17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

237. mál, lögreglumenn

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Í því frv., sem hér um ræðir, eru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að löggæzlustarfið verði með öðrum hætti en verið hefur. Samkvæmt gildandi lögum um lögreglumenn eru þeir flestir starfsmenn sveitarfélaganna, þó að embættismenn ríkisins, lögreglustjórar og yfirsakadómari, hafi haft stjórn á störfum þeirra. Það hefur þótt eðlilegt við þessa meginbreytingu, sem hér verður, að semja að nýju heildarlöggjöf um lögreglumenn, en höfuðbreytingin er sú að sjálfsögðu, að ríkið tekur að sér allan kostnað af starfsemi löggæzlunnar í framtíðinni. Þegar fjárlög voru afgreidd á síðasta þingi, fór afgreiðsla þeirra einmitt þannig fram, að það var gert ráð fyrir því, að ríkið tæki að sér greiðslur í sambandi við alla löggæzlu í landinu. Dómsmrh. fer með yfirstjórn lögreglunnar, og lögreglustjórar víðs vegar um landið og yfirsakadómari fara með stjórn lögreglu og rannsóknarlögreglu í umdæmum sínum.

Ég vil þá geta um þær umsagnir, sem hafa borizt n., en það voru gerðar smávægilegar breytingar á frv. í hv. Ed. Umsögn barst t. d. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í þeirri umsögn kemur fram, að það hafi verið krafa og tilmæli þessara samtaka árum saman, að ríkið eitt annaðist allan löggæzlukostnað. Hins vegar gera þeir athugasemdir við 13. og 14. gr. frv. Það er í fyrsta lagi við 1. mgr. 13. gr., um það, að sveitarfélögin inni af hendi greiðslur fyrst um sinn eða þangað til samkomulag verði á milli aðila um það, og ríkissjóður endurgreiði síðan sveitarfélögunum þessar fjárupphæðir. Í öðru lagi gera þeir athugasemdir við 1. mgr. 14. gr., sem er þannig:

„Ríkið tekur við, án sérstakrar greiðslu, þeim tækjum og búnaði, sem sveitar- eða sýslufélag hefur lagt lögreglunni til.“

Í umsögninni frá Sambandi ísl. sveitarfélaga kemur fram, að þeir eru út af fyrir sig ekki mjög óánægðir með þetta og telja það ekkert óeðlilegt. Hins vegar er svo næsta mgr., sem er þannig:

„Ríkið tekur við húsnæði, sem ríki og sveitar- eða sýslufélög hafa stofnað til sameiginlega, án greiðslu fyrir viðtöku þess, en sveitar- eða sýslufélög halda eignarhluta sínum í því.“

Það er eiginlega þetta atriði, sem þeir eru mjög óánægðir með og hafa óskað eftir breytingu á. N. telur, eða a. m. k. meiri hl. hennar, að ekki sé óeðlilegt, að sveitarfélögin leggi til þetta húsnæði, enda stendur í greininni, að þau haldi sínum eignarhluta óskertum. Á meðan þessi starfsemi, löggæslan, er í þessu húsnæði, verða þeir samt sem áður að láta húsnæðið af hendi til þessarar starfsemi, en sé annað húsnæði tekið, þá eiga þeir þennan eignarhluta og geta ráðstafað honum í samráði við ríkisstj.

Þá kemur fram í umsögn sakadómara, að hann sé þeirri breytingu fylgjandi, sem í frv. felst, en leggur til, að ein breyting verði gerð á 2. gr. frv., og tók allshn. Ed. upp þessa breytingu og var hún samþ. í hv. Ed.

Í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram. að þróunin hafi verið sú hér á landi, að hlutur ríkisins hafi farið vaxandi í greiðslu á lögreglukostnaði. Áður en þau lög, sem nú gilda, tóku gildi, en það var árið 1963, hafði meginreglan verið sú, að ríkið greiddi 1/6 hluta af löggæslukostnaði, en síðan 1963 hefur ríkið greitt yfirleitt hálfan þennan kostnað. Enn fremur kemur fram í umsögn lögreglustjórans, að á Norðurlöndum sé öll löggæzla í höndum ríkislögreglu og sú skipan hafi verið tekin upp fyrir allmörgum árum. Mælir lögreglustjórinn með samþykkt frv.

Þá kemur enn fremur umsögn frá fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn., en þeir benda á, að gera þurfi smávægilegar breytingar á frv. Allshn. hv. Ed. tók upp aðra breytinguna, og var hún samþykkt í þeirri d.

Þá kom umsögn frá Landssambandi lögreglumanna og í henni kemur fram. að ekki hafi verið haft samráð við samband lögreglumanna um þessa breytingu, þ. e. að lögreglumenn verði starfsmenn ríkisins, og óska þeir eftir því, að þetta verði ekki gert, nema þeir haldi þeim fríðindum og kjörum óskertum, sem þeir kunna að hafa á hverjum stað. Nú er vitað, að þetta mun vera eitthvað mismunandi, en það er álit meiri hl. n., að eðlilegt sé, að fram fari samningar um þetta og þetta verði samræmt.

N. afgreiddi frv. þannig, að hún mælir með samþykkt þess, en einstakir nm. gera það með þeim fyrirvara, að þeir áskilja sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt.

Það hafa komið fram nokkrar brtt. Í fyrsta lagi brtt. frá hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, Stefáni Gunnlaugssyni og Bjarna Guðnasyni og er sú brtt. við 2. gr., að orðin „og yfirsakadómari með stjórn rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík“ falli niður. Ég vil minna hv. þd. á það, að í síðasta mánuði var afgreitt hér frv. um skipun dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o. fl., en þar segir, í 4. gr. þeirra laga:

„Undir sakadómaraembættið í Reykjavík heyra m. a. opinber mál, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 82/1961, barnsfaðernismál, uppkvaðning lögheimilisúrskurða svo og uppkvaðning meðlagsúrskurða, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og umsjón hegningarhúss.“

Eftir þeim lögum heyrir sem sagt stjórn rannsóknarlögreglu undir sakadómaraembættið, og ef þessi brtt. væri samþykkt, mundi hún vera alveg þvert ofan í þá samþykkt, þessa lagasetningu, sem við gerðum hér í hv. d. fyrir mánuði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.