10.04.1972
Efri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

237. mál, lögreglumenn

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og frá er skýrt í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir, frv. til l. um lögreglumenn, eru þær breytingar, sem í frv. er lagt til að gerðar verði á gildandi lögum um þetta efni, í tengslum við þær breytingar á verkefna- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, sem samkomulag varð um í viðræðum síðari hluta f. á. og Alþ. staðfesti í raun með afgreiðslu fjárlaga í des. s. l. Lagabreyting á þá lund, sem hér eru gerðar till. um, varð þá að sjálfsögðu að koma til svo að fyrirætlanir þessar við setningu fjárlaga samrýmdust lagaákvæðum um greiðslu kostnaðar við löggæzluna. Eins og kunnugt er, hefur það um alllangt skeið og árabil, má segja, verið mjög eindregin ósk sveitarfélaganna og samtaka þeirra, að ríkið tæki við greiðslu kostnaðar af löggæzlunni að fullu. Í sjálfu sér er þessi ósk ekki óeðlileg, þar sem löggæzlan og lögreglumennirnir hafa verið um störf sín og starfsháttu undir stjórn lögreglustjóra og svo ráðh. og hliðstæð breyting mun hafa verið gerð í öðrum nálægum löndum. Þar sem í sambandi við þetta er um mjög verulegar kostnaðartilfærslur að ræða, hlaut sú tilfærsla að vera þáttur í heildarendurskoðun á skiptingu kostnaðarliða og tekjustofna milli ríkisins og sveitarfélaganna, og skal ég ekki hér fara nánar út í það.

Eins og ég þegar hef sagt, er þessu frv. fyrst og fremst ætlað að gera breytingar á lagaákvæðum, sem snerta þessa hlið málefna löggæzlunnar, svo og jafnframt þeim ákvæðum, sem eðli málsins samkvæmt hljóta að vera samfara kostnaðartilfærslunni, þ. á m. að lögreglumenn, sem áður hafa verið starfsmenn sveitarfélaga, hljóta nú að verða starfsmenn ríkisins. En í því sambandi er þó samkv. þessu frv. heimilaður umþóttunartími, og að sjálfsögðu eru gildandi kjarasamningar að öllu leyti virtir. Um þetta efni eru ákvæði í 13. gr. frv., sérstaklega í 2. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 13. gr., og reglan er í stuttu máli sú, eins og þar kemur fram, að lögreglumenn, sem verið hafa í þjónustu sveitar- eða sýslufélags, eiga kost á því til ársloka 1973 að gerast starfsmenn ríkisins með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgja. Lögreglumaður, sem ekki kýs þessa leið, skal teljast vera áfram starfsmaður sveitar- eða sýslufélagsins með kjörum samkv. gildandi kjarasamningi óbreyttum til loka gildistíma hans.

Í 4. mgr. sömu gr. segir:

„Um mál þeirra lögreglumanna, sem ekki kjósa að gerast ríkisstarfsmenn fyrir 31. des. 1973, þegar gildistíma núgildandi kjarasamnings þeirra lýkur, skal farið eftir almennum reglum um niðurlagningu stöðu í 14. gr. laga nr. 38/ 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Ég held, að með þessum fyrirmælum séu fengnar skýrar reglur um þetta efni. Að sjálfsögðu getur verið hér nokkurt álitamál, hvernig með eigi að fara, en það er auðvitað eðlilegt að gefa lögreglumönnunum nokkurn umþóttunartíma og umhugsunartíma til þess að segja um það, hvort þeir vilja verða starfsmenn ríkisins. Ef þeir ekki kjósa það, virðist, eins og þarna er gert ráð fyrir, eðlilegast að fara með það með sama hætti eins og þegar staðan er lögð niður, því að það má segja, að þessi staða eða þetta starf, sem verið hefur á vegum sveitarfélagsins, sé lagt niður, og eiga þá þeir, ef þeir kjósa þá leið, kost á launum í 6 eða 12 mánuði, eftir því hve starfstími þeirra hefur verið langur.

Um fjárhagsleg skipti ríkis og sveitarfélaga vegna viðtöku ríkisins á rekstrarmálefnum löggæzlunnar eru ákvæði í 14. gr. frv. og hefur þar verið tekið nokkurt mið af meðferð þeirra málefna hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum, er samsvarandi tilfærslur frá sveitarfélögum til ríkis á löggæzlukostnaði voru þar gerðar. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að lesa það upp, en vísa til þess, sem í þessari frvgr. segir þar um, svo og þess, sem sagt er í grg. En þær reglur, sem þar eru settar, virðast mér vera nokkuð í samræmi við eðli málsins.

