24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að nafn mitt hefur nokkrum sinnum verið nefnt í þessum umr. og, að því er mér skilst, þá sé ég í rauninni upphafsmaður að þessari miklu kjarabót, sem hér sé verið að lögfesta öllum verkalýð til handa, og vissulega ætti ég að taka mér það til inntekta, því það er út af fyrir sig mjög gott mál að stytta vinnutíma fólks, ef hægt er að gera það sem raunverulega kjarabót. En þetta byggist á þeim ummælum, bæði hjá hæstv. félmrh., sem hann að vísu, held ég, hafi lesið upp úr ummælum, sem birt eru sem fskj. með frv., en taldi þó ástæðu til að benda á sem rök í málinu, og einnig hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., forseta Alþýðusambands Íslands, þar sem þeir töldu, að samningur sá, sem ég hefði sem fjmrh. gert við opinbera starfsmenn um 40 stunda vinnuviku, hefði markað stefnuna, sem hlyti að vera fylgt í þessu máli.

Það er alveg rétt, að það var ákveðin með samningum á s.l. ári 40 stunda vinnuvika almennt hjá opinberum starfsmönnum. En það, sem er villandi í þessari umsögn varðandi vinnutímann, er það, að útreikningar sýndu, að vinnutímalenging annarra flokka opinberra starfsmanna var ámóta og vinnutímastyttingin. Hér var um að ræða samræmingu á vinnutíma. Það hafði lengi tíðkazt, að ýmsir starfshópar hefðu mun styttri vinnutíma en 40 stundir, en þessir hópar fórnuðu þessum

stutta vinnutíma sínum í rauninni fyrir starfsfélaga sína á þann hátt að fallast á, að vinnutíminn yrði almennt hjá öllum 40 stundir. Ég held, að það sé kannske nokkuð mikið lof að segja, að með þessu móti hafi verið af hálfu fjmrh. mörkuð sú stefna, sem hljóti að verða farin, því að hér hafi algerlega verið farið inn á nýja braut. Þetta er að þessu leyti, eins og ég segi, skakkt, að hér var um samræmingu að ræða, þannig að þegar starfshópar ríkisins voru teknir sem heild, þá var lenging vinnutímans hjá hinum ýmsu vinnuhópum álíka mikil samtals, miðað við vinnustundir á ári, og styttingin, sem fólst í því að stytta vinnutímann hjá öðrum starfshópum í 40 stundir. Þetta tel ég aðeins rétt að komi hér fram sem upplýsingar í málinu, þótt ég heyrði að vísu á hv. 6. þm. Norðurl. e., að hann gerði sér fulla grein fyrir þessu.

Þá var aftur annað, sem ég einnig vil leiðrétta og í rauninni mótmæla, og það er sú kenning, sem hv. núv. forseti Alþýðusambands Íslands hefur með einkennilegum hætti gerzt mjög ákveðinn talsmaður fyrir, og það er að gera þessa samninga ríkisins við opinbera starfsmenn að árásarefni á fyrrv. ríkisstj. Hann gerði það í þessum umr. á þann hátt að segja, að opinberum starfsmönnum hefði öllum verið lyft yfir hinar almennu launastéttir eða a.m.k. verkamenn, og ef ég man rétt, þá sagði hann, að kjör opinberra starfsmanna hefðu verið hækkuð frá 66–72% umfram gildandi kjör verkamanna. Þetta eru mjög villandi upplýsingar. Það, sem gerðist í sambandi við opinbera starfsmenn, var starfsflokkun og starfsmat, sem var gert í fullu samræmi og samkomulagi við forráðamenn opinberra starfsmanna. Og mér er ekki kunnugt um, að þeir, sem þar eru fremstir í flokki, hafi verið neinir sérstakir stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj. Það var með fullu samkomulagi við þá, að gerður var verulegur greinarmunur á hinum ýmsu störfum í opinberri stjórnsýslu, sem auðvitað einnig er í þjóðfélaginu í heild, að það er mjög mikill munur gerður á störfum á hinum almenna launamarkaði verkamanna, verzlunarmanna, iðnaðarmanna og margra annarra starfshópa, sjómanna o.fl., sem hverjir um sig hafa mjög mismunandi háar tekjur og það verulega mismunandi. Það, sem gerðist í samningum við opinbera starfsmenn, var ekki annað en það að reyna að finna ákveðið hlutfall milli hinna ýmsu starfa, sem ég tel vera til fyrirmyndar og Alþýðusamband Íslands og launþegasamtökin ættu að taka upp sem fyrirmynd til þess að reyna að forðast hin eilífu illindi milli hinna mismunandi stéttarfélaga um það, hvernig hlutfallið eigi að vera á milli launa einstakra starfshópa. Þetta er mjög mikið nauðsynjamál og mundi eyða miklum ófriði í þjóðfélaginu, ef hægt væri að komast að þessari niðurstöðu, og þessi niðurstaða fékkst að verulegu leyti, þótt allir væru ekki ánægðir í þessum samningum við opinbera starfsmenn, og þess vegna tel ég þessa síðustu samninga við þá hafa í rauninni verið með merkustu, ef ekki merkustu kjarasamninga, sem hér hafa verið gerðir. Það er alveg rétt, að þar var gerður greinarmunur á launum verkamanna og fjölmargra annarra starfshópa, en eins og ég segi, í samræmi við það, sem gerist annars staðar f þjóðfélaginu.

