27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

268. mál, orlof húsmæðra

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. til l. um orlof húsmæðra var samið af nefnd, sem skipuð var til að inna af hendi það verkefni með það fyrir augum að gera brtt. við gildandi lög um orlof húsmæðra, en sú löggjöf er frá árinu 1960 og var þá frumsmíð í lögum. Fyrirmæli nefndarinnar voru þau ein að miða breytingarnar við fengna reynslu af framkvæmd hinna gildandi laga. Ýmsar breytingar eru á frv. frá hinni gildandi löggjöf, og skal ég nú gera grein fyrir þeim helztu og þar með efni frv.

Fyrirkomulagið í grundvallaratriðum er líkt og áður, að Kvenfélagasamband Íslands hafi meginframkvæmdina á höndum og sjái um skipulagninguna að verulegu leyti. Kvenfélagasambandið á að skipta landinu í orlofssvæði með tilliti til framkvæmdar laganna, og ákveðið er, að skiptingin skuli fara fram á landsþingi sambandsins. Þetta er í meginatriðum í samræmi við það, sem nú er.

Þá eiga héraðssambönd Kvenfélagasambands Íslands að kjósa á ársfundi sínum orlofsnefndir fyrir orlofssvæðin hvert í sínu umdæmi. Í orlofsnefnd eiga aðeins að vera þrjár konur og þrjár til vara, og er gert ráð fyrir, að þær séu kosnar til þriggja ára. Þetta er líkt og í gildandi löggjöf. Síðan skipta orlofsnefndirnar með sér verkum sjálfar. Orlofsnefndirnar eiga svo hver í sínu umdæmi að sjá um rekstur orlofsheimila og að öðru leyti framkvæmd húsmæðraorlofsins.

Í 4. gr. eru heimildir, sem konurnar hafa lítið notað. Það er til þess að greiða fyrir föst störf eins og framkvæmdastjóra- og gjaldkerastörf, þegar um rekstur orlofsheimilis er að ræða á þeirra vegum. Að öðru leyti hafa þessi störf yfirleitt verið innt af hendi án þess að greiðsla kæmi fyrir, og meginreglan er enn þá sú samkv. frv., að orlofsnefndir skuli vera ólaunaðar, sjálft nefndarstarfið.

Þá er það um fjáröflunina. Kostnað vegna orlofs húsmæðra er gert ráð fyrir, að ríkissjóður beri uppi með 100 kr. framlagi fyrir hverja húsmóður í landinu, sem orlofsréttar skal njóta. Þá er sveitarfélögunum ætlað að greiða ekki minna en helming á móti framlagi ríkissjóðs, ekki minna en 50% á móti greiðslu ríkissjóðs í orlofssjóðinn. Og í þriðja lagi er svo heimild til þess að láta orlofsþega, konurnar, sem orlofsdvalar njóta, greiða allt að 15% af beinum kostnaði við orlofsdvöl, en gert er ráð fyrir, að þetta kunni að verða notað, — þetta er aðeins heimild, — kunni að verða notað af sumum orlofsnefndum, en öðrum ekki. M. a. er ekki gert ráð fyrir því, að til þessa kæmi, ef aðeins væri um orlofsferðir að ræða og ekki fasta orlofsdvöl. Heimild er í gildandi lögum og svo er einnig í frv. til þess að geyma rekstrarfé orlofsins á milli ára, ef ástæða þætti til. Ef framkvæmd orlofsins væri í stærri stíl annað árið heldur en hitt, þá þyrfti það ekki að standa í vegi, þá ætti að vera hægt að bæta úr, ef geymzt hefur fé frá árinu á undan.

Þá er fjallað um rétt þeirra, sem taka megi húsmæðraorlof. Þar skal velja úr umsóknum og hafa til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna á framfæri húsmóður og aðrar félagslegar aðstæður. Yfirleitt er gert ráð fyrir, að orlofsdvöl sé ekki skemmri en 7 dagar og geti verið 10 dagar, og má það ekki knappara vera og er raunar æskilegra, að þessi orlofsdvöl gæti verið helzt hálfur mánuður og ekki minna. Það virðist þó vera álit kvennanna, sem frv. sömdu, að þó að verulega séu nú aukin framlög ríkisins sérstaklega til þessa mannréttindamáls, þá muni samt tæplega verða unnt að hafa orlofið lengra að hámarki en 10 daga, og er það í naumasta lagi, verð ég að segja.

