18.05.1972
Neðri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

237. mál, lögreglumenn

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 9. landsk. þm. og tali hans um það, að slík eignaupptaka eins og hér er talað um af þeirra hendi eigi sér engin fordæmi áður í viðskiptum ríkis og sveitarfélaga, þá vil ég minna á það, að þegar hér voru sett lög um héraðsskóla, en þar voru eignaraðilar bæði ríki og sveitarfélög, þá kom ekki til nein greiðsla frá hendi ríkisins í sambandi við eignir sveitarfélaganna í þessum stofnunum, svo að fordæmi um þetta eru fyrir hendi. Ég kann nú ekki skil á fleirum, en ég man eftir þessu í svipinn. Ég geri ráð fyrir því, að þegar til framkvæmda kemur um þessi mál, verði um það samkomulag á milli aðila. Hér er talað um, að ríkið tekur við fullnustu leigusamninga, sem sveitar- eða sýslufélög hafa gert í þágu lögreglunnar, og um aðrar óloknar skuldbindingar fer eftir samkomulagi. Nú var það t. d. svo með héraðsskólana, að þar tók ríkið ekki við óloknum skuldbindingum, heldur urðu þau sýslufélög, sem stóðu að því, að sjá fyrir þessu. Og ég geri ráð fyrir því, að gerður verði samningur um rekstraraðild að þessum eignum, sem þessir aðilar eiga.