17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

237. mál, lögreglumenn

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm. hefur nú gert grein fyrir þeim brtt., sem við erum flm. að þrír, á þskj. 825, og þetta mál varða. En ég hef leyft mér að flytja aðra brtt. á þskj. 809 við þetta sama mál ásamt hv. 5. landsk. þm., Stefáni Gunnlaugssyni, og hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasyni. Brtt. okkar gengur út á það að nema á brott ákvæði, sem bætt var inn í frv. við meðferð þess í hv. Ed., en þar var sú viðbót gerð við 2. mgr. 2. gr., að tekið var fram, að yfirsakadómari færi með stjórn rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík. 2. mgr. 2. gr. hljóðaði svo í frv. upphaflega, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslumenn eru lögreglustjórar í sýslum og bæjarfógetar í kaupstöðum. Þar sem sérstakir lögreglustjórar eru skipaðir, fara þeir með lögreglustjórn í umdæmi sínu.“

Við leggjum m. ö. o. til, að sú viðbót, sem þarna var gerð við þessa mgr. í Ed., verði numin á brott. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og stutt þá skoðun við nokkra reynslu af þessum málum, að stjórn lögreglu eigi að vera öll undir einum og sama hatti, eins og hún er yfirleitt alls staðar á byggðu bóli, þar sem ég þekki til nema í sjálfum höfuðstaðnum, Reykjavík. Utan Reykjavíkur lýtur bæði rannsóknarlögregla og almenn lögregla stjórn lögreglustjóra. Svo mun og vera í nágrannalöndum okkar, meðal frændþjóða, og annars staðar, þar sem ég þekki til.

Hv. frsm. lét í ljós nokkra undrun yfir því, að þessari brtt. skyldi hreyft nú á þessu stigi málsins, þar sem við hefðum nýlega fjallað um frv. til laga um svipað efni hér í hv. d. Hann minntist eitthvað á, að það væri undarlegt, að nú væri verið að flytja brtt. sem gengi þvert á það mál. Vitanlega er svo, að við erum alltaf að hreyfa málum, sem ganga þvert á eitthvað, sem samþ. hefur verið áður, og brtt. ganga yfirleitt þvert á það, sem er í gildandi lögum eða frv., sem fyrir liggja. En þar að auki leit ég svo á a. m. k., að þetta frv., sem hv. frsm. minntist á, hefði einkum og sér í lagi verið flutt til þess að leysa viðkvæmt deilumál, kjaramál dómarafulltrúa, sem með þessu frv. var fjölgað að mun til þess að ná sáttum í því vandasama máli. Ég gat þess áðan, að ég hefði lengi verið þeirrar skoðunar, að rannsóknarlögregla og almenn lögregla ættu að lúta sama yfirmanni. Ég skal geta þess, að þetta er ekki nýtt af nálinni. Þetta er fyllilega í samræmi við þáltill., sem ég flutti hér á hv. Alþ. fyrir nokkrum árum um breytta skipan lögreglumála í Reykjavík. Sú till. fékk þinglega meðferð, henni var vísað til allshn. og allshn. lætur svo um mælt, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur haft framangreinda þáltill. til athugunar og sent hana til umsagnar dómsmrn. leggur n. til að Alþ. samþykki till. óbreytta.“ Þannig var till. samþ. einróma á Alþ. 17. apríl 1968, en hún er svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa breytta skipan á yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík, þannig að bæði hin almenna lögregla og rannsóknarlögregla heyri framvegis undir yfirstjórn lögreglustjóra.“

Ég held, að mér sé óhætt að segja, að þessi till. sé studd af yfirgnæfandi meiri hl. starfandi lögreglumanna. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að nú er það húsnæði senn tilbúið, sem ætlað hefur verið bæði almennu lögreglunni og rannsóknarlögreglunni, hin nýja lögreglustöð í Reykjavík. Enn fremur blasa nú við lögreglunni, sem svo oft áður og endranær, mjög erfið viðfangsefni, eins og minnzt var á hér í dag af hv. 9. landsk. þm., þar sem er glíman við fíknilyfin. Ég hygg, að í þeirri baráttu megi lögreglan ekki liggja á liði sínu og þar sé mjög nauðsynlegt, að allir lögreglumenn, hvort sem þeir teljast til rannsóknar- eða götulögreglu, vinni saman sem einn maður.

Til þess að koma þessu máli að fullu í kring, þarf að sjálfsögðu að athuga nokkur fleiri atriði, en ég tel það fyllilega tímabært að hreyfa þessu máli einmitt á þessu stigi, þegar verið er að gera þá meginbreytingu á skipan mála að gera alla lögreglumenn landsins að ríkislögreglumönnum eða eins og segir í 1. gr. frv.: „Héðan í frá á ríkið að halda uppi starfsemi lögregluliðs í landinu.“