24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Eftir ræðu hæstv. félmrh. fannst mér nauðsynlegt, að ég segði hér örfá orð til viðbótar þeim, sem ég sagði áðan í mínu fyrra spjalli. Ég verð þá fyrst að byrja á því, að það er dálítið erfitt að koma hæstv. núv. ríkisstj. til liðs, því að það virtist svo sem þar bólaði á hinum gamla forseta Alþýðusambandsins. Mér fannst óma af því, að við værum komnir á Alþýðusambandsþing einu sinni enn, þar sem barizt var með fárra atkvæða mun, hverjir skyldu hafa forustu, en þá heyrðist oft hvessa í honum með svipuðum hætti og hér áðan. Hann hafði eftir mér orð, eins og t.d. það, að hann spurði: Erum við að niðast á sjómönnum, bátamönnum? Aðrir höfðu þá ekki harmað það, að bátasjómenn verða utan þessa frv. Ég vona, að þótt hann leiti með logandi ljósi í stuðningsræðum mínum nú dag eftir dag við hæstv. ríkisstj., þá finni hann ekki eitt einasta orð í þessa átt, og ef liðveizlu minni verður tekið með þessum hætti, þá hlýt ég að endurskoða afstöðu mína. Ég var hins vegar í mínu fyrra spjalli að harma það, að jafnveigamikil starfsgrein og bátasjómenn eru skyldu verða utan laganna. En af því að hann skoraði á mig, að mér fannst, — það er kannske misskilningur, þá leiðréttir hann það hér á eftir, ef þörf er á, — eða aðra menn, sem hér voru viðstaddir, að koma með einhverjar till. um að koma til móts við sjómennina í þessum efnum, og hann minntist þar á, að nánast einu möguleikarnir, sem sér kæmu í hug, væru vökulög lík því, sem gerist á togaraflotanum og um er ákveðin löggjöf. Ég vil síður en svo ýta því frá mér, að einhverjir möguleikar kunni þar að felast, en tel þó, að þar sé um mjög ólíkar vinnuaðstæður að ræða hjá vélbátaflotanum annars vegar og togurunum hins vegar. Það má segja, að það sé hægara að koma við beinum reglum í hverri veiðiferð hjá togurum en mögulegt er að koma almennt við á bátaflotanum. Eitt atriði vil ég þó minna hér á, sem útgerðarmenn og sjómenn hafa sjálfir fundið upp í sambandi við breytt veiðisvæði okkar vélbátaflota og þá sérlega á Norðursjávarmiðunum og við Hjaltland, en þar hafa þeir sjálfir tekið upp til þess að forða skipverjum sínum frá allt of löngum dvölum að heiman að skrá fleiri menn á skipið en skylda er, þannig að einn eða tveir væru þar til afleysinga og þá jafnmargir í orlofi á milli. Þetta er leið, sem hlutaðeigandi aðilar hafa sjálfir fitjað upp á, og mér finnst það þess vert, að hér sé minnzt á og athugað verði í sambandi við þessi lög hvor tveggja og þá ekki sízt þau lög, sem hæstv. forseti þessarar deildar, 6. þm. Norðurl. e., minntist á í sambandi við almenna vinnuverndarlöggjöf. Það er ljóst, að þessi starfsgrein verður ekki til langframa höfð utangarðs í þessum efnum, og mér finnst rétt, að hlutaðeigandi aðilar íhugi umbætur í þessum efnum og þá reynslu, sem fengin er á m.a. þessu atriði.

Við eigum orðið svo stóra báta í vélbátaflota okkar, að það er viðbúið, að þeir fari að meira eða minna leyti að vera langdvölum frá heimabyggð sinni, og það má búast við því, að þótt um ákveðinn tíma ársins sé ekki síld að fá í Norðursjó eða við Hjaltland, þá geti þessir bátar farið t.d. á Grænlandsmið eða annað, þar sem þyrfti þá að taka tillit til eðlilegs hvíldartíma og orlofs þessara aðila. Þetta tvinnast mjög saman, og þrátt fyrir góða tekjuvon er það staðreynd, að það hefur gengið töluvert erfiðlega að manna t.d. Norðursjávarbátana okkar, vegna þess hve mönnum óaði við því að vera kannske frá því að vori til og fram undir jól í fjarveru að heiman. En að ég væni hæstv. félmrh. um það, að hann vilji með einum eða öðrum hætti níðast á þessari starfsgrein, það hef ég aldrei sagt, og ég vona, að hann gefi mér aldrei tilefni til, að ég þurfi að segja það.

