18.05.1972
Efri deild: 90. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

252. mál, vitagjald

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er stjfrv. komið frá hv. Nd., þar sem það hefur hlotið einróma og ágreiningslausa afgreiðslu. Meginefni þess er, eins og segir í athugasemdum. að gera breytingu á gjaldi, svokölluðu vitagjaldi sem hefur staðið óbreytt í fjölda ára þrátt fyrir miklar verðlagsbreytingar, og verður það nú eftir hækkunina 10 kr. á brúttórúmlest í staðinn fyrir 4 áður og 1.50 af skemmtiferðaskipum í staðinn fyrir 60 aura, sem áður giltu. Þessar hækkanir eru taldar fullkomlega eðlilegar miðað við þær verðbreytingar, sem hafa orðið frá því að lögunum var síðast breytt. Eins og ég sagði, hefur enginn ágreiningur orðið um það í hv. Nd. og sama var raunin á í samgmn. Ed. Hún mælir eindregið og einróma með því, að frv. verði samþ.