24.11.1971
Neðri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. um veitingu ríkisborgararéttar er nú eitt af þessum árvissu lagafrv. Slík frv. eru lögð fyrir hvert þing. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í hefðbundnu formi og gert úr garði með sama hætti og önnur slík frv. áður fyrr. Upp í þetta frv. eru teknir þeir, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem sett hafa verið af allshn. Alþ. Það liggur auðvitað í augum uppi, að slík skilyrði eru ekki bindandi fyrir löggjafann, en ég tel eðlilegt, að um þetta sé fylgt föstum reglum. Í þessu frv. er einnig fylgt þeim háttum, sem á hafa verið hafðir um nafnbreytingu. Ég tel eðlilegt, að rn. fylgi í því efni þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið af Alþ., og ef á að gera þar breytingu á, komi slíkt frá Alþ.

Á þeim tíma, sem þetta frv. verður til meðferðar hjá Alþ., geta að sjálfsögðu borizt umsóknir frá mönnum, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem farið hefur verið eftir við veitingu ríkisborgararéttar. Þá mun fylgt sama hætti og áður, að slíkar umsóknir verða lagðar fyrir þær n., sem um málið fjalla, og verður þá væntanlega hægt að taka þær til greina og fella þær inn í frv. á sínum tíma.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. en legg til, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.