02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr:, var ítarlega rætt fyrir nokkru við l. umr. málsins hér í hv. d. og skýrt ítarlega af hæstv. félmrh. Það er því minni ástæða en eila fyrir mig til þess að tala hér langt mál, sérstaklega þar sem svo ánægjulega og e.t.v. nokkuð óvænt hefur farið, að heilbr.- og félmn. leggur fram shlj. álit og mælir einróma með samþykkt frv.

Meginatriði þessa frv. eru löggjafarrammi utan um það ákvæði, að 40 stunda vinnuvika, dagvinnuvika, skuli almennt vera í gildi hér á landi. Frá þessu eru fáar undantekningar og eru tilgreindar í 1. gr. frv., þ.e.a.s. það eru sjómenn á fiskiskipum, kaupafólk og vinnuhjú, launþegar, sem vinna heimavinnu við önnur störf, sem vinnuveitandi hefur ekki aðstöðu til að fylgjast með, og loks forstöðumenn og sérstakir fulltrúar í störfum, sem eru þess eðlis, að eftirliti með vinnutíma verður ekki við komið. Þetta eru sem sagt undantekningar, og þær eru ekki ýkjamargar. í séráliti Vinnuveitendasambandsins um málið eða fulltrúa þess í þeirri n., sem undirbjó það, kom fram hugmynd um, að bætt yrði þarna við flugverjum, þ.e.a.s. þeim mönnum, sem eru í áhöfnum flugvéla. Það mál var ítarlega rætt í n., og komu ekki fram nein rök, sem metin voru gild, til þess að það væri sérstök nauðsyn að undanskilja þessa menn. Þó að sérstaða vinnutíma þeirra sé nokkur, þá er hún þess eðlís, að auðvelt virðist vera samkv. öðrum ákvæðum frv. að semja sérstaklega um þann vinnutíma, sem þar hefur nokkra sérstöðu, þ.e.a.s. svokallaðan biðtíma, þegar flugáhafnir verða að vera viðbúnar því að starfa um borð í flugfari, en eru hins vegar ekki raunverulega að störfum að öðru leyti. Þetta er nokkur sérstaða, sem að vísu á sér hliðstæður við vinnu í landi í nokkrum greinum, að menn þurfa að vera við því búnir að vera kallaðir til starfa, en þessi sérstaða þykir ekki vera þess eðlis, að ástæða sé til að undanskilja flugverja með öllu því að verða að koma undir ákvæði þessara laga.

Það er ástæða til þess að vekja strax athygli á því í sambandi við þetta frv,, að með því er ekki um það að ræða, að sett séu ófrávíkjanleg ákvæði um raunverulega virkan vinnutíma. Ber þar að líta á þá grein frv., sem fjallar um kaffitíma. Hún gerir ráð fyrir því, að kaffihlé séu innreiknuð í vinnutímanum og sé greitt fyrir þau. Hins vegar eru ekki ákvæði um það, hvað þessi hlé skuli vera löng eða hve mörg, og leiðir af því, að það er algert samningamál milli aðila vinnumarkaðarins, hver hinn virki vinnutími er innan þeirra marka, sem ákvæði um 40 stunda vinnuviku markar. Hitt er svo aftur annað mál, að augljóslega er stefnt að því af hálfu verkalýðssamtakanna, að virki vinnutíminn verði hinn sami og samið var um í des. á s.l. ári milli ríkisstj. og BSRB, en hann er 37 klst. og 5 mín. á 5 daga vinnuviku og 36 stundir og 50 mín. miðað við 6 daga vinnuviku. Það væri þess vegna misskilningur að halda, að vinnutímamálið sé alveg tekið af samningaborðinu í þeirri . kjaradeilu, sem nú stendur yfir. Það er eitt af þeim málum, sem þar er verið að semja um, og eins og ég sagði, ákvarða lögin ekki, hvernig þetta verður samið, nema að nokkru leyti. Það er þess vegna alger misskilningur, sem stundum örlar á í sambandi við þetta mál, að hér sé verið að lögbinda vinnuviku, sem sé undir 35 klst., eins og kemur fram í séráliti Vinnuveitendasambandsins. Misskilningurinn er fyrst og fremst í því fólginn, að hléin, sem þarna hafa veruleg áhrif á lengd virks vinnutíma, eru ekki ákveðin í lögunum. Hins vegar tel ég, að allar horfar séu á því, að um þetta verði samið á þeim grundvelli, sem samningar BSRB og ríkisstj. í des. í fyrra lögðu í þessu máli. Lögin taka ekki heldur til þess, hvenær dagvinna sé unnin á sólarhringnum og hvernig skipting dagvinnunnar kemur fram á vinnudaga vikunnar, sbr. þó 2. gr. frv., 2. mgr., þar sem segir:

