24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Björn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja hér nokkur orð í belg um þetta frv., sem hér er til umr., þó að svo vilji nú til, að ég eigi sæti í þeirri n., sem fær það til meðferðar, og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá gefast væntanlega tækifæri til þess að athuga einstök atriði á siðari stigum málsins.

Hið fyrsta, sem ég vildi víkja að í sambandi við þetta mál, er það, sem kom að sumu leyti fram hjá hv. 3. þm. Reykn. og hefur annars verið á lofti haldið varðandi málið, að með þeirri málsmeðferð, sem hér er í frammi höfð, þ.e.a.s. að leysa þetta atriði, sem hér ræðir um, vinnutímamálið, með löggjöf, þá séu bæði þeir flokkar, sem að því standa, og verkalýðshreyfingin í heild sinni að víkja frá þeirri stefnu, sem hún hefur haft um frjálsa samninga um kaup og kjör. Hér er auðvitað alls ekki um slíkt að ræða, og engin stefnubreyting hefur átt sér stað um þetta, a.m.k. ekki frá verkalýðshreyfingarinnar hálfu. Við teljum frjálsa samninga um launakjör vera grundvallarréttindi í þjóðfélagi okkar, og það hefur ekki að neinu leyti breytzt. Við erum andstæðir gerðardómum, tilskipunum og löggjöf um kaupgjaldið, og ég vona, að við verðum það áfram. Þetta er, held ég, líka alveg samdóma álit verkalýðshreyfingarinnar og þeirra flokka, sem henni eru tengdastir, og ekki nein ný stefna, því að t.d. Alþfl. hefur a.m.k. tvisvar sinnum komið ríkisstj. frá því, að gerðardómar yrðu settir í vinnudeilum, og stefna annarra flokka, sem tengdir eru verkalýðshreyfingunni, er augljós í þessum efnum.

En það má svo kannske bæta því við, að það virðist koma eiginlega úr hörðustu átt, þegar þessum áróðri er sérstaklega haldið uppi af sjálfstæðismönnum, sem hafa haft ákaflega mikil og margs konar afskipti og neikvæð afskipti af kjaramálum á undanförnum árum. Settir hafa verið lögþvingaðir gerðardómar í mörgum málum. Þeir hafa viljað banna öll verkföll og með ýmsum hætti gengið á lögbundinn rétt verkalýðssamtakanna til frjálsra samninga. Það er svo aftur önnur saga, að á s.l. ári stóð hæstv. fyrrv. fjmrh., 2. þm. Norðurl. e., sérstaklega fyrir því og fetaði þar í fótspor fyrirrennara síns, hv. þm., Gunnars Thoroddsens, sem var fjmrh. 1963, um að lyfta embættismönnum alveg sérstaklega upp fyrir alla aðra í sambandi við kjaramálin og nú með þeim hætti m.a. á s.l. ári að stytta vinnutíma þeirra um 4 klst. á viku umfram aðra og jafnframt að hækka launin um 16–72% umfram það, sem almenningur hafði fengið í næstu kjarasamningum á undan.

En ég held, að til þess að menn skilji afstöðu verkalýðshreyfingarinnar í þessu, þá verði menn að gera sér grein fyrir því, að hún gerir skarpan greinarmun á þessu tvennu, annars vegar kaupgjaldinu sjálfu, kaupgjaldskjörunum, og hins vegar þeim málefnum, sem lúta að menningarlegu hliðinni, félagslegu hliðinni, og kannske ekki sízt þeirri, sem lýtur að vernd vinnandi manna, öryggi þeirra, heilsu og almennri velferð. Hér eru auðvitað mjög greinileg skil á milli, sem ættu ekki að þurfa að valda neinum ruglingi í þessu efni. En það hefur alltaf verið skoðun verkalýðshreyfingarinnar, að löggjafarvaldinu væri ekki aðeins heimilt, heldur væri því skylt að sinna slíkum málum, og frá sjónarmiði hennar hefur það vissulega verið mælikvarði á löggjafarvald á hverjum tíma, hvort og hvernig þessum málum hefur verið sinnt. Og það eru auðvitað úr sögu íslenzks löggjafarvalds fjölmörg dæmi um slík jákvæð afskipti, og mætti þar t.d. nefna löggjöf eins og vökulögin, löggjöf um öryggi á vinnustöðum, orlofslöggjöfina, löggjöf um vernd barna og ungmenna, hvíldartíma verkamanna, réttindi tíma- og vikukaupsmanna og reyndar fjölmörg önnur. Hér skortir ennþá almenna vinnuverndarlöggjöf, en það hefur verið lengi á dagskrá hjá verkalýðshreyfingunni, að slík löggjöf yrði sett, og hefur þetta m.a. komið fram í því, að fyrrv. forseti Alþýðusambandsins, núv. hæstv. félmrh., hefur þing eftir þing flutt frv. til heildarlöggjafar um þessi efni, en hingað til án árangurs. En nú er það ljóst, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að setja slíka löggjöf, og er það víssulega vel, og það má segja, að það frv., sem er á ferðinni, sé í rauninni byrjun á því starfi að setja heildarlöggjöf um vinnuvernd. En hér er vissulega aðeins og auðsæilega aðeins um eitt atriði vinnuverndarlöggjafar að ræða, en engu að síður atriði, sem er bæði mikilsvert, tímabært og nauðsynlegt.