Þá saklausu spurningu mína, hvort hugsanlegt væri að leysa önnur atriði kjaradeilunnar með lagasetningu, tók hann einnig nokkuð óstinnt upp og svaraði, að því að mér fannst, nokkuð afdráttarlaust. Ég hygg, að í vinnudeilum geti ráðh. yfirleitt ekki útilokað neina leið til lausnar þeim, svo sem sagan hefur sannað undanfarna áratugi, og menn í minni stöðu hafa undir svipuðum kringumstæðum orðið að renna niður fyrri kenningum sínum með ískalda reynsluna fyrir augum og staðreyndir fram undan, og allt eins gæti það komið fyrir hæstv. núv. ríkisstj., eins og það hefur hent aðra áður. Það er ekki til neitt algert nei eða algert já í þessum hlutum. Þá verður að meta með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, og þá er það skylda ráðh. að meta þjóðarhag umfram hag einstakra starfsgreina. Ég vil þess vegna algjörlega vísa því frá, að hér hafi verið um nokkrar hlustarverkjarhugleiðingar að ræða, heldur fullkomna alvöru um að heyra mat hæstv. ráðh. á því, hvernig þessir hlutir stæðu nú. Það vita allir, sem vilja kynna sér efni þeirra tveggja frv., sem hér eru á dagskrá, að þetta var ein af meginkröfum verkalýðssamtakanna. Eðlilegt framhald af því hlaut því að vera að spyrja, hvort til mála kæmi að leysa aðra þætti þessara krafna verkalýðssamtakanna einnig með sama hætti. Í því felst síður en svo neitt vonleysishjal og allra sízt það, að verið sé að væna þá aðila, sem í samningaviðræðunum standa, um, að þeir vinni ekki sitt verk hver eftir beztu getu. Eigi að síður er það staðreynd, sem ég endurtek hér aftur og er grundvöllur að spurningu minni, að allir ábyrgir forustumenn, báðum megin við samningaborðið, hafa látið fjölmiðla hafa það eftir sér dag eftir dag, að ekkert miði í samkomulagsátt. Stundum er sagt, að þeir óski ekki eftir því að ræða málið opinberlega, meðan það sé á samningastigi, en hér hefur báðum borið saman um, að ekkert hafi miðað í samkomulagsátt. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að í sambandi við mál eins og þetta verður vart komizt hjá því að spyrja, hvort þetta sé ekki í samhengi og hvort ekki sé þá eðlilegt að huga að einhverjum öðrum lausnum. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. segi satt og rétt frá, að viðræður hafi gengið með eðlilegum hætti, n. hafi verið settar og undirnefndir til að fjalla um einstök atriði samninganna. En eftir sem áður stendur það, að báðir aðilar telja að ekkert hafi miðað í samkomulagsátt, þrátt fyrir tveggja mánaða umr. Áður hefur það verið venja, að aðilar hafa komið sér saman um að ræða málið ekki við fjölmiðla, meðan á samningaumleitunum stendur. Hér er reginmunur á.

Lokaorð ráðh. í svarræðu hans áðan voru þau, að meginatriði þessa máls séu þau, hvort menn geti fallizt á 40 stunda vinnuviku þeim til handa, sem ekki hafa hana nú. Um það liggja fyrir jákvæð svör frá minni hendi og, ég held, flestra þeirra, sem hér hafa talað, þannig að stjórnin þarf ekki að óttast um framgang þessa máls. En ég vona, að ráðh. misvirði það ekki, þó að spurt sé um leið um önnur efni, náskyld þessu máli, og það er ekki af neinum illvilja mælt, nema síður sé. Hann hefur fyrir fram stuðning minn, og ég vildi gjarnan í samræmi við upphafsorð mín vona það, að ríkisstj. beri gæfu til þess að fá með sér meðmælendur um sem allra flest nauðsynjamál, en ekki í þeim anda, að hér þurfi að vera þras eða óþarfar umr. um hluti, sem allir eru sammála um.