17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

268. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar d. hefur rætt þetta frv. og er sammála um að mæla með því, að það verði samþ. með einni lítils háttar breytingu. Í umsögn mæðrastyrksnefndar um þetta frv. kom fram ábending um nauðsyn þess, að ekki verði felld út úr lögum um orlof húsmæðra reglan um það, að orlofsnefndir skuli hafa samstarf við mæðrastyrksnefndir, þar sem þær eru starfandi á hverju orlofssvæði. En svo er mál með vexti, að mæðrastyrksnefndir hafa rekið slíka starfsemi, sem um ræðir í þessu frv., sums staðar áratugum saman og annars staðar skemur. Það hefur að vísu gerzt að mestu fyrir það fé, sem aflað hefur verið með sölu mæðrablóms á vorin, eins og ég vona, að hv. þdm. kannist við, og hafa þeir vafalaust keypt mæðrablóm nú s. l. sunnudag, en það fé, sem þeir létu fyrir þetta litla blóm, fer einmitt til slíkrar starfsemi á vegum mæðrastyrksnefndar eins og um er getið að ríkið skuli nú kosta á vegum orlofsnefnda samkv. þessu frv. Þar sem um er að ræða sams konar hópa, sem mundu notfæra sér þetta orlof, bæði á vegum mæðrastyrksnefnda og einnig á vegum orlofsnefnda, þykir okkur ástæða til að áfram standi í lögunum, að þessir aðilar skuli hafa samstarf sín á milli. Að öðru leyti höfum við ekkert við frv. að athuga og mælum með því, að það verði samþykkt.