Nú spyrja menn kannske, hvers vegna sé nauðsynlegt núna að setja slíka löggjöf. Ég svara því þannig, að það væri nauðsynlegt í fyrsta lagi vegna þess, að vinnutími á Íslandi er of langur og sígur nú frekar í þá áttina að lengjast heldur en hitt. Upp undir 30% af almennri vinnu verkamanna eru iðulega unnin í eftir- og næturvinnu, og það eru tölur, sem hvergi eru finnanlegar annars staðar í nokkru menningarlandi og örugglega ekki a.m.k. í Vestur-Evrópu. Afleiðingin af þeirri miklu yfirvinnu, sem hér er unnin, er alveg vafalaust ofþjökun margra erfiðismanna, þannig að heilsu þeirra sé hætta búin, auk þess, sem þetta vinnufyrirkomulag útilokar menn frá eðlilegu félagslífi og eðlilegri þátttöku í hvers konar menningarlífi. Og sannleikurinn er sá, að engar hömlur, sem verkalýðsfélögin hafa reynt að setja um þessi efni, hafa komið að verulegu haldi. Þótt hærra kaup hafi verið fyrir eftir- og næturvinnu, þá er ekki horft í það. Kaupgjald hefur almennt verið hér svo lágt, að vinnuveitendur hafa séð sér hag í því að kaupa eftir- og næturvinnu dýrara verði og ekki virzt vera í neinum vandræðum með það þó að þeir að hinu leytinu kvarti enn um það, að möguleikar þeirra til kauphækkunar séu litlir. Það er líka enginn vafi á því, að afleiðingin af þessum langa vinnutíma, sem víða viðgengst í atvinnulífinu, er atvinnurekendum sjálfum óhagstæður. Hann leiðir af sér verri nýtingu vinnuafls, tækja, véla og fjárfestingar, og að honum er vafalaust fjárhagstjón, þegar öll kurl eru komin til grafar.

Það er vissulega rétt, sem kom fram hjá hæstv. félmrh., að allar vinnutímastyttingar, sem vitað er um og hafa verið rannsakaðar, hafa leitt til aukinna afkasta.

Það hefur alls staðar verið reynslan, og ég hygg, að reynslan muni vera eins hér. Þetta er að mínu viti fyrsta ástæðan, að það þarf að stytta vinnutímann, og stytting sú, sem hér um ræðir, er vafalaust aðgerð til þess að stytta vinnutímann í heild.

Þegar menn eru að bera saman vinnutímann hér og á Norðurlöndunum, þá verða menn að vita, hvað þeir eru að bera saman. Annars vegar eru menn að bera saman dagvinnutíma í löndum, þar sem hann er allsráðandi sem almennur vinnutími, og hins vegar Ísland, þar sem það segir ekki nema hálfa sögu, hvað hinn skráði dagvinnutími er. Hitt er svo annað mál, að það hefur verið reynsla okkar, að þegar dagvinnutíminn hefur verið styttur og kannske ekki sízt nú, síðasta styttingin úr 48 stundum í 44, þá verkar það, a.m.k. þegar til lengdar lætur, sem stytting á almennum vinnutíma, og hann er of langur núna, og þetta er aðgerð til að stytta hann. Það er fyrsta og kannske veigamesta ástæðan fyrir því, að það er nauðsynlegt að lögfesta þá breytingu, sem hér er um að ræða, eða tryggja hana með öðrum hætti.