„Að jafnaði skulu ekki unnar fleiri en 8 klst. í dagvinnu á degi hverjum, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum.“

Einnig er heimilt samkv. 2. gr. að semja um tilfærslu á dagvinnutímum, þannig að þeir verði fleiri en 40 á tilteknum árstímum og færri á öðrum, en að meðaltali á ári ekki fleiri en 40. Þetta ákvæði gildir þó aðeins í þeim tilvíkum, þar sem slíkur háttur hefur verið á hafður fyrir gildistöku þessara laga. Enda er þess að gæta, að lögin eru rúm að því leyti, að ákvæði er þar að finna í 1. mgr. 7. gr. frv. um, að víkja megi frá lögunum, ef samið er um það af hlutaðeigandi verkalýðsfélögum og vinnuveitendasamtökum og slíkir samningar eru staðfestir af hlutaðeigandi heildarsamtökum, sem nánar er greint frá í síðari hluta gr. hverjir séu.

Enn er svo þess að gæta, þegar hugað er að því, hvað lögin eru í raun og veru rúm, að í ákvæðum til bráðabirgða er heimilað, að nú í þetta skipti sé heimílt fyrir samtök vinnumarkaðarins að semja um frest til 1. jan. 1973 um allt að helmingi þeirrar styttingar vinnuvikunnar, sem af gildistöku laganna leiðir. Það er kannske ástæða til að minnast aðeins á þetta atriði, vegna þess að í sérálitum bæði Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins, sem prentuð eru sem fskj. með frv., er þess sérstaklega getið, að allt yrði þetta léttbærara fyrir atvinnureksturinn, ef um áfangaskiptingu væri að ræða. En þó að þarna sé opnuð leið til þess í löggjöfinni, þá hefur enn ekki komið fram við samningaborðið, að vinnuveitendur mundu meta það nokkurs verulegs, þó að það yrði horfið að þeim hætti, sem heimilað er í ákvæðunum til bráðabirgða, svo að ég hygg, að það sé ekki í raun og veru eins stórt atriði og ýmsir hafa kannske álitið og vinnuveitendur að sumu leyti halda fram.

Ég ætla ekki að fara langt út í það að rekja það, hverjar eru helztu röksemdirnar fyrir flutningi þessa frv. Ég sagði við 1. umr. og læt mér nægja að endurtaka það, að ég tel, að hér sé um aðgerð að ræða til þess að stytta vinnutímann, sem tvímælalaust er yfirleitt of langur hér á landi frá öllum sjónarmiðum séð, frá sjónarmiði atvinnurekenda, sem vegna of langs vinnutíma uppskera oft og tíðum lélega nýtingu á vinnuafli og hvers konar fjárfestingu, sem þeir hafa með höndum og þurfa að nýta með vinnuaflinu. Hættur eru á hverju leiti á óeðlilega lágum og lélegum afköstum og töfum við vinnu og óþörfum hléum vegna hins langa vinnutíma, hléum t.d., sem fólk tekur sér vegna langþreytu og vinnuleiða vegna hins langa vinnudags, sem hér ríkir. Frá sjónarmiði verkafólks er vinnutíminn, sem hér tíðkast, varhugaverður af beinum heilsufarsástæðum, ef ekki stundum beint hættulegur, og líka frá því sjónarmiði séð, að hinn langi vinnudagur setur verkafólk oft og tíðum nokkuð utangarðs bæði í menningarlegum og félagslegum efnum.

