18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

240. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52 12. maí 1970, um eftirlit með skipum, 240. mál Ed. Á þskj. 910 er nál. frá sjútvn., þar sem segir, að hún hafi orðið sammála um að samþykkja frv. Ég vildi nú leyfa mér að segja örfá orð um leið og ég skila þessu nál.

Öllum er vissulega ljós sú hætta, sem er samfara fljótandi veiðarfæradruslum úr léttum gerviefnum, og um það er núna býsna nærtækt dæmi, þegar eitt slíkt net varð einu bezta aflaskipinu í Vestmannaeyjum að fjörtjóni, þegar slík trossa lenti í skrúfunni í ofsaveðri á afar vondum stað með þeim afleiðingum, að skipið eyðilagðist, en mannbjörg varð. Í þessu sambandi finnst mér rétt að minnast einnig á atriði, sem ekki er í þessu frv., að það þyrfti endilega að koma inn einhvers staðar í reglugerð laganna strangara ákvæði í sambandi við hin svokölluðu drauganet, þ. e. niðurslitnar nælontrossur, sem halda áfram að veiða sífellt og eru hinn versti skaðvaldur öllu lífi í sjónum.

Það er óþarfi að hafa mörg fleiri orð um þetta sjálfsagða mál, og eins og ég segi lagði n. einróma til að frv. yrði samþykkt.