Í öðru lagi vil ég svo segja, — sumir mundu kannske segja í fyrsta lagi, — er það fordæmi, sem gefið var á s.l. ári með samningum þáv. ríkisstj. og BSRB. En þá gerðist það, eins og ég áður sagði, að jafnframt því sem kaupið var hækkað hjá embættismönnum frá 16–72% umfram kaup verkamanna, þá var vinnutíminn styttur í flestum tilfellum eða meiri hluta tilfella úr 44 stundum í 40, þannig að vírkur vinnutími á viku, þ.e.a.s. viku, þar sem ekki falla inn í fríhelgir dagar, verður 37 stundir og 5 mínútur, og 36 stundir og 50 mínútur, þegar um 6 daga vinnuviku er að ræða. Það mátti auðvitað hverjum verða ljóst, eftir að 10 eða 20 þúsund manns í landinu fengu slíka breytingu á sínum vinnutíma, að það mundi ekki standa á því, að einhverjir kynnu að gera samanburð á kjörum þeirra manna, sem vinna kannske fyrir embættismennina, en starfsmenn ríkisins og starfsmenn bæjarfélaganna hafa eftir þessa samninga 40 stunda viku, og hinna, sem vinna við hliðina á þeim með 44 stundir. Þar blasir vitanlega við annars vegar óréttlætið gagnvart erfiðismönnum og hins vegar vanmat á störfum þeirra. Það er þess vegna auðsætt, að stytting vinnuvikunnar til samræmis við það, sem fram fór hjá opinberum starfsmönnum, er ekki aðeins félagslegt og fjárhagslegt nauðsynjamál fyrir erfiðismennina, heldur er ekki siður þar um að ræða jafnréttismál þegnanna. Ég þykist vita að hv. fyrrv. fjmrh. muni benda á það hér á eftir, að það hafa ekki allir starfsmenn hins opinbera fengið vinnutímastyttingu á s.l. ári, og hafa meira að segja sumir þeirra fengið lengingu. Það er vissulega rétt, að það voru nokkrir, sem áður höfðu styttri vinnutíma, og meðalvinnutími var ákveðinn 40 stundir. Engu að síður var hér um almenna aðgerð að ræða og alveg greinilega skorið á það, að nokkur sambærilegur vinnutími væri hjá opinberum starfsmönnum annars vegar og verkafólki hins vegar, jafnvel þótt þetta fólk ynni hlið við hlið. Og ég vil nú spyrja: Hvernig er hugsanlegt að synja verkafólkinu, erfiðisfólkinu, sem vinnur sína vinnu við verstu skilyrði, um styttingu vinnuvikunnar, eftir að þeim, sem búa við hækkanir og betri ytri skilyrði, hefur verið veittur þessi vinnutími? Ég segi það alveg útilokað, hvað sem öllum útreikningum um kostnaðarauka hjá atvinnurekendum og öðrum líður, hvað sem um það er sagt. Og ég held, að í þessu öllu saman, annars vegar, hvað gert var fyrir embættismannastéttina og opinbera starfsmenn, og hins vegar hvaða afstaða er til erfiðismanna í þessu efni, þurfi allir aðilar að læra þá lexíu, að verkafólkið, sem vinnur við verstu skilyrðin, heimtar sinn rétt alveg til jafns við aðra. Það neitar því algerlega að vera utangarðsmenn í þessu þjóðfélagi og vera metið eftir allt öðrum mælistikum en þeir, sem búa bæði við betri kjör og betri vinnuskilyrði.

