02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Auður Auðuns:

Herra forseti. Hv. deildarforseti hefur nú fylgt nál. úr hlaði og hefur þar verið frsm. n., en að öðru leyti hefur hann flutt mál sítt sem þm. stjórnarliðsins og forsvarsmaður annars aðila í þeim samningaviðræðum, sem nú standa yfir. Það er nú kannske að fara aftan að siðunum að fara í deilur við frsm. fyrir nál., sem maður sjálfur stendur að, og ég skal að mestu leyti leiða hjá mér að víkja að ræðu hans. Hann vitnaði til þess, að opinberir starfsmenn hefðu fengið 40 stunda vinnuviku viðurkennda. Um þetta urðu töluverðar umr. við 1. umr. málsins, og ég skal ekki að því víkja með öðru en því að segja, að um það var samið. Þær umr., sem hér urðu við 1. umr. málsins, viku margar hverjar að því sama og þeim atriðum, sem hv. deildarforseti vék áðan að, og skal ég þess vegna ekki tefja umr. með því að fjölyrða um þau atriði.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 136, legg ég ásamt öðrum nm. til, að þetta frv. verði samþ. En þegar ég undirrita nál. með fyrirvara, þá felst í því nánar tiltekið það að ég vil skýra viðhorf mitt til málsins að öðru leyti.

Ég vil í upphafi taka það fram, að ég tel, að það hafi verið misráðið af ríkisstj. að setja það í stjórnarsáttmálann, að hún mundi beita sér fyrir lögbindingu 40 stunda vinnuviku, dagvinnuviku. Með því er verið að taka fram fyrir hendur samningsaðila um kjaramál um atriði, sem ávallt hefur verið samningsatriði milli aðilanna. Það er staðreynd, að þegar eru í samningum ýmissa stéttarfélaga komin inn ákvæði um styttingu vinnuvíkunnar, sem koma á í áföngum. Og það er fyllsta ástæða til að ætla og reyndar enginn vafi á því, að í þeim samningum, sem nú standa yfir, hefði það atriði orðið mjög ofarlega á baugi. Og get ég þar vitnað til þess, sem hv. deildarforseti sagði áðan, að verkalýðshreyfingin væri einhuga um þá kröfu.

Ég veit satt að segja ekki, hvort öllum þeim, sem um stjórnarsáttmálann fjölluðu, hefur verið það fyllilega ljóst, að raunverulegur dagvinnutími hér er þegar styttri en á hinum Norðurlöndunum. En ég held, að það sé engum vafa bundið, að fyrirætlanir ríkisstj. um lögbindingu dagvinnutímans hafa átt sinn þátt í því, að samningaviðræður hafa dregizt svo mjög á langinn sem orðið er. Þessu frv. var útbýtt hér á Alþ. á mánudaginn í síðustu viku, og þá höfðu samningaviðræður staðið í nær tvo mánuði, en þangað til frv. var fram komið, ríkti að sjálfsögðu í ýmsum atriðum óvissa um það, hvað í frv. mundi enda með að felast, þegar það kæmi fram, nema hvað talað hafði verið í stjórnarsáttmálanum um 40 stunda vinnuviku. Í því sambandi skal það rifjað upp, að á næstsiðasta þingi flutti þáv. forseti Alþýðusambandsins, núv. hæstv. félmrh., ásamt öðrum þm. frv. um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti o.fl. Þetta frv. er á þskj. 191 frá þinginu í hittiðfyrra. Í 8. gr. þess frv. segir:

„Almennur dagvinnutími starfsmanna má ekki vera lengri en 8 stundir á sólarhring, og er vinnuviku lokið eftir 40 unnar vinnustundir.“

Unnar vinnustundir, hvað um þá margumtöluðu kaffitíma, þeir geta tæpast verið taldir unnar vinnustundir? Það hefði því mátt spyrja, hvort í stjórnarsáttmálanum, sem hæstv. flm. þessa frv. stóð að, hafi verið átt við unnar vinnustundir eða hvort ríkisstj. ætlaði þá einnig að hlutast til um kaffitímana. Það má svo sem svara því til, að það hafi verið fráleitt, að láta sér detta slíkt í hug. En það hefði þó mátt spyrja, hvað við hefði verið átt.

Þetta frv. var til umr. hér í hv. þd. á miðvikudag í síðustu viku. Á fimmtudagsmorgun, daginn eftir sem sé, var boðað til fundar í heilbr.- og félmn., sem hefur haft frv. til meðferðar. Það mun hafa verið ætlun ríkisstj. að drífa frv. áfram með sem mestum hraða gegnum þingið, en það fékkst þó frestur til nánari athugunar á því. Á föstudag mættu á fundi hjá n. fulltrúar frá samningsaðilum, þ.e.a.s. annars vegar frá ASÍ og hins vegar frá Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, og n. voru látnir í té nokkrir útreikningar, sem gerðir höfðu verið á vegum Efnahagsstofnunarinnar, og Jón Sigurðsson hagsýslustjóri mætti einnig á fundinum og útskýrði þá. Einnig lágu fyrir nokkrir útreikningar frá Vinnuveitendasambandinu. Ég sé ekki nokkra ástæðu til að draga hér fram tölur. Þetta eru atriði, sem einnig hafa verið mjög umdeild í n. Þótt það sé ekki út af fyrir sig vefengt, að reikningslega væri rétt með farið, var hins vegar vefengt, að forsendur fyrir ýmsum útreikningum hafi verið réttar. Það var beðið af hálfu okkar þm. Sjálfstfl. í n. um frest, þar til okkur hefði gefizt möguleiki á að ræða málið í þingflokki okkar eftir nefndarfund um upplýsingar, sem þar hefðu komið fram. Var svo seinasti nefndarfundurinn haldinn á þriðjudag og tekin afstaða til málsins, eins og fram kemur í nál.

Úr því sem komið er, er það alveg ljóst, um hvað er að ræða. Héðan af er það áreiðanlega engum til góðs að efna til ágreinings um þetta frv. né að tefja á nokkurn hátt afgreiðslu þess. Ég mun því, eins og fram kemur í nál., greiða frv. atkvæði, en ég endurtek það, að ég tel það hafa verið misráðið af hæstv. ríkisstj. að taka fram fyrir hendur samningsaðila með þessum ákvörðunum sínum í stjórnarsáttmálanum, og eftir að það hafði verið gert, hafi verið óheppilega að málinu staðið af hennar hálfu.