld, sem í lögum þessum felst, og á ég þá fyrst og fremst við sjómannastéttina, sem tvímælalaust vinnur áhættusömustu og líkamlega erfiðustu störf þjóðfélags okkar um leið og þau eru hin mikilvægustu hvað afkomuna eða þjóðarbúskapinn snertir.

En ég stend hér upp í fyrsta lagi til þess að láta ánægju mína í ljós með frv. og efni þess, en hlýt að harma það á sama hátt, hve margir verða þar út undan, sem lögin ná ekki til, svo sem í 1. gr. frv. greinir.

En þá kem ég að höfuðástæðunni til þess, að ég stend upp, en það eru tvær spurningar, sem mig langaái til að beina til hæstv. félmrh. Það er í fyrsta lagi: Með hvaða hætti er hugsað að ganga til móts við þær starfsstéttir, sem ekki koma undir lögin? Eiga þær að fá þær kjarabætur, sem tvímælalaust felast í þessum lögum fyrir þá, sem þeirra njóta, bættar með einhverjum öðrum hætti? Þetta er nauðsynlegt, að þetta fólk viti, og eðlilegt, að um sé spurt á þessum tíma.

Eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, og reyndar hæstv. ráðh. einnig, hafa þessi ákvæði ekki verið lögbundin fyrr, heldur verið samningsatriði verkalýðsfélaganna og eru, eins og ég áðan sagði, eitt af kröfuatriðum þeirra í núv. deilum. Af því leiðir aðra spurningu. Hún er þessi: Úr því að fyrirhugað er að leysa tvo liði í kröfugerð verkalýðsfélaganna nú með lagasetningu, þ.e.a.s. tvö fyrstu dagskrármálin hér í hv. þd. í dag, annars vegar það mál, sem hér er til umr., og hins vegar orlofslögin, er þá ætlunin að leysa deiluna í heild með lagasetningu? Nú er útlit þannig, eftir því sem haft er eftir forustumönnum beggja samningsaðila, að nánast ekkert miðar frá degi til dags í samkomulagsátt, og það eina, sem virðist eygjast í um niðurstöður, eru þau tvö frv., sem hér liggja frammi og ég áðan nefndi. Eftir er ein af þremur meginkröfum verkalýðssamtakanna, nefnilega kaupgjaldsliðurinn. Hugsar hæstv. núv. ríkisstj. sér að leysa hann einnig með lagasetningu, ef til hinna boðuðu vinnustöðvana kemur, því miður? Ég segi: því miður fyrir alla aðila í landinu, en ég hygg, að sá finnist ekki, sem telji, að ágóði geti orðið af vinnustöðvun, þá í hæsta lagi ímyndaður pólitískur ávinningur fyrir einhverja aðila, sem ég þekki ekki í dag. En fyrir þá aðila, sem í deilunni standa, og þjóðfélagið í heild, verður það ávallt neyðarúrræði og hefur ekki verið til þess gripið, nema fulla nauðsyn beri til. En það et ljóst af öllu því, sem eftir forustumönnum þessara samtaka er haft og maður heyrir af því fólki, sem væntanlega mun þátt taka í vinnudeilunni, að þessi tvö frv. nægja ekki til að leysa yfirvofandi vinnudeilu. Og þess vegna er önnur spurning mín þessi, sem ég ítreka hér með: Hugsar hæstv. núv. ríkisstj. sér að leysa aðra þætti deilunnar en þá, sem um er fjallað í þessum tveimur frv., með lagasetningu?

Það er óþarfi að eyða dýrmætum tíma forustumanna verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda í samningaumleitanir, sem nú hafa staðið, eins og áður hefur verið bent á, yfir rúmlega tveggja mánaða skeið, ef þetta er hugsun ríkisstj., og ég held, að það sé eðlilegt, að það komi fram, þegar verið er að leysa hluta af þeim kröfum, sem verkalýðshreyfingin hefur lagt fram.

Eitt atriði að lokum, sem ekki er fsp., heldur aðeins til áminningar fyrir okkur öll. Þegar frv. að meginefni, það, sem hér hefur verið lagt fram, og það, sem fyrr er á dagskránni, eru orðin að lögum, þá hvílir önnur þung skylda á verkalýðssamtökum okkar, ekki sízt og kannske fyrst og fremst með hliðsjón af því, að mikið hefur verið vitnað til Norðurlandanna. Ég skal ekki rengja þær tölur, sem fulltrúar atvinnurekenda hafa hér lagt fram í fskj. sínum og sérálitum. Með hliðsjón af því, að þær séu réttar, þá munum við verða í fremstu röð með stuttan vinnutíma að þessum frv. samþykktum. En þá hvílir sú þunga skylda á okkur, að jafnframt séu gerðar ráðstafanir til þess, að verkafólki okkar sé gert kleift með einhverjum þeim hætti, sem fyrirmyndir eru til á Norðurlöndum um, að verja auknum frítíma sínum á hagkvæman og heilsusamlegan hátt. Það er bein afleiðing af þessu frv. og reyndar auknu orlofi einnig, að þetta sé gert mögulegt því fólki, sem nú á þess vart kost, því miður, vegna efnalegrar fátæktar að njóta þess sumarleyfis, sem lög annars bjóða því. Ég hlýt að minna á þetta atriði hér, því að það er ekki nægjanlegt eitt að sýna þessu fólki lög, sem hafa verið samþ., og afrek, sem hafa verið unnin því til handa, ef þessi afrek koma ekki fram í raunveruleikanum, þannig að því sé gert kleift að njóta aukins frítíma með eðlilegum og heilsusamlegum hætti.

Þetta vildi ég, að fram kæmi nú við 1. umr. málsins. Að öðru leyti á ég sætí í þeirri n., sem um málið fjallar, og hef þess vegna aðstöðu til þess siðar að koma fram smærri atriðum, sem e.t.v. væri þörf á, en ég hlýt að ítreka það einnig, að ég harma mjög, að ekki skuli liggja ljóst fyrir, hve margir eru utan þeirra fríðinda, sem í frv. þessum felast, og spyr þá jafnframt, eins og ég áðan gerði, með hvaða hætti eigi að ganga til móts við þá.