18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram varðandi veitingu ríkisborgararéttar, og sömuleiðis þær brtt., sem fram eru komnar, langar mig til að segja nokkur orð. Þessi 2. gr. í frv. um veitingu ríkisborgararéttar er búin að vera, eins og fram hefur komið í umr., lengi í lögum og það hefur verið mikil andstaða við þessa gr., þó að nú gangi fleiri fram fyrir skjöldu en áður til þess að benda á það ranglæti, sem fólki er í raun og veru skylt að sætta sig við, er það öðlast ríkisborgararétt í landi okkar. Þetta mál hefur komið til umr. í allshn. í sambandi við afgreiðslu ríkisborgararéttarfrv. mörg undanfarin ár. Það hafa verið skiptar skoðanir í n., en ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að alltaf hafi verið meiri hl. í n. fyrir því að fella þetta ákvæði niður. Ég skal þó ekki segja um, hvort það er meiri hl. í n. nú, en það skiptir ekki höfuðmáli.

Þegar þeir, sem hafa viljað breyta þessu ákvæði, og þar er ég meðtalinn, þegar við höfum hreyft því hér í þessari hv. d. á undanförnum árum, þá var lengi vel viðkvæðið það, að nauðsynlegt væri að endurskoða mannanafnalöggjöfina. Það tók nokkurn tíma að hrinda þeirri endurskoðun í framkvæmd, en þegar það hafði gerzt og fyrrv. menntmrh. hafði skipað nefnd til þess að endurskoða mannanafnalögin, þá varð alltaf að bíða með þetta atriði að dómi margra þm. eftir þessari endurskoðun. Þessari endurskoðun lauk á s. l. ári, og þetta frv. var lagt fyrir síðasta Alþ., en við, sem höfum viljað breyta þessu, vorum orðnir leiðir á að bíða eftir þessari endurskoðun og þess vegna fluttum við á síðasta þingi till., sem fól í sér að leggja þetta ákvæði niður. En þá var eins og nú komið að þinglokum, og þá stóðu upp þeir, sem ekki hafa mátt hugsa sér að gera hér breytingu á, og beittu því, sem kallað er málþóf. Og við, sem vildum ekki, að frv. um ríkisborgararétt dagaði uppi og það fólk, sem hafði sótt um ríkisborgararétt og uppfyllti gildandi skilyrði, fengi ekki sín réttindi, við hreinlega lögðum niður rófuna, ef svo má segja, fyrir málþófsmönnum, sem þá óðu hér uppi, í trausti þess, að þetta mál yrði nú loks afgreitt á þessu þingi.

Það má segja, að ekki sé hægt að saka núv. menntmrh. um það, að hann hafi ekki viljað, að þetta mál næði afgreiðslu, því að hann lagði í þingbyrjun fram frv. um mannanöfn og það kom til umr. í Ed. Alþ. 27. okt. 1971. En loksins 24. apríl 1972 vaknar menntmn. Ed. til meðvitundar um það, að þetta frv. muni hafa legið fyrir n. frá 27. okt. til 24. apríl, og menntmn. Ed. nær samstöðu um það, eða sex af sjö nm., sá sjöundi var fjarstaddur, að leggja til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. Það var nú allur dugnaður hv. menntmn. Ed. eftir allan veturinn. Og rökstuðningurinn fyrir því að vísa mannanafnafrv. til ríkisstj. var sá, að n. telur æskilegt, að fram fari rannsókn á því, áður en nýjar reglur eru lögfestar um mannanöfn, hvort eftirsókn í ættarnöfn og notkun þeirra hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðari árum. Það er höfuðatriðið í sambandi við afgreiðslu þessa frv. að láta fara fram rannsókn á því, hvort eftirspurn eftir ættarnöfnum hafi farið vaxandi eða minnkandi á undanförnum árum. Og svo að lokinni þessari rannsókn telur n. eðlilegt, að frv. verði endurskoðað með það fyrir augum, að ættarnöfn, sem nú eru í þjóðskránni, verði lögleyfð, en ekki verði leyfilegt að taka upp ný ættarnöfn, og að karlar og konur hafi sömu réttindi að öllu leyti hvað ákvæði um mannanöfn snertir. Þetta er allur rökstuðningur hv. menntmn. Ed. Alþ. Ég hefði nú haldið, að það hefði unnizt, ef menn vildu, að afgreiða þetta frv. og gera á því breytingar, n. hafi haft nægan tíma til þess.

Út af því, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, þá vil ég benda á það, að í 17. gr. þessa frv. kemur það alveg skýrt fram, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fær maður, er heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang með lögum, og skulu þá börn hans 17 ára og yngri (sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952), taka upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn, sem samþ. er af dómsmrn.“ — Það þarf samþykki dómsmrn. — „Slík nafnbreyting skal ákveðin samtímis því, að rn. gefur út bréf um, að hlutaðeigendur öðlist íslenzkt ríkisfang. Barni, sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og það skal fá íslenzkt kenninafn.“

Ég held, að þessi gr. sé alveg ótvíræð og komi í veg fyrir það, sem þessi hv. þm. taldi vera vafamál og eiginlega þyrfti frekari athugunar við.

Í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. sagði og hv. 5. þm. Reykv. hefur í raun og veru gert að umtalsefni og það mjög á sömu lund og ég ætlaði mