02.12.1971
Efri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki tilefni fyrir mig til þess að lengja hér umr. mikið, en ég get þó ekki stillt mig um að segja hér nokkur orð um þann undarlega hátt, sem tveir af nm. í heilbr.- og félmn. hafa hér á, þ.e.a.s. halda hér ræður hvor á fætur öðrum til þess að tala á móti þeirri afstöðu, sem þeir hafa tekið í n. og þeir segjast ætla að greiða atkv. samkv. Þetta er dálítið óvenjulegt hér á þingi og ástæða til að vekja athygli á því, að það er eins og hugurinn fylgi ekki hendinni eða eitthvað í þá áttína; þó að ég voni nú, að þeir haldi ekki svona margar ræður t þessum stíl til þess að þvo af sér allan þann sóma, sem þeir kynnu að hafa af afstöðu sinni og þeir eiga skilinn.

Það er margt fleira, sem þessir hv. nm. þurftu að ræða hér, og ég ætla ekki að blanda mér inn í. Ég tel það ekki mitt verkefni að fara að deila hér við hv. 3. þm. Reykn. um það, sem stendur í Þjóðviljanum. Það er öðrum skyldara en mér hér í hv. d., og ég læt þann lestur alveg hlutlausan. En hv. þm. ræddi þetta svo lengi, að hann varð að geta þess sérstaklega, að hann ætlaði nú að víkja að efni frv., sem hér væri til umr.

Þessi sami hv. ræðumaður ýjaði mjög í þá átt, að það hlyti að hafa verið erfitt fyrir okkur, sem stöndum að þessu frv., að tína upp þær upptalningar, sem eru í 1. gr., varðandi þá, sem ekki falla undir lögin. Og engu var líkara en hann teldi, að hér væri um einhver alveg svívirðileg ákvæði að ræða, að fiskimennirnir skyldu ekki vera undir þessu, kaupafólk og vinnuhjú og launþegar, sem vinna heimavinnu. En ég vil nú aðeins spyrja hv. þm.: Hvers vegna í ósköpunum stendur á því, að hann flytur ekki brtt. um, að þetta skuli falla út úr 1. gr.? Það ætti að vera ákaflega einfalt mál, ef hann teldi það svo sjálfsagt sem af máli hans varð að ráða, að þessir hópar ættu einnig að hafa lögbundna 40 stunda vinnuviku. Ekkert er auðveldara og tæki hv. þm. varla meira en mínútu að semja um þetta skrifl. brtt., sem hann gæti lagt fram við umr., fyrst hann hefur ekki komið auga á þetta fyrr en nú, að málið er tekið á dagskrá, því að ekki var á þetta minnzt við afgreiðslu málsins í n. á þeim þremur fundum, sem haldnir voru um málið þar. Ég held, að sannast mála sé um þetta efni, að hér sé um svo sjálfráða hluti að ræða, sem mest má verða, og er þó ekki sagt, að ekki beri að huga að vinnutíma þess fólks, sem þarna ræðir um. En það verður þá að gerast með öðrum hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég veit ekki til þess, að í vinnuverndarlögum þeirra þjóða, sem við sækjum oftast fyrirmyndir til, sé í neinum hliðstæðum efnum um það að ræða, að vinnutími þess fólks, sem hér ræðir um, sé algerlega ákveðinn eða takmarkaður með lögum. A.m.k. held ég, að það sé alveg ljóst, að þau mál verður að taka öðrum tökum en gert er með þessu frv., og kæmi vissulega til greina að taka það til sérstakrar meðferðar í almennri vinnuverndarlöggjöf, sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni undirbúa og leggja fyrir Alþ., þegar nauðsynlegum undirbúningi er lokið.

Fleira held ég, að ég sjái ekki ástæðu til að taka fram í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Reykn., annað en það, að einhvern veginn læddist að mér sá grunur, að sú afstaða, sem þeir hafa tekið í heilbr.- og félmn. með þessu frv., muni ekki eiga sér alveg einhuga stuðning í flokki þeirra, þar sem hv. þm. virtist telja nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram, að launþegahópurinn í Sjálfstfl. hefði áhuga á málinu. Ég er ekkert hissa á þessu og veit það, en það virðist af því, hvernig hv. þm. hagar orðum sínum um þetta, að allir hafi ekki verið jafnsammála um þessa afstöðu, og þykja mér það í sjálfu sér ekki nein sérstök tíðindi.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði hér alllangt mál, sem var mjög í sama anda eins og hjá hv. 3. þm. Reykn. Yfirleitt taldi hann upp heldur andmæli og röksemdir gegn frv., en ekki með því, en niðurstaðan varð þrátt fyrir það sú, að það ætti að greiða atkv. með því. Ég er nú eiginlega sannast sagna undrandi á því, að hv. 6. þm. Reykv., sem sagði, að það ætti sinn þátt í erfiðleikunum í samningunum nú, að þetta frv. hefði verið lagt fram, skuli þá vilja endilega samþykkja það. Ég sé ekki, hvernig þeim málflutningi kann að verða komið heim og saman.