Það má segja, eins og ég þegar hef tekið fram, að með þessu frv. séu ekki fyrirhugaðar verulegar breytingar á gildandi lögum í öðrum efnum en þeim, sem leiða af hinu sérstaka tilefni lagabreytinga. Að vísu er um að ræða nokkrar orðalagsbreytingar í þessu frv. frá gildandi lögum. Enn fremur er það, að upp í þessi lög eru tekin nokkur ákvæði, sem nú eru í lögum um meðferð opinberra mála, en þykja eiga heima í þessum lögum, en þar er ekki um neina efnisbreytingu að tefla frá núgildandi lögum. Enn fremur er það, að í þessu frv. er horfið frá þeirri reglu, sem er í núgildandi lögum, að binda tölu lögreglumanna ákveðið við íbúafjölda. Eftir þessu frv. og ef það verður að lögum. þá er ekki gert ráð fyrir því, að fjöldi lögreglumanna sé þannig fyrir fram markaður með ákveðinni tölu, heldur fer það þá eftir ákvörðun ráðh. og fjárveitingavalds. Þar sem hér hefur verið skammur aðdragandi til undirbúnings þessara lagabreytinga og skammur aðdragandi að nauðsyn, sem hér varð á lagabreytingu, þá þótti ekki rétt að sinni að fara út fyrir þennan þrönga ramma, sem sagt að einskorða sig nokkuð við þær breytingar, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af kostnaðartilfærslunni. Hins vegar má ætla, að þörf væri á að huga að fleiri breytingum í lögum um lögreglumenn, annaðhvort við framhaldsmeðferð þess nú í þinginu eða á næsta þingi, sem er þó e. t. v. eins heppilegt, af því að ég geri ráð fyrir því, að það verði fremur takmarkaður tími nú til meðferðar þessa máls.

Ég vil aðeins í því sambandi nefna tvö atriði, sem ég fyrir mitt leyti held, að sé ástæða til að athuga og verði að koma til athugunar. Í samsvarandi lög á hinum Norðurlöndunum hafa verið sett ákvæði um nefndir, sem þar eru kallaðar „politinævn“ eða „politirád“ og er ætlað að vera nokkurs konar samstarfsnefndir lögreglustjórnarinnar, lögreglumanna og borgaranna. Það er með kjörnum fulltrúum sveitarstjórnanna. Ég fyrir mitt leyti tel mjög sterklega koma til greina að taka upp slíkar nefndir hér, sem e. t. v. mætti kalla löggæzlunefndir, og þá auðvitað með reglum, sem lagaðar væru að íslenzkum aðstæðum. Ég tel, að með þessum hætti mætti opna leið til að auka skilning á milli borgaranna og lögreglunnar og fá vettvang fyrir ábendingar um atriði, sem betur mættu fara, og það gæti gefizt tækifæri til að eyða margs konar misskilningi, sem upp kemur í samskiptum borgara og valdstjórnarmanna. Og ég vil segja það, að ég álít þetta atriði mjög mikilvægt, vegna þess að störf lögreglumanna eru þýðingarmikil og það er mjög mikilvægt, að það ríki skilningur á þeirra störfum og það sé skilningur og gagnkvæmt traust á milli löggæzlumanna og borgara. Og ég hygg, að við getum bætt um frá því, sem er í þeim efnum nú, þó að ég vilji ekki segja, að það hafi komið hér upp neinir sérstakir agnúar þar á.

Hitt atriðið, sem ég vil nefna í þessu sambandi, varðar vandamál, sem mönnum hefur að nokkru verið ljóst en hefur þó beðið úrlausnar. Á ég þar við hin sérstöku aldursvandamál vegna eðlis löggæzlustarfanna og þeirrar sérstöku áreynslu, sem því starfi fylgir og á stundum svo, að það er nánast fráleitt að ætla nærri sjötugum mönnum að standa í slíku. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að lík vandamál geta verið fyrir hendi við önnur störf ýmiss konar, en þó held ég, að þau séu með svo sérstökum hætti að því er lögreglumenn varðar, að ég tel æskilegt, að um þau verði nánar fjallað. Þau vandamál snerta hins vegar einnig aðra þætti löggjafarinnar, svo sem lífeyristryggingar, og skal ég ekki ræða um það nánar hér, en vil aðeins benda á þetta, að þarna er um að tefla vandamál, sem mér er ljóst, að er fyrir hendi, og ég tel, að verði að huga að á næstunni.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég held, að frv., sem hér liggur fyrir, sé nokkuð skýrt, og þar að auki fylgja því skýringar í grg., sem ég vona, að geri efni þess skiljanlegt að fullu. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn., og ég vil nú leyfa mér, þar sem ég tel hér vera um frv. að ræða, sem eðli málsins samkvæmt verður að ganga fram á þessu þingi og er í raun og veru afleiðing af því, sem efnislega er þegar búið að ákveða, að vænta þess, að hv. n. sjái sér fært að hraða störfum og þetta frv. geti gengið greiðlega í gegnum þingið.