Ég sagði áðan, að þegar menn eru að bera saman vinnutíma hér og annars staðar á Norðurlöndunum, þá verða þeir að vita, hvað þeir eru að bera saman. Það þarf að bera saman fleira en virkan vinnutíma. Það þarf að bera saman vinnutímann í heild, og það þarf að bera saman kaupgjaldið, og ég held, að þegar þetta er allt saman athugað, þá sé það alveg öruggt, að það sé ekki gengið nær atvinnurekstrinum hér þrátt fyrir þessa vinnutímastyttingu en þar er gert, og það er vitanlega sérstaklega vegna þess, að kaupgjaldið er svo miklu hærra t.d. á Norðurlöndunum, að þó að vinnuveitendum væri gert að kaupa jafnlangan eða lengri vinnutíma og þó að gengið væri að öllum kröfum verkalýðssamtakanna nú, þá mundi það ekki nálgast það að verða sambærilegt, kaupgjaldið hér og á Norðurlöndum. Meðalkaup í iðnaði í Svíþjóð er núna 215 ísl. kr. á klst. a.m.k. og fer hækkandi, það hefur verið samið um stórkostlegar hækkanir á því, en iðnverkafólk á Íslandi hefur á milli 80 og 90 kr. á klst., þannig að menn verða að bera fleira saman en bara virkan vinnutíma.

Varðandi það, að hér sé einhver stórkostleg hætta á því, að það verði svo snögg umskipti á vinnutímanum, að það leiði til samdráttar í framleiðslu annars vegar og hins vegar til þess að samkeppnisstaða okkar við önnur lönd verði mjög léleg, held ég, að ekki geti verið um slíkt að ræða. Það má kannske segja, því miður, en ég hef ekki trú á því, að þessi dagvinnutímastytting leiði til mjög snöggra, raunverulega umskipta á heildarvinnutímanum. Hins vegar mun hún auðvitað leiða til þess, að atvinnurekendur verða að greiða meira af vinnunni með eftir- og næturvinnu, og það er vitanlega kauphækkun og kjarabót fyrir fólk. En smám saman mun þetta svara þeim rétta tilgangi að stytta raunverulegan vinnutíma.

Það er líka auðsætt, að þessi aðgerð hvetur vinnuveitendur til betri vinnunýtingar, til betra skipulags á atvinnurekstrinum, og hann er raunverulega þannig hvati til að gera hann samkeppnisfærari, en ekki til að draga úr samkeppnishæfni hans, því það er auðvitað engin leið til þess að gera atvinnurekstur á Íslandi samkeppnishæfari að láta hann búa við allt önnur og betri skilyrði, hvað kaupgjald snertir, hvað vinnutíma snertir o.s.frv. Samkeppnishæfnin liggur auðvitað fyrst og fremst í því, að atvinnuvegirnir hér á landi geti búið þeim, sem við þá vinna, sambærileg kjör á öllum sviðum við það, sem annars staðar tíðkast. Það er a.m.k. sú samkeppnishæfni, sem ég hygg, að menn almennt taki eftir.

Þá er þess að geta í sambandi við það, hvað hart sé gengið hér að atvinnuvegunum, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að lagaákvæðin séu mjög rúm. Í fyrsta lagi er heimiluð frestun á allt að helmingi vinnutímastyttingarinnar, ef samkomulag getur orðið um það milli atvinnurekendanna og verkalýðsfélaganna. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að heimild sé til vaktavinnu og þar með opnuð leiðin til að nýta betur fjárfestingu og fjármagn og vinnuafl. Ennfremur eru svo heimilaðar í frv. undantekningar á meginreglum þeirra, ef samningar geta tekizt þar um og öðrum sérstökum atriðum er fullnægt, þannig að það er auðsætt, að löggjafarvaldið ætlar sér ekki með þessu frv. og með þessum lögum að ganga lengra en ýtrustu nauðsyn ber til.

Það er svo auðsætt, að þessi vinnutímastytting veldur einhverjum kostnaðarauka, a.m.k. fyrst í stað, og það er líka auðsætt, að sá kostnaðarauki veldur því, að beinar kauphækkanir í þeim samningum, sem nú standa yfir, verða minni en ef engin vinnutímastytting hefði átt sér stað. Þetta gera aðilar sér auðvitað ljóst, og vegna þess að báðum aðilum er þetta ljóst, þá er það auðvitað útilokað, að þessi löggjöf torveldi á nokkurn hátt sættir eða samninga í þeirri deilu, sem nú er yfirstandandi. Hins vegar þykir mér auðsætt og þarf varla rök fyrir því að færa, að þegar tvö deiluatriðin, sem um er að ræða, af fimm meginatriðum, sem þetta launauppgjör okkar núna stendur um, eru frá og auðsætt, hvernig þau verða leyst, og undan því verður ekki vikið, hvorki af hálfu atvinnurekenda né annarra, þá er allt málið, sem eftir er, orðið einfaldara í sniðum og því auðveldara til lausnar. Ég held þess vegna, að það sé á miklum misskilningi byggt, að það sé hægt að saka ríkisstj. um, að með því að flytja með fullum vilja verkalýðssamtakanna þessi frv., frv. um vinnutímastyttingu og um orlofið, sé hún að torvelda þá samninga, sem nú standa yfir. Málin eru einfaldlega þannig, að verkalýðssamtökin skoða þetta sem slíkt réttlætismál, bæði vinnutímastyttinguna til jafns við opinbera starfsmenn og orlofslenginguna til jafns við þá og reyndar fjöldamarga aðra, sem þegar hafa fengið hana, að það hefði sjálfsagt ekki hreytt neinu að því leyti, að þetta hefði verið knúið fram í núverandi vinnudeilu, hvort sem löggjafinn hefði skipt sér af því eða ekki. En ég ætla, að það verði öllum sársaukaminna, að það verði gert með þessum hætti, sem hér er ráðgert að gera.

