13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

237. mál, lögreglumenn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til athugunar í allshn. hv. d., lá ekki fyrir umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga og það var ekki fyrr en á allra síðustu stundu, og raunar eftir nokkra eftirgangsmuni, að sú umsögn barst. Okkur þótti, ýmsum nm., sjálfsagt að fá viðhorf samtakanna, sem eru gagnaðilar þessa máls, um ýmis atriði í sambandi við frv. Það var auðvitað gefið mál og þurfti ekki að spyrja þess, að sveitarfélögin mundu verða sammála um, að ríkið tæki að sér löggæzlukostnaðinn, en það var einmitt ekki hvað sízt 14. gr. frv., sem olli því, að í umr. í n. var látin í ljós nokkur undrun yfir því, að ekki hafði heyrzt frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nú munu þetta hafa verið einhver mistök, að þessi umsögn barst ekki fyrr, og hún var til meðferðar hjá okkur áður en málið var endanlega afgreitt, en það er rétt, sem hv. form. n. sagði og frsm., að við töldum æskilegt, að það væri ekki hreyft miklu í frv., af því að það var orðið síðbúið og nauðsynlegt að afgreiða það áður en þingi lyki. Hins vegar held ég, að það hafi komið fram hjá öllum nm., að í rauninni væru þeir nokkuð efins um það, hvort hægt væri að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í frv., að taka eignir sveitarfélaganna, og það var nú sérstaklega í sambandi við 1. málsgr., sem við höfðum búizt við, að sveitarfélögin mundu hafa uppi nokkur mótmæli. Nú kemur hins vegar í ljós í ummælum Sambands ísl. sveitarfélaga, að þau láta eftir atvikum við svo búið standa varðandi 1. málsgr. 14. gr., en hafa hins vegar uppi þær óskir, að ríkið yfirtaki og kaupi eignarhluta þeirra í fasteignum, sem notaðar eru í sambandi við löggæzlu.

Ég minnist þess, að í n. komu upp raddir um það, hvort ekki væri a. m. k. eðlilegt, að sveitarfélögin fengju húsaleigu fyrir þessar eignir sínar. Nú er ekki þarna gert ráð fyrir að taka af sveitarfélögunum eignirnar, heldur að þau haldi áfram að forminu til sínum eignarhluta, en út af fyrir sig má segja, að það sé eðlilegast, að þetta sé í eigu ríkisins. Það er nokkuð til í því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að hér verður um allverulega mismunun að ræða að því leyti, að ýmis sveitarfélög hafa lagt í mikinn kostnað, en t. d. Reykjavíkurborg hefur ekki neinn kostnað af sinni lögreglustöð, ríkið hefur borgað hana að fullu, þannig að það eru fyrst og fremst sveitarfélög ýmis úti um land, sem hér yrðu þá að sitja uppi með það að eiga að forminu til eign, sem er þá orðin lítils virði, þar sem hún er varanlega afhent ríkinu til afnota leigugjaldslaust, en aðrir aðilar, eins og hv. þm. gat um. mundu hér ekki verða fyrir neinum slíkum búsifjum, þar sem þeir hafa ekkert lagt til lögreglunnar með þessum hætti.

Af því að nál. var afgr. frá n. með því fororði, að einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., þá tel ég ekki, að það brjóti í bága við hið sameiginlega nál. okkar, þó að ég lýsi yfir þeirri skoðun minni, að með hliðsjón af því, að um þetta er komin fram formleg till., tel ég mér ekki fært að greiða atkv. gegn þessu. Efnislega eru vissulega til rök fyrir því að gera þetta, og mér skilst, að umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga eða sú ákvörðun þeirra, að gera ekki kröfu til neinna bóta fyrir tækjakostinn, sem er verulegt fjármagn fyrir ýmis sveitarfélög og þá ekki hvað sízt fyrir Reykjavíkurborg, sé tekin með hliðsjón af þeirri till., sem sambandið gerir, að ríkið yfirtaki fasteignirnar eða greiði fyrir þær með einhverjum hætti.

Ég er alveg sammála hv. frsm. n. og formanni, að það sé alveg nauðsynlegt að koma þessu máli í gegnum þingið, en sé ekki út af fyrir sig, að það hafi nein áhrif, þó að þessi till. verði samþ., vegna þess að við erum þegar búnir að samþykkja hér brtt., þó að þær kunni kannske að vera veigalitlar, og ég hef jafnvel nokkra hugmynd um það, að einhverjir aðilar í hv. Nd. muni ekki sætta sig alls kostar við þær brtt., sem við höfum hér gert, þannig að þó að ein brtt. til viðbótar væri hér gerð við frv. á þessu stigi, mundi það auðvitað ekki þurfa að seinka neitt meðferð málsins. Ég lýsi því stuðningi mínum við þessa brtt. hv. 2. þm. Reykv. og að sjálfsögðu einnig stuðningi við þær till., sem n. flytur sameiginlega.