Í öðru lagi er svo hér um hreint jafnréttismál að ræða. Stór hluti þjóðarinnar, a.m.k. 15–20 þús. manns af vinnuaflinu, svo sem opinberir starfsmenn, skrifstofumenn, bankastarfsmenn og ýmsir fleiri, hafa nú þegar 40 stunda vinnuviku. En það eru enn sem komið er fyrst og fremst og nær eingöngu þeir, sem vinna yfirleitt við miklu betri ytri skilyrði og aðbúð við vinnu sína á allan hátt en hinir, sem enn verða að vinna lengri vinnutíma. Það er auðsætt, að til þess að þetta mætti verða, að 40 stunda vinnuvíka varð raunveruleiki fyrir opinbera starfsmenn og ýmsa fleiri, þá hefur ríkisvaldið komið þar mjög til hjálpar til þess að hrinda því máli áleiðis fyrir það fólk. Og nú þegar eftir stendur, að allir erfiðismennirnir eða flestir verða að vinna 4 stundum lengur í hverri viku, þá er málið einfaldlega orðið að mínu viti spurning um það, hvort erfiðismennirnir, verkafólkið, eigi að búa við önnur lög og annan og minni rétt en þeir, sem í flestu tilliti mega sín betur, bæði í launum, vinnuskilyrðum og öðrum hliðstæðum efnum.

Það var, held ég, augljóst öllum, sem um kjaramál og samningamál á vinnumarkaðinum hugsa, að um leið og 40 stunda vinnuvikan varð raunveruleiki fyrir þann mikla fjölda, sem fékk hana í des. á s.l. ári, þá var um leið teiknuð á vegginn sú ófrávíkjanlega krafa fyrir verkalýðshreyfinguna alla, að jafnræði yrði komið á í þessum efnum og 40 stunda vinnuviku með einhverjum hætti komið fram í næstu kjarasamningum. Það er þess vegna alger misskilningur, sem örlaði á við 1. umr. málsins, að hér sé um eitthvert mál að ræða, sem eigi upptök sín í stjórnarsáttmálanum frá s.l. í Ég tel alveg tvímælalaust, að sú aðstoð, sem núv. ríkisstj. hefur veitt í þessu efni, að fá þessa kröfu fram, hafi haft verulega þýðingu. Hitt er auðvitað alger misskilningur, að upptökin séu þar. Upptökin er að rekja fyrst og fremst til þess, að ríkisvaldið hjálpaði og studdi að því, að verulegur hluti af vinnuafli þjóðarinnar fengi þennan vinnudag, og þá var auðvitað orðið auðsætt mál, að vinnutími annarra stétta yrði einnig að breytast í samræmi við það.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast örfáum orðum á þær helztu mótbárur, sem hafa komið fram gegn þeirri lagasetningu, sem hér er fyrirhuguð. Það er þá í fyrsta lagi það, að með flutningi þessa frv. og hugsanlegri lagasetningu sé ráðizt á frjálsan samningsrétt um kaup og kjör. Það er líka sagt í þessu sambandi, að ríkisstjórnarflokkarnir og ríkisstj. hafi tekið fram fyrir hendur verkalýðshreyfingarinnar og farið að skipa henni fyrir um það, með hverjum hætti hún raðaði sínum kjarabótamálum, það væri jafnvel gert af pólitískum leikaraskap. Ég held, að þetta sé alger misskilningur, eins og ég sagði, að það hafi verið augljóst, að þessari kröfu mundi verða fram haldið og fram hrundið, eftir að opinberir starfsmenn og fleiri voru búnir að gera hana að raunveruleika. Og hitt er líka vert að minna á í þessu sambandi, sem ég gerði reyndar við 1. umr. málsins, að a.m.k. við í verkalýðshreyfingunni og ég held flestir aðrir hljóti að gera verulegan mun á því, hvort um bein kaupgjaldsatriði er að ræða eða hvort um er að ræða félagsleg atriði og menningarleg atriði. Og vissulega er þetta mál ekki sízt af þeim toga spunnið, eins og ég held, að flestir muni viðurkenna, a.m.k. að einhverju leyti.