Í 7. gr. frv. er heimild til þess að nota allt að 20% af framlagi ríkis og sveitarfélaga til þess að greiða kostnað vegna barna orlofskvenna á barnaheimili eða annars staðar, meðan á orlofsdvöl húsmóður stendur. Þetta er algert nýmæli. Það hefur reynzt verða svo, að lítið vill verða úr hvíld þeirrar móður, sem hefur orlofsdvöl, ef hún ætti að hafa barnahópinn sinn þar með sér, svo að það hefur yfirleitt orðið þannig, að konurnar hafa ekki börnin með sér. Þá eru erfiðleikarnir á því að koma börnunum fyrir, meðan móðirin er í orlofsdvöl, og hafa verið á því mikil vandkvæði, ekki beinar heimildir heldur í lögum til að verja fé til þess að vista börnin t. d. á barnaheimili, meðan móðirin væri í orlofsdvöl, og er nú þessi möguleiki opnaður. Einkanlega mundi þetta verða til hagsbóta fyrir ungar mæður, sem eiga börn á unga aldri, t. d. innan 7 ára aldurs, þá gætu þær af orlofsfénu fengið börnum sínum ráðstafað á öruggan stað, t. d. barnaheimili, meðan þær nytu orlofsdvalarinnar. Þetta er kannske þýðingarmesta nýmælið í frv., og tel ég, að þar sé verulega úr bætt samkv. fenginni reynslu, því að mjög erfitt hefur verið að horfa upp á það, að einmitt barnmargar mæður skyldu ekki geta notfært sér orlofsdvöl, vegna þess að börnunum varð ekki komið fyrir á meðan.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að orlofsnefndir eigi kost á fyrirgreiðslu hjá félmrn. og sérstaklega menntmrn. og öðrum hlutaðeigendum um afnot skóla eða annarra opinberra bygginga til orlofsdvalarinnar. Skólarnir hafa á ýmsum stöðum verið hagnýttir á sumrin til orlofsdvalar húsmæðra, en lengstum og víðast hvar hefur verið tekin full greiðsla, full leiga fyrir skólana. Þó mun á s. l. sumri hafa verið nokkur þátttaka af hendi ríkisins í því, að ríkið greiddi sinn hluta af skólaleigunni, til þess að létta á útgjöldum orlofsins með því að stuðla að því, að skólarnir væru þannig leigðir orlofi húsmæðra við vægara verði en ella. Þetta tel ég auðvitað sjálfsagt og vil vænta þess, að félmrn. og menntmrn. veiti þá aðstoð, sem um er rætt í 10. gr. Fullar skýrslur á orlof húsmæðra að senda varðandi starfræksluna og gera grein fyrir reikningum sínum. Þessi starfsemi er þannig undir opinberu eftirliti, og er ekki nema sjálfsagt, að svo sé.

Ákvæði er til bráðabirgða í frv. um það, að núverandi skipting landsins í orlofssvæði skuli vera þetta ár eins og verið hefur, þangað til eftir landsfund Kvenfélagasambands Íslands, sem samkv. l. gr. frv. á að skipta landinu í orlofssvæði, orlofsumdæmi.

Það er ljóst, að það fé, sem hingað til hefur verið varið úr ríkissjóði til orlofs húsmæðra, hefur verið smápeningur einn og mjög fáar húsmæður þar af leiðandi getað notfært sér orlof. Á árinu 1970 fengu aðeins 1283 konur aðstöðu til þess að njóta orlofs á vegum orlofsnefndanna um allt landið, en það eru 2.3% af þeim húsmæðrum, sem annars hefðu átt samkv. opinberum skýrslum rétt á að njóta orlofs. Það hefur verið gerð könnun á því, hve margar húsmæður séu í landinu, sem orlofs ættu að njóta samkv. þessu frv., og kemur þá út, að það eru um 50 þús. konur, og er því alveg augljóst, þrátt fyrir þau fjárframlög, sem ráð er fyrir gert í frv., að mörg húsmóðirin verður sjálfsagt út undan.

Ég verð að segja það, að ég býsnast ekki yfir því, þó að ríkið leggi fram 100 kr. á hverja húsmóður, til þess að hún geti notið orlofs. Húsmæðrastéttin er meðal þeirra stétta, sem í flestum tilfellum hafa langan vinnudag, og þjóðfélaginu er því skylt að greiða fyrir því, að sem allra flestar húsmæður og helzt allar og þá einkanlega þær, sem barnahópinn hafa í kringum sig, geti tekið sér einhverja hvíld árlega, notið orlofs. Byrjun þess, að konur færu í orlofsdvöl, hygg ég að sé sú, að á fjárlögum ársins 1957 var í fyrsta sinn tekin upp nokkur upphæð til orlofsdvalar fyrir húsmæður af barnmörgum heimilum, og kom þetta til framkvæmda sumarið 1958 á vegum Alþýðusambands Íslands, því að því var veittur styrkur til þess að hefja þessa starfsemi og kostuð orlofsdvöl fyrir nokkra tugi húsmæðra að Hlíðardalsskóla í Ölfusi, og man ég, að það voru hátt á annað hundrað börn, sem þessar konur áttu, sem þá nutu þarna orlofsdvalar. Þetta þótti slík nýbreytni, að fjárveiting var á fjárlögum ársins 1958 líka og 1959 sömuleiðis. Svo kom löggjöfin um orlof húsmæðra 1960, og vegna þessara fjárveitinga, sem fyrir hendi voru, var hægt að hefja orlof samkv. löggjöfinni strax á því ári og hefur síðan verið haldið áfram, þó að þetta hafi verið í það takmörkuðu formi, eins og ég áðan sagði, að aðeins 2.3% af fjölda þeirra kvenna, sem rétt eiga á orlofsdvöl, hafa á árinu 1970 getað notið hennar.

Ég held, að ég hafi með þessu gert grein fyrir efni þessa frv. Ég vænti þess, að það fái góðar undirtektir og geti fengið afgreiðslu á þinginu. Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.umr. lokinni.