12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

237. mál, lögreglumenn

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera að umtalsefni örfá atriði í sambandi við þetta frv. í framhaldi af því, sem ég hef raunar áður látið í ljós við 1. umr. málsins hér í hv. d. Ég tek eftir því, að í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um frv. þetta er sérstaklega tekið fram, að ekkert samráð hafi verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga um undirbúning þessa frv., og er það auðvitað miður. Það er aðallega aths. við tvær greinar þess, sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerir, og með því að mér skilst, að forsvarsmaður ríkisvaldsins hafi á fundi með hv. n. lýst því yfir, að það mundi ekki standa á endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs á löggæzlukostnaði, sem sveitarfélög leggja út, þá sé ég ekki ástæðu til að gera nokkra breytingu í þeim efnum, heldur hljótum við að treysta þeim yfirlýsingum.

Að því er snertir 14. gr. frv. er ég þeirrar skoðunar, að það væri eðlilegt að breyta þeirri grein eins og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga bendir á. Aðalatriðið í því sambandi tel ég vera, að nú áformuð lagagrein mismunar töluvert sveitarfélögum innbyrðis. Við skulum segja t. d. hér í Reykjavík, þar sem borgarsjóður hefur að engu leyti staðið undir byggingu lögreglustöðvarinnar nýju, þá er ekki um að ræða, að borgarsjóður Reykjavíkur þurfi yfir neinu að kvarta eins og lagagreinin er orðuð. En t. d. eins og bent var á í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, hafa sveitarfélögin á Húsavík, á Hornafirði og jafnvel á Akureyri varið töluverðum fjármunum til þess að byggja yfir lögregluna á staðnum, og mér finnst óeðlilegt, að þessi sveitarfélög fái ekki eignarhluta sinn greiddan eða sérstakir samningar fari fram um þetta efni á milli ríkisins og sveitarfélagsins. Með því að þetta mál er núna hér til umr. eftir samþykkt afbrigði, þá hef ég ekki haft tíma eða tök á því að gera upp við mig, hvort ástæða eða nokkur von er til þess, að þessari lagagr. verði breytt, en það yrði þá að gerast hér í hv. d. við 3. umr. málsins.

Loks vil ég svo ítreka það, sem ég hef áður látið í ljós, og það kemur raunar fram í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, að fyrirheit ríkisstj. um að taka að sér allan löggæzlukostnað er ekki efnt fyrr en búið er að breyta þeim lögum, sem fjalla um byggingu og rekstur héraðsfangelsa. Í þessari umsögn er bent á, að þau eru víða undir sama þaki og lögreglustöðvar og það er álit stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, að ekki sé fullnægt yfirlýsingu ríkisstj. um yfirtöku ríkisins á öllum löggæzlukostnaði fyrr en téðum lögum hefur verið breytt. Ég vildi leggja áherzlu á, að þetta væri gert, þótt nú fari að dvína vonir í lok þings, að það takist á yfirstandandi þingi, en vildi þó varpa fram þeirri fsp. til frsm. n., hvort nokkur von væri til þess eða hvort þetta atriði hefði sérstaklega verið rætt innan nefndarinnar.