18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið á síðasta þingi, sem fram kom brtt. samhljóða þeirri skriflegu, sem hér liggur fyrir, og ég mælti þá á móti henni og reyndi að sýna fram á, að það væri ekki hægt að samþykkja hana, án þess að breyta þá alveg um stefnu í mannanafnamálinu. Þetta er af þeirri einföldu ástæðu, að þessi till. er tekin út úr frv., sem gerir ráð fyrir því, að Íslendingar hafi leyfi til að bera ættarnafn og taka sér ættarnafn. Hún er slitin út úr frv., sem byggir á þeirri meginreglu. Þess vegna mundi þurfa að sníða till. alveg um, ef hún á að geta staðizt miðað við það, sem nú er leyfilegt að gera varðandi íslenzk mannanöfn. (Gripið fram í.) Já, ég veit vel, hvað er með og hvað er ekki með. Þetta er augljóst, ef till. er athuguð og málið er skoðað í rólegheitum, því að börnin eiga að taka upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn. Og hvað er þá þetta kenninafn, sem þarna er átt við? Er það að kenna sig til föður, eins og lögboðið er hér? Og ef svo er, á þá ungi maðurinn að vera Víbelsson og unga stúlkan að vera Víbelsdóttir, svo að ég taki fyrsta dæmi, sem blasir við, þegar ég lít á nöfn hinna nýju ríkisborgara. Þetta getur vitanlega ekki staðizt. Ef menn vilja leysa þetta mál í þá stefnu, sem ég geri ráð fyrir, að þarna sé hugsuð, að sá, sem fær ríkisborgararétt, megi halda sínu nafni, en börn hans verði að taka upp íslenzka nafnvenju, þá verður að smíða till. á ný og gera hana þannig úr garði, að þeim, sem fær ríkisborgararéttinn, sé skylt að taka upp íslenzkt fornafn til viðbótar því, sem hann hefur fyrir, sem sonurinn eða dóttirin geti kennt sig við, svo að vel fari samkv. íslenzkri nafnavenju. Þetta held ég, að allir hljóti að verða samferða um, að svona verður þetta að vera. En ef þessi till. væri samþykkt eins og hún liggur fyrir, þá er verið að bora gat á nafnalöggjöfina, eins og hún er nú, og smeygja þar inn leyfi til þess, að þessi hópur manna hafi áfram ættarnöfn, því að það getur ekki verið meiningin, að unga fólkið kenni sig við hin útlendu fornöfn. Það stenzt ekki.

Þetta vil ég leyfa mér að benda á, og þess vegna finnst mér ekki koma til greina að hrapa að neinu í þessu. Ég legg því til að þetta mál fari til hv. allshn. til skoðunar. Náttúrlega kemur ekki til greina, að það sé hægt að breyta um stefnu í nafnamálinu án þess að það sé a. m. k. skoðað í þn. Ef menn telja nauðsynlegt að gera einhverja breytingu á lögunum til þess að leysa þannig úr þessum málum, að Ashkenazy geti haldið áfram sínu nafni, þá verður að gefa sér tóm til þess að finna skynsamlega leið og án þess að fara að smeygja þar inn stefnubreytingu í nafnamálinu. Það er hægt að gera það með ýmsu móti. Eitt af því, sem hugsanlega gæti komið til greina, er það, sem greinir í till. hv. 5. þm. Reykv., sem talaði hér áðan. Eða þá hreinlega setja sérstakt lagaákvæði um það, að þessi heimsfrægi maður fái að halda sínu nafni. Stundum hafa verið sett hliðstæð lög. Þegar við áttum því láni að fagna að eignast Nóbelsskáld, settum við sérstök lög af því tilefni um breytingar á skattalögum. Auðvitað getum við sett sérstök lög til þess að greiða fyrir því, að þessi heimsfrægi maður geti haldið sínu nafni, hvað sem líður meginstefnunni í nafnamálinu. Þannig ætti auðvitað að leysa þetta mál. — Það eru ágallar á þeirri stefnu, sem við höfum framfylgt varðandi útlendingana, og sumum finnst, að það eigi að breyta til og ekki skylda þá, sem fá ríkisborgararétt, til þess að skipta um nafn, heldur aðeins niðjana, en ég endurtek, að þá verður að ganga þannig frá því, að niðjarnir hafi nafn, sem hægt er að kenna sig til, eigið föðurnafn, sem hægt er að kenna sig til með smekklegum hætti og á íslenzku máli. Það er hægt að leysa málið þannig, ef menn gefa sér tóm til að orða till. þannig, að hún standist. Sjálfsagt er, að n. athugi málið.