Samningar við opinbera starfsmenn í fyrra voru miðaðir við gildandi laun, sem þá voru á vinnumarkaðinum, og það er algerlega rangt með farið, að það hafi verið stefnt að einhverri allsherjarkauphækkun í þjóðfélaginu vegna þessara samninga. Það var miðað við og athugað gaumgæfilega, hvaða kjör væru á hinum almenna launamarkaði í hliðstæðum störfum. Verkamaður hjá ríkinu hefur ekki hærri laun en verkamaður á hinum almenna launamarkaði, iðnaðarmaður hjá ríkinu hefur ekki heldur hærri laun, og ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að ýmsir starfshópar, m.a. iðnaðarmenn, hafa mun hærri tekjur á hinum frjálsa markaði en þeir hafa samkv. launasamningi ríkisstarfsmanna. Þetta tel ég alveg nauðsynlegt að komi fram sem andmæli gegn því, að með samningunum við opinbera starfsmenn hafi verið hafin einhver allsherjar launaskriða. Og ég legg á það ríka áherzlu að munurinn á launum í hinum lægstu og hæstu launaflokkum opinberra starfsmanna, sem er fjórfaldur munur, er nákvæmlega sá munur, sem stjórn BSRB lagði til í sínum launakröfum að yrði, en sannarlega ekki munur, sem var fundinn upp af ríkisstj. á þeim tíma. Þetta tel ég einnig að sé nauðsynlegt að komi fram, að þetta var í samræmi við skoðanir starfsmannanna sjálfra, að þessi launamunur ætti að vera.

Að öðru leyti sé ég ekki, að ég hafi ástæðu til þess að vera að gerast hér einhver sérstakur baráttumaður eða talsmaður fyrir málstað opinberra starfsmanna, nema reyna að skýra það hvað gerðist. Forráðamenn þeirra hafa ábyggílega möguleika á að svara fyrir sig sjálfir. En mig hefur oft undrað það, hvernig stendur á því, hversu köldu hefur andað úr hópi forustumanna verkalýðssamtakanna til opinberra starfsmanna og þeirra kjarasamninga, sem þarna voru gerðir. Og ég leyfi mér nú að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félmrh. og í rauninni hjá forseta Alþýðusambands Íslands, sem eru miklir ráðamenn í núv. ríkisstj., þó að launamál opinberra starfsmanna heyri í rauninni ekki formlega undir þeirra regiment: Er það ef til vill ætlun ríkisstj., að þessir kjarasamningar, sem nú eru gerðir, hafi engin áhrif á laun opinberra starfsmanna? Segja mætti, að þeir séu þegar búnir að fá kjarabót samkv. vinnutímastyttingunni. Látum það gott heita. En ef almenn kauphækkun verður, sem mér skilst að liggi nú í loftinu að að sé stefnt, er það þá hugmyndin, að opinberir starfsmenn fái ekki kjarabætur, heldur séu þau rök notuð, sem forseti Alþýðusambandsins notaði hér áðan, að þarna sé raunverulega verið að lagfæra kjör annarra til samræmis við opinbera starfsmenn, þegar einmitt í sambandi við samning opinberra starfsmanna var verið að reyna að finna út laun annarra, sem aftur var miðað við, svo sem gera skal samkv. þeim lögum, sem gilda um kjör opinberra starfsmanna? Þetta held ég að væri ákaflega fróðlegt og eftirtektarvert að fá upplýst.

