18.05.1972
Neðri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

237. mál, lögreglumenn

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af þeim brtt., sem samþykktar voru við þetta frv. hér við 2. umr., vil ég segja það, að ég fyrir mitt leyti hef ekkert við þær að athuga og get fallizt á þær. Að því er fyrri brtt. varðar þá eru þar felld niður orð, sem inn var skotið í frv. í Ed., og frv. þá komið í sömu mynd eins og það var lagt fram af stjórnarinnar hálfu á öndverðu þingi. Að sjálfsögðu helzt óbreytt skipan varðandi stjórn rannsóknarlögreglu, því að hún er ákveðin í öðrum lögum, þ. á m. sérlögum og þá fyrst og fremst lögum um meðferð opinberra mála. En þýðing þess, að þetta er samþ. hér og fellt niður úr þessum lögum, er, að það er ekki í þessum lögum út af fyrir sig neitt sagt um það atriði. En eins og ljóst er af niðurlagsákvæði frv., þá eru með þessu frv. aðeins felld niður lög um lögreglumenn.

Og viðvíkjandi síðari brtt. er það svo, að það er ekki nema eðlileg framkvæmd, sem gert var ráð fyrir, að yrði höfð á þessu, þannig að ég vona, að frv. geti gengið í gegn fljótt með þessum hætti, þó að það þurfi að fara aftur til Ed.