Það hefur líka komið fram, að með þeirri löggjöf, sem hér er fyrirhuguð, séum við komnir langt niður fyrir önnur okkar grannlönd, hvað dagvinnutíma snertir, og með því sé boðið heim misrétti fyrir atvinnurekendur, sem að meira eða minna leyti verði að standa í samkeppni um framleiðslu sína á alþjóðlegum mörkuðum, hér sé sem sagt verið að bjóða heim misrétti í samkeppnisaðstöðunni. Ég held, að það sé augljóst, að tölur um sjálfan vinnutímann segja ekki hér alla sögu, því að þegar samkeppnisaðstaðan er metin, þá kemur náttúrlega til fyrst og fremst, hvað greiða þarf fyrir vinnuaflið í ákveðinn tíma. Enn stöndum við ekki nálægt því í sömu sporum í þeim efnum og Norðurlandaþjóðirnar, sem yfirleitt búa við miklu hærra, jafnvel helmingi hærra kaupgjald en hér er, þannig að þegar samanburður á slíkri samkeppnisaðstöðu er gerður, þá verður hvort tveggja að koma til. Í þessu sambandi skiptir það vítanlega ekki máli, þó að dýrtið sé meiri í ýmsum þeim löndum, sem hér er samanburður gerður á, vegna þess að framleiðslukostnaðurinn fyrir atvinnurekendur mælist ekki í því, hvað fólk fær fyrir kaup sitt, heldur vitanlega í því, sem atvinnureksturinn þarf að borga. Og það liggur á borðinu ljósar en flest annað, að atvinnurekendur t.d. á öðrum Norðurlöndum verða að gjalda stórkostlega miklu hærra kaupgjald, hvort sem er fyrir dagvinnu, viku, mánuð eða ár.

Hér er líka þess að geta, að allur munur verður ekki á hér um virkan vinnutíma. Ég nefni t.d. Finnland, en þar hefur verið lögboðin 40 stunda vinnuvika allt frá 1965, en Finnar hafa einnig kaffihlé eins og við, að vísu ekki alveg eins löng, venjulega 12 mínútur tvisvar sinnum á dag, þannig að þeirra vinnutími verður á venjulegri viku kringum 38 stundir á móti rúmlega 37 hér, svo að það munar ekki nema innan við klukkutíma á viku. Um þetta mál, þetta mikla kaffitímamál, sem hlásið er upp, er líka þess að geta, að á öðrum Norðurlöndum, þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að fastir kaffitímar séu teknir, er sá vinnuháttur ákaflega víða, að menn hafa bita og sopa með sér í vinnuna og neyta þess, þegar tækifæri gefast, þannig að þar er um meiri eða minni hlé að ræða á vinnunni af þeim sökum. Beinharðar tölur í þessum efnum segja ekki alla sögu.

Séu þessi mál borin saman hjá okkur og á Norðurlöndunum, verður líka að gæta þess, að á öðrum Norðurlöndum eru í gildi mjög ströng vinnuverndarlög, sem þrengja mjög að því, að yfirvinnu megi vinna, og leggja ýmsar aðrar og jafnvel fjölmargar skyldur og margvíslegan kostnað á atvinnureksturinn þar umfram það, sem hér er. Þannig er t.d. í Noregi bannað að vinna eftirvinnu nema með sérstökum leyfum og í sérstökum undantekningartilfellum, og undir engum kringumstæðum geta slík leyfi verið veitt í ríkara mæli en svo, að samanlagðar yfirvinnustundir á ári verði 250 hjá einum manni. En hér á landi eru yfirvinnu- og næturvinnustundir oft og tíðum hjá hverjum manni mörgum sinnum þessi tala, sem er þó aðeins fræðilega hugsanleg samkv. vinnuverndarlöggjöf þeirra.