Ég skal ekki fara að ræða um það hér sérstaklega, hvort ástæða sé til þess að framkvæma þessar kjarabætur, sem hér er talað um, með beinni löggjafaraðgerð, svo sem hér er gert og byggist á stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá í sumar, eða ekki. Og ég ætla ekki á minnsta hátt að hafa á móti því, að þessar kjarabætur séu veittar að því marki sem launþegar í landinu telja þar vera um kjarabætur að ræða. Allt er það góðra gjalda vert, ef tekst með þessum hætti að stuðla að því að ná saman endum í þeirri alvarlegu kjaradeilu, sem er yfirvofandi. En ég er ákaflega hræddur um, að það sé mikið til í því, sem hér var áðan sagt, að þessar yfirlýsingar allar hafi ekki stuðlað sérstaklega mikið að því að auðvelda þessa kjarasamninga, enda dragast þeir mjög á langinn, og virðist vera nokkuð beðið eftir því, hvaða aðgerðir ríkisstj. hugsi sér í sambandi við kjaramálin, því að vitanlega hefur bæði vinnutímastytting og orlof áhrif á launagreiðslur og launakostnað atvinnuveganna, það gefur auga leið. Að hve miklu leyti þetta verður metið sem kjarabætur, því er auðvitað launþega að svara, en ekki annarra.

Ég minni á það, sem fram kom í viðtali við einn gamlan og gróinn verkalýðsleiðtoga fyrir nokkru í Þjóðviljanum, einn af forráðamönnum iðnverkafólks, að hann taldi vera mikið vafamál, hvort hér væri um raunhæfar kjarabætur að ræða. Stytting vinnutíma væri að vísu góðra gjalda verð, en með styttingu vinnutíma út af fyrir sig bætti fólk ekki kjör sín eða yki kaupmátt launa sinna, nema því aðeins að ætlunin væri sú, að fólk ætti að vinna því meiri eftirvinnu, þá gæti þetta orðið kjarabót. En það væri mjög mikill aðstöðumunur hjá hínum ýmsu starfshópum í því sambandi, hverjir gætu átt kost á eftirvinnu og hverjir ekki. Það má vel fallast á það, að vinnutími hér á Íslandi sé of langur, „effektífur“ vinnutími, en reyndin hefur, held ég, alltaf orðið sú, og ég býst við, að hún muni einnig verða það nú, einnig örlaði nú á þeim skilningi hjá 6. þm. Norðurl. e., hæstv. forseta þessarar deildar, — að þetta mundi leiða til þess, að yfirvinna ykist, en ekki, að raunverulegur vinnutími styttist.

Hvað verður um þessa kjaradeilu, skal ég auðvitað ekkert um spá. Það vita þeir meira um, sem hér hafa talað. Ég ætla ekki að fara að gerast neinn talsmaður fyrir lögfestingu eða lagaákvörðun eða þvingunum í sambandi við kjaramál. En mér fannst það þó ekki alveg út í loftið, sem hv. 1. landsk. spurði að, þar sem hér er verið að tala um að lögfesta ákveðnar kjarabætur, að það kynni að vakna sú spurning, hvort ríkisstj. kynni að finnast það í rauninni nokkuð fjarstæðara að lögfesta þriðja atriðið í sáttmála ríkisstj. hvað varðar kjaramálin, þ.e.a.s. hvernig eigi að tryggja 20% kaupmáttaraukningu. Ég held, að þetta sé spurning, sem sé ákaflega mikið atriði, ekki hvað sízt í huga launþega, og skiptir auðvitað atvinnuveitendur líka geysilega miklu máli, því að það hefur verið lögð á það áherzla af hæstv. ríkisstj., að þetta merki ekki endilega það, að eigi að hækka kaupið sem þessu nemur, enda held ég, að það sé vafalaust unnt að reikna það út, en það er þó vandreiknað, að kaup þyrfti að hækka miklu meira en þetta í prósentutölu, til þess að það væri hægt að tala um 20% kaupmáttaraukningu. Það er allt annað mál. Hér hljóta að verða að koma til ýmiss konar stjórnarathafnir, hvernig tryggja skuli kaupmáttaraukninguna að þessu marki, sem talað er um í stjórnarsáttmálanum, og það væri vissulega upplýsandi og mundi geta haft mikla þýðingu fyrir úrslit kjaradeilunnar nú, ef t.d. væri vitað, með hvaða hætti ætti að tryggja þessa kaupmáttaraukningu. Það er og eðlilegt, að vinnuveitendur eigi erfitt með að semja um hækkað kaup, nema því aðeins að þeir viti, að þeir eigi að fá einhverjar uppbætur eða kjarabætur á móti til að geta risið undir þessu kaupi.

Þetta hygg ég, að eigi sinn þátt í því að torvelda þessa samninga mjög mikið, að það liggur ekkert fyrir um þetta atriði annað en einhverjar óljósar hugleiðingar, en þó engar yfirlýsingar af hálfu stjórnvalda um það, hvað þau hyggist fyrir í þessu sambandi.

Ég tek það fram, að ég er hvorki talsmaður fyrir lögfestingar í þessum efnum né öðrum, nema um neyðarúrræði sé að ræða, og á undanförnum tímum hefur ekki verið gripið til lögfestingar í kjaradeilum nema, eins og hv. 3. þm. Reykn. sagði, í undantekningartilfellum og til bráðabirgða, þegar stórkostlega brýnt vandamál hefur skapazt. Það er ekki heppilegt og ekki góð lausn í kjaradeilum, þar sem frjáls verkalýðshreyfing og frjáls samningsréttur er viðurkenndur. En mér sýnist þó engu að síður, að það sé íhugunarefni, hvort ríkisstj. verði ekki a.m.k. að gera það ljóst, hvaða stefnu hún ætli að fylgja til að tryggja þennan 20% aukna kaupmátt, og það sé erfitt fyrir atvinnuvegina að standa andspænis því að framkvæma auk þeirra fríðinda, sem hér eru veitt með orlofi og styttingu vinnutíma, miklar kauphækkanir, án þess að vita, að hve miklu leyti eigi að létta þunga bagga atvinnuveganna í staðinn.

Það hefur einnig verið bent á það hér, að það eru vissir hópar, sem eru utan við þetta. Það er einnig annað, sem er enn óskýrt og er mjög óljóst, eins og margt annað í sáttmála hæstv. ríkisstj., og það er það, hverjir eigi að teljast hinir lægst launuðu. Mér skilst nú jafnvel, eftir því sem hér hefir verið sagt, að opinberir starfsmenn eigi ekki að falla undir þá hópa. Þeir eru vissulega margir vel launaðir, en ég held, að stórir hópar þeirra séu illa launaðir.

Hvaða hópar manna eiga að fá þessa 20% kjarabót eða kaupmáttaraukningu? Hæstv. forsrh. lýsti yfir því í þessari hv. d. að gefnu tilefni frá mér, að það væri ekki átt við nema þá, sem byggju við lakari kjör í þjóðfélaginu eða hina launalægri. En hvaða starfshópar eru hinir launalægri starfshópar? Eru t.d. bændur ekki í þeim hópi? Það hefur stundum verið talað um, að þeir væru launalægsta stétt í þjóðfélaginu, og ég veit ekki, hvort vinnutímastyttingin á að ná til þeirra. Hún getur auðvitað ekki náð til þeirra „effektíft“ á annan hátt en þann, að þeir fái það bætt upp í verði afurða sinna. Þetta held ég að sé spurning, eins og svo ótalmargar aðrar spurningar, sem enn er ósvarað í sambandi við öll þessi mál.

Herra forseti. Það var ekki ætlunin, að fara lengra út í þessa sálma, þótt vissulega gefi málið tilefni til ýmissa hugleiðinga. Ég er ekki á neinn hátt að lýsa andstöðu við þær kjarabætur, sem hér er verið að veita, og það er mjög ánægjulegt, ef það getur orðið til að auðvelda þá kjaradeilu, sem nú vofir yfir og ógnar með algerri stöðvun í þjóðfélaginu á einum hinum versta og alvarlegasta tíma. Þá er það allt góðra gjalda vert. En hingað til er það ljóst, að þessar hugleiðingar allar eða lögfestingar um eitt og annað, sem yfir hafa vofað, hafa ekki orðið til þess að greiða fyrir lausn kjaradeilunnar. Það held ég, að sé alveg ótvírætt, þannig að það færi betur, að menn a.m.k. sæju fyrir endann á því, hvað ætlunin er að gera í þeim efnum af hálfu stjórnvalda.