19.05.1972
Efri deild: 92. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

237. mál, lögreglumenn

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Nd. hefur gert tvær breytingar á þessu frv., sem við höfðum á sínum tíma afgreitt frá okkur hér í Ed. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins örfáum orðum um þessar brtt., en ég vil taka það fram, vegna þess hversu knappan tíma við höfum til starfa hér í dag og þetta er síðasti starfsdagur þingsins, að ég tel ekki, að tök séu á því að kalla allshn. þessarar d. saman, en ef þess væri óskað, yrði það að sjálfsögðu gert.

Brtt. eru tvær, eins og ég sagði, og er hin fyrri þeirra breyting á 2. gr. þannig, að það var samþ. í Nd. að fella niður þá viðbót, sem við höfðum sett á sínum tíma í frv. um það, að yfirsakadómari í Reykjavík hefði með stjórn rannsóknarlögreglunnar þar að gera. Þetta ákvæði var svo fellt niður og mgr. hljóðar þá þannig:

Dómsmrh. fer með yfirstjórn lögreglunnar, en lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi.“

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að samkv. lögum um réttarfar í opinberum málum frá 1961 og samkv. lögum, sem voru samþ. hér á Alþ. 14. apríl. er kveðið svo á, að stjórn rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík skuli vera í höndum yfirsakadómara, og í tilefni af þessari samþykkt í Nd. um niðurfellingu á þessu sérstaka ákvæði kvaddi hæstv. dómsmrh. sér hljóðs og lýsti því yfir, að hann teldi, að þessi breyting í Nd. hefði engan veginn í för með sér, að ákvæði um sama efni í þeim tvennum lögum, sem ég minntist á, hefðu þar með fallið úr gildi, og má þá segja, að þessi niðurfelling, sem gerð var á frv. í Nd., hafi litla sem enga þýðingu. Þess vegna legg ég til að hv. d. samþykki þessa gr. eins og hún kom frá Nd.

Í annan stað var gerð breyting við 13. gr., I. mgr., á þá lund, að sveitarfélög skuli fá endurgreiddan útlagðan kostnað mánaðarlega úr ríkissjóði til áramóta hinna næstu, eða 31. des. 1972. En eins og við gengum frá því hér í d., þá var ekki ákvæði um tímamörk á þessum greiðslum og ekki heldur, að þær skyldu vera mánaðarlega, um það var ekkert ákvæði í frv. þá. Ég tel, að þessi breyting skipti ekki miklu máli og legg því til, að þessi breyting verði samþ. einnig í þessari hv. d.

Þá tel ég, að ég hafi gert þau skil, sem ég bezt get, þessum tveimur brtt., sem samþ. voru við þetta frv. í Nd., og eins og ég sagði í upphafi, tel ég ekki ástæðu til þess að kveðja allshn. saman til að fjalla um þessar brtt.