Atriði eins og það, hvort stjórnarflokkarnir hafi gert sér ljóst, að dagvinnutíminn væri svo stuttur eins og hann er hér á landi í samanburði við önnur Norðurlönd, þegar yfirlýsingin var gefin á s.l. sumri, það tel ég nú heldur óraunsætt, að ekki hafi flestir, sem um fjölluðu, verið nokkuð heima í því, hvernig það var, og eins að menn hafi gert sér það alveg ljóst, að vinnuhættir eru með nokkuð mismunandi sniði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum, sérstaklega í þessu tilliti varðandi kaffihléin, sem hér eru reglubundin og ákveðin, en yfirleitt annars staðar á Norðurlöndunum tekin eftir efnum og ástæðum í dagvinnutímanum og ekki sérstakur tími til þess ætlaður. Hér er að verulegu leyti um mismunandi hætti að ræða, en ekki alfarið það, að sá munur fáist út úr vinnutímanum, ef allt væri skoðað niður í kjölinn. Hitt er auðsætt, að eftir því sem dagvinnutími styttist og vinnutími yfirleitt, þá leiðir það af hlutarins eðli, að atvinnurekendur munu reyna að losa sig við sem flest af óþarfahléum, sem á vinnunni verða, og ég hygg, að hér á landi hafi atvinnurekendur mikinn akur að plægja og geti með þeim hætti verulega bætt sér upp þá vinnutímastyttingu, sem hér verður með samþykkt þessa frv. og þeim samningum, sem í kjölfar þess verða væntanlega gerðir.

Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, en bendi honum á, að það er ekki alfarið víst — og reyndar öruggt, að þessi vinnutímastytting þýðir það ekki, að Íslendingar taki núna, a.m.k. alveg á næstunni, að vinna aðeins þann virka vinnutíma sem yrði um að ræða eftír þessu frv. og að gerðum þeim samningum, sem nú standa yfir. Vafalaust verður þar unnið miklu lengur.

Þar sem hann gerði samanburð við aðrar iðnvæddar þjóðir, sem hefðu jafnvel allt að tvöfalda þjóðarframleiðslu, þá er líka vert að minna á það, að vinnutími styttist stöðugt annars staðar í heiminum og er víða kominn langt niður fyrir 40 stundir, jafnvel allt niður í 24 stundir á viku hjá iðnvæddustu þjóðum veraldarinnar í sumum greinum. Á Norðurlöndunum er 35 stunda vinnuvika nú orðið dagskrármál hjá stórum hópum og verður alveg vafalaust knúin fram á allra næstu árum, kannske næsta ári eða svo, a.m.k. hjá opinberum starfsmönnum og jafnvel miklu víðar, þannig að ég held, að ekki liði mjög langur tími, þangað til sá virki vinnutími, sem í kjölfar þessarar löggjafar fer og þeirra samninga, sem beint leiðir af henni og standa í sambandi við hana, verði lengri en víða annars staðar, og þá verði ekki mjög lengi, sem við verðum fremstir í flokki, hvað stuttan dagvinnutíma snertir hér á landi. Ég held, að Norðurlöndin muni mjög þróa sín mál í þá átt, að vinnutími styttist eins og alls staðar annars staðar meðal þróaðra og iðnvæddra þjóða.

Ég vil taka það fram líka í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Vestf., að þó að ég hafi verið að bera saman hér opinhera starfsmenn og þá sem ég kalla gjarnan erfiðismenn, þá felst ekki í því neinn metingur milli þessara stétta. Ég tel þær vera jafnnauðsynlegar fyrir okkar þjóð, fyrir atvinnulífið og þjóðina í heild, og vafalaust leggja margir, sem vinna við skrifborð, mikið að sér. Hitt bendi ég á, að yfirleitt eru ytri vinnuskilyrði, allt umhverfi, sem slíkir menn vinna í, annað og betra en fyrir erfiðismenn, sem verða að vinna oft sín störf við verstu ytri skilyrði, bæði hvað veðráttu snertir og allan aðbúnað. Ég held, að á þessu sé ekki neinn vafi og vel megi taka eitthvert tillit til þess, þegar aðstaða og vinnutími þessara stétta eru borin saman.