Ég get tekið undir sitthvað af því, sem hv. 1. landsk. sagði um þetta mál, m.a. það, að það er auðvitað vandamál, að frv. nær ekki til allra launþega, þótt reyndar sé þar ekki verulega stór launþegahópur, aðrir en fiskimennirnir, en ég álít það alveg rétt hjá honum, að hyggja verður að málum þeirra í sambandi við vinnutíma sérstaklega, og það verður að gera það alveg í kjölfar þessarar löggjafar. Það er staðreynd, að bátasjómenn vinna allt að því 108 klst. á viku, og ég held, að það sé alveg útilokað að ganga fram hjá svo mikilvægri og fjölmennri stétt, án þess að nokkuð sé fyrir hana gert í sambandi við vinnutíma. Það kunna að vera á því mjög miklir örðugleikar að ákveða vikulegan vinnutíma hjá slíkum mönnum. Ég geri ráð fyrir því, en þá þarf líka að leita annarra leiða til þess að ársvinnutími þeirra verði ekki stórkostlega miklu lengri en annarra, m.a. með því að þeim verði sett sérstök orlofslöggjöf eða eitthvað annað komi í staðinn, þannig að þeir fái hliðstæðar kjarabætur að þessu leyti og aðrir. Þetta tel ég sjálfsagt, og það ætti víssulega að greiða fyrir því, að þetta geti átt sér stað, að aðrir erfiðismenn fái þau réttindi og þær kjarabætur, sem hér ræðir um.

Ég ætla ekki að fara að svara hér fyrir hæstv. félmrh. þeim spurningum, sem hv. þm. beindi til hans, en ég vil aðeins segja það, sem ég reyndar sagði í upphafi míns máls, að í mínum huga eru skörp skil á milli annars vegar félagslegra réttindamála og hins vegar ákvarðana um kaupgjaldíð, og ég held, að það eigi engan hljómgrunn í verkalýðshreyfingunni, að þessi vinnudeila eða nokkrar aðrar, sem fjalla um kaupgjaldið, verði leystar með löggjöf. Með því teldi ég vera gengið á þann frjálsa samningsrétt, og gildir þar einu, þó að svo kynni að vilja til í eitt skipti, að það væri hagstætt fyrir verkalýðshreyfinguna. Ég held, að það yrði fordæmi, sem fyrr eða siðar mundi hefna sín.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég fagna þessu frv. og einnig frv. um orlof, og ég trúi því, að ég mæli fyrir munn allrar verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, þegar ég fullyrði, áð það tákni tímamót a.m.k. í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi, að viðhorf löggjafarvaldsins til baráttumála og réttindamála verkalýðshreyfingarinnar er nú orðið annað og að mínu viti heillavænlegra en áður hefur verið, þar sem nú er tekið á með verkalýðshreyfingunni í baráttu hennar fyrir jafnrétti erfiðismanna við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Í öðru lagi tel ég, að þessi löggjöf sé verulegt spor í langri og oft örðugri baráttu verkafólks fyrir mannsæmandi vinnudegi, sem á komandi árum muni opna þeim leiðir til að geta lífað fyllra menningarlífi en hingað til.

Ég vil svo leyfa mér að þakka hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. sérstaklega fyrir gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um lausn á þessu mikilvæga máli og læt í ljós þá von, að það megi hljóta greiða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.