Það er líka sagt í sambandi við vinnutímann, og það er kannske ein helzta röksemdin, sem haldið er uppi á móti löggjöfinni, að hún leggi of mikinn kostnaðarauka á atvinnureksturinn. Í þessu sambandi endurtek ég það, sem ég sagði, og minni á, að lögin rúma mismunandi virkan vinnutíma, þannig að það er mjög teygjanlegt, hve mikinn kostnaðarauka þarf að leggja á atvinnureksturinn af þeim sökum og raunverulegt samningsatriði, sem kemur til greina við samningaborðið hverju sinni. Hitt er svo auðvitað ljóst bæði okkur í verkalýðshreyfingunni og öðrum, að við tökum ekki sama hlutinn nema einu sinni, og sá kostnaðarauki, sem leiðir af vinnutímastyttingunni, verður vítanlega ekki tekinn í kauphækkunum með öðrum hætti og samtímis. Þetta hafa menn gert sér ljóst frá upphafi og tekið tillit til þess, bæði við kröfugerðina í þeim samningum, sem nú standa yfir, og við sjálf samningaborðin. En í hugum manna í verkalýðshreyfingunni hefur það hins vegar aldrei verið vafamál, að það bæri að vinna til að láta sér nægja minni kaupgjaldshækkanir heldur en hægt hefði verið að ná fram, ef vinnutímastytting hefði engin verið.

Þeirri röksemd, sem líka hefur örlað á, að þessi löggjöf stytti ekkert raunverulegan vinnutíma eða dragi úr vinnuþrælkun, eins og það er orðað, vísa ég algerlega á bug. Ég held, að það sé alveg augljóst mál, að af þessari löggjöf muni a.m.k. smátt og smátt leiða verulega styttingu á vinnutímanum sjálfum, og það er vitanlega aðalatriði málsins. Þeim, sem bera svo meir fyrir brjósti, að kaup láglaunafólksins hækki, en að vinnutíminn styttist, má svo benda á það, að fari svo sem þeir spá, að þetta leiði ekki til mjög mikillar styttingar á vinnutímanum, þá leiðir það a.m.k. til þess, að fleiri stundir eru keyptar með því verði, sem er á eftirvinnu og næturvinnu, og þýðir þá vitanlega auknar tekjur fyrir þétta sama fólk.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv., sérstaklega vegna þess, eins og ég sagði, að fullkomin eining hefur orðið í heilbr.- og félmn. um það, en ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði reyndar hér við 1. umr. málsins, að ég teldi, að þetta frv. og sú löggjöf, sem væntanlega fylgir í kjölfar þess, markaði tímamót í tvennum skilningi: Í fyrsta lagi væri hér um breytt viðhorf löggjafarvaldsins til réttlætis- og baráttumála verkalýðshreyfingarinnar að ræða, þar sem tekið væri á með verkalýðnum í baráttunni fyrir jafnræði við aðrar stéttir þjóðfélagsins, og í öðru lagi, að hér væri um stórt spor að ræða í þá átt að ná fram mannsæmandi vinnudegi, sem gæti tryggt menningarlegra og félagslegra líf íslenzkra vinnustétta. Ég hafði þá naumast hugboð um, þegar ég sagði þetta, eða gat ekki vænzt þess, að það yrði full samstaða um þetta mál hér á hv. Alþ., eins og nú má vænta, eftir að heilbr: og félmn. hefur reynzt einhuga í málinu. Það er þess vegna kannske ástæða til að taka enn þá dýpra í árinni en ég gerði þá. Ég veit, að að því leyti er hér um breytt viðhorf löggjafarvaldsins að ræða í þessum málum. Ég tel, að samstaða um þetta mál nú, svo viðkvæmt sem það er að ýmsu leyti, sé góður vitnisburður um skilning og góðan vilja löggjafarvaldsins hvað viðkemur því stóra málefni, sem hér er um að ræða. Ég hygg, að allir, sem hlut hafa átt að því að skapa þessa samstöðu, sem ég vonast eftir að nú verði um málið hér á hv. Alþ., muni hafa sóma af, svo og Alþ. í heild sinni. Fyrir okkur, sem erum virkir í verkalýðssamtökunum, er þessi samstaða sérstaklega ánægjuleg og að mínu viti merkilegt tímanna tákn og verður örugglega metin að verðleikum bæði nú og síðar.