02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það getur verið nauðsyn á, að Alþ. gripi inn í mál lík og þetta, þó að ég lýsi því strax í upphafi máls míns sem minni skoðun, að slíkt eigi ekki að gerast nema í ýtrustu neyð. Aðilar vinnumarkaðarins eiga helzt og helzt eingöngu að leysa þessi mál með samningum. Ég tel það fráleitt, að ríkisstj. setji það í stefnuskrá sína að gripa inn i, eins og núv. hæstv. ríkisstj. gerði með málefnasamningi sínum, sbr. 1. tölul. í kafla um kjaramál.

Ég ætla ekki að ræða frekar þann málefnasamning, þó að vissulega sé þar margt, sem mér sýnist, að fram sé sett án þess, að þess sé getið, að um raunverulegar athuganir hafi fyrst verið að ræða, og því margt sett fram sem óskir, af því að hv. núv. stjórnarliðar voru lengi búnir að vera í stjórnarandstöðu, og það virðist mega álykta, að þeir hefðu ekki þá gert sér grein fyrir hlutverkaskiptunum. Það er annað óskhyggja en veruleiki.

Ég minnist þess, að skömmu eftir að Olof Palme tók við stöðu forsrh. í Svíþjóð, fylgdist ég með viðtali, sem sjónvarpsfréttamenn áttu við hann fyrir norska sjónvarpið. Það var auðheyrt og auðséð, að þeir komu vel undirbúnir og ætluðu að þjarma að forsrh., komu með margar tilvitnanir í ummæli hans frá fyrri árum, þegar hann var ungur maður. Ég vil meina, að það á að vera ungra manna háttur að setja fram stórhuga hugmyndir um eitt og annað, m.a. í efnahagsmálum. Hann var spurður um það, hvort hann tryði því, að honum tækist að koma þessu og hinu fram. Palme viðurkenndi, að þeir færu með rétt mál. Hann hefði átt og ætti sér hugsjónir. En hann benti á, að í mörgum tilvikum væri það ekki á hans valdi eða hans þjóðar að ráða því, hver þróunin yrði, staðreyndum yrði ekki breytt, þótt menn gjarnan vildu það.

Íslenzkum efnahagsmálum er líkt farið. Þar eru vissar staðreyndir, sem við höfum ekki ráðið við og munum ekki gera, og við afgreiðslu fjárlaga munu þær staðreyndir nú blasa við hv. stjórnarliðum, að hver króna verður ekki notuð nema einu sinni. Við skiptum ekki meiru en við öflum. Undanfarin ár finnst mér á stundum nokkuð hafa á vantað, að núv. hæstv. stjórnarliðar vildu viðurkenna þetta. Því verður ekki á móti mælt, að þeir voru með óraunhæfar till., ráku harðan áróður fyrir því, að gerðar yrðu háar kaupkröfur: Má vera, að svo og svo margir hafi trúað á þessar till., og nú liggur mér við að segja, að hinn yfirborðskenndi málefnasamningur — eða óskalista vil ég frekar nefna hann — beri þess nokkurn vott, að þeir hafi sjálfir verið blindaðir af eigin fullyrðingum. En víst er, að þar er að finna viðurkenningu og trú á því, að þeir hafi tekið við blómlegu búi. Ég benti á, hve yfirborðslegur áróður þeirra er. Sem dæmi má nefna tal þeirra um, að nú sé við völd stjórn hinna vinnandi stétta. Í þingræðislandi er ávallt stjórn hinna vinnandi stétta.

Í Þjóðviljanum 30. nóv. er forsíðuleiðari, og vil ég aðeins, með leyfi forseta, vitna í hann. Þar segir: „Breytt viðhorf eftir 13. júní! Viðhorfin gerbreyttust frá og með kosningum í sumar. ríkisstj. vinnandi fólks var mynduð, og hún hét þegar, að hún mundi beita sér fyrir margvislegum kjarabótum til handa verkafólki. Meðal þess, sem heitið var í málefnasamningnum, var, að sett skyldu lög um 40 stunda vinnuviku, að orlof skyldi verða 24 dagar. Þá var því heitið, að kaupmátt láglaunafólks skyldi auka um 20%.“

