17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

252. mál, vitagjald

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Lög þau, sem nú eru í gildi um vitagjöld, eru upphaflega frá árinu 1911, eða þau eru orðin 61 árs gömul. Þessum lögum hefur verið breytt nokkrum sinnum, aðallega til þess að færa taxta vitagjaldanna til rétts verðlags á hverjum tíma. Meginbreytingarnar að þessu leyti voru gerðar 1946 og svo aftur 1960. Síðustu breytingar á vitagjöldunum eru orðnar 12 ára gamlar. Af því leiðir, að það er auðsætt, að vitagjöldin eru í fullu ósamræmi við núgildandi verðlag og hrökkva hvergi nærri til að standa undir kostnaði af rekstri vitanna og viðhaldi þeirra. En lögin voru vitanlega sett í upphafi til þess að standa undir kostnaði af byggingum og viðhaldi vitakerfis landsins.

Meginbreytingin í frv. er í 1. gr. Þar er sú breyting, að vitagjöldin skulu miðuð við brúttórúmlestatal skipa í stað nettó áður. Þetta er talið vera í samræmi við innheimtu annarra hafnargjalda, sem öll eru miðuð við brúttóstærð skipa. Gjaldið er nú 4 kr. af nettórúmlest almennt, nema af skemmtiferðaskipum, þar er gjaldið aðeins 60 aurar af rúmlest. Hækkunin er hins vegar sú, að nú verði gjaldið 10 kr. af brúttórúmlest almennt, en af skemmtiferðaskipum 1.50 kr. Í 1. mgr. 1. gr. er tekið fram, að gjaldið skuli greiða af hverju skipi 5 rúml. eða stærra, sem tekur höfn á Íslandi eða er haldið úti frá landinu. Sú er undantekning með fiskiskipin, að þau greiða gjaldið einu sinni á ári, og er lágmarksgjald, allra lægsta gjald, 100 kr.

Í 2. gr. er skýrt tekið fram, til hvers vitagjaldinu skuli varið, þ. e. til byggingar og viðhalds vitakerfis landsins, og er það í samræmi við það, sem frá upphafi hefur verið. Það er sem sé með þessu frv., þessari heildarendurskoðun á lögum um vitagjald verið að færa gjöldin til samræmis við núverandi verðlag, en gjöldin hafa staðið óbreytt frá árinu 1960, eins og ég áðan sagði.

Ég legg til herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. samgmn.