Ég get þess sem dæmi um, að núv. stjórnarliðum er ekki fullljóst, að þeir eru í annarri stöðu nú en þeir voru fyrir kosningar, að tvö aðalmálgögn ríkisstj. hafa gerzt sek um að halda áfram að efna til úlfúðar og tortryggni milli aðila vinnumarkaðarins. Auðvitað ber stjórnmálamönnum og málgögnum þeim, sem þá styðja, ávallt að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að bera sáttarorð á milli aðila vinnumarkaðarins. En það kastar þó fyrst tólfunum, þegar málgögn stjórnarinnar gera sig sek í þessu efni. Það sannar það, sem ég hef hér áður sagt, að menn geta verið fastir í eigin neti, þegar það m.a. hendir jafngáfaðan og reyndan stjórnmálamann og hv. 4. þm. Reykv. og formann þingflokks forsrh., ritstjóra Tímans, Þórarin Þórarinsson, að skrifa þannig í forustugrein í blaði sínu, að 18 manna samninganefnd ASÍ sér sig tilneydda að bera fram mótmæli. Eða þetta í áður umræddri forustugrein í Þjóðviljanum frá 30. nóv., með leyfi forseta:

„Og munurinn á atvinnurekendum og verkafólki er, að fyrirtæki skilar því aðeins arði og er því aðeins starfrækt, að verkafólk komi til vinnu, en það má einu gilda fyrir starfsemi fyrirtækis, hvar atvinnurekandinn er niður kominn.“

Eru þetta vinnubrögð, sem líkleg eru til þess að leiða til sátta á örlagaríkustu stundunum, þegar allir aðilar eru að leitast við að ná samkomulagi? Það getur verið, að það sé mat hins unga Þjóðviljaritstjóra, að það skipti meginmáli, að hann og hans lið mæti til vinnu, en skipti hann engu, hvar atvinnurekandi hans er niður kominn.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, koma með enn eina tilvitnun í sama leiðara. Hún gefur vísbendingu um, hvað fyrir þeim Alþb.-mönnum vakir:

„Vilji ríkisstj. vera húsbóndi í þjóðfélaginu, verður hún að láta atvinnurekendur skilja, hver á að hafa valdið á Íslandi.“

Skoðanabræður þeirra Alþb.- manna eru ekki að hika við það að láta þjóðir sínar vita, þar sem þeir ráða, að stjórnin er húsbóndi á sínu heimili í orðsins fyllstu merkingu. Þessi ungi ritstjóri á sér máske þær afsakanir, að hann trúir á, að svona eigi að stjórna. Þetta er ungur, áhugasamur maður, sem sjálfsagt getur alið í brjósti sér þær vonir að komast áfram með það m.a. í huga, að nú sitji í ráðherrastólum tveir fyrrv. ritstjórar blaðs hans. Þessi ungi maður reynir eflaust að feta í fótspor meistara síns, hæstv. núv. iðnrh., í því að vera stórorður og sem öfgafyllstur. Setti einmitt sá ritstjóri ekki fram kenninguna um Alþingi götunnar?

Þá vil ég, herra forseti, víkja hér að því frv., sem til umr. er. Og þá er það 1. gr. Það hlýtur að hafa verið erfitt og valdið ráðh. stjórnar hinna vinnandi stétta miklu hugarangri að þurfa að taka upp í grg. þá stafl., sem þar eru upp taldir, t.d. hæstv. félmrh. og forseta Alþýðusambands Íslands um áraraðir, varðandi 1. liðinn, a-liðinn: sjómenn á fiskiskipum, — eða hæstv. sjútvrh., sem vill þó auðheyrilega láta líta á sig sem öruggan bakhjarl og bjargvætt fiskimannanna. Síðan frv. hefur verið lagt fram, hefur núv. forseti ASÍ fundið, að við svo búið má ekki standa, og hefur hann flutt till. til þál. um það mál.

Eða annar stafliðurinn. Mér er hugsað til hæstv. landbrh., sem alinn er upp í sveit og þekkir af eigin raun langan vinnudag sveitafólksins. Það má nærri geta, hvort þetta hefur ekki valdið honum þungum áhyggjum, að ég tali nú ekki um hæstv. menntmrh., þar sem það er vitað, að meginhluti aðkeypts vinnukrafts í sveitum landsins varðandi sumarvinnuna er skólafólkið, sem ég þykist vita, að hæstv. ráðh. ber hvað mest fyrir brjósti.

Í aths. við frv. er getið þeirra laga um vinnutíma, sem sett hafa verið. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því, sem þar segir, með leyfi hæstv. forseta, og ég vík hér að niðurlagi aths. um lagafrv. Þar er áður búið að telja upp varðandi vinnutíma og lágmarkshvíldartíma fyrir togarasjómenn og verkamenn. Síðan er minnzt á lög nr. 29 9. apríl 1947, um vernd barna og ungmenna, sem varða vinnutíma barna og ungmenna. Það hefur af einhverjum ástæðum farið fram hjá mönnum, sem þarna áttu hlut að máli, að núgildandi lög varðandi vernd barna og ungmenna, sem varða vinnutíma þeirra, eru nr. 53 frá 13. maí 1966. Þegar þau lög voru til meðferðar hér á hv. Alþ., urðu um þau miklar umr. og það alveg sérstaklega um 41 gr. frv. Nú væri freistandi að vitna til þeirra umr. og þá alveg sérstaklega skeleggs málflutnings hv. þáv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar. En þar sem ég þykist vita, að áhyggjur hæstv. menntmrh. séu ærnar fyrir, vil ég ekki með því að rifja þetta upp auka þar frekar á,.en get þessa hér að gefnu tilefni, vegna þess að búið er að nema úr gildi, eins og ég áður sagði, lög um þessi efni frá 1947.

Eða þá c-liðurinn í 1. gr. frv. og það, sem um hann er skráð, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Táknrænt dæmi um undanþágu samkv. c-

lið er prjónakonan, sem prjónar fatnað utan fasts vinnustaðar og tekur laun sín í ákveðinni greiðslu fyrir hvert fat, sem hún vinnur. Eftirliti með vinnutíma í slíkum tilfellum verður naumast komið við af hálfu vinnuveitenda né annarra.“

Mikið hlýtur þetta að hafa tekið á hinar finu taugar hæstv. iðnrh., sem svo sannarlega vill látast vera einlægur talsmaður lítilmagnans, þegar gerð er þessi ítarlega grg. um prjónakonurnar.

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 136, þá styð ég frv. með þeirri breyt., sem þar er lögð til. Ég tel þetta sanngirnismál, þar sem stór hópur opinberra starfsmanna hefur fengið með samningum, sem þeir gerðu við fyrrv. ríkisstj., styttan vinnutíma. Þetta tókst á þeim tíma, þó að stjórnin væri ekki stjórn hinna vinnandi stétta að mati núv. stjórnarliða. Ég heyri það á samflokksmönnum mínum og öðrum í launþegastétt, að þeir lögðu á það megináherzlu að ná þessu máli fram, eftir að slíkir kjarasamningar voru gerðir við opinbera starfsmenn. Og ég treysti því, að raunsæi launþegasamtakanna sé svo mikið, að þau skilji, að samhliða styttingu á dagvinnutíma er óraunhæft að krefjast jafnmikilla kauphækkana og ef ekki hefði komið til umrædd stytting dagvinnutímans. Við Íslendingar erum svo fáir og smáir meðal þjóðanna, að við höfum þurft að afkasta hver og einn meiru en krefjast þarf af hverjum þegni hinna fjölmennu þjóða. Við þurfum að nýta hug og hönd til hins ýtrasta. Öllum ber að gera sitt til að friður ríki á vinnumarkaðinum, og þar ber að stuðla að sem gagnkvæmustu trausti þeirra aðila, sem þar er um að ræða. Við verðum að finna leiðir til þess, að svo geti orðið. Þurfum við ekki að hafa stofnun, þar sem þessir aðilar koma saman allt árið, ekki aðeins, þegar vinnudeilur eru á næsta leiti, heldur allt árið, þar sem þeir ásamt sérfræðingum, sem þeir verða að treysta, fái niðurstöðu um, hvaða kaupgjald atvinnuvegirnir raunverulega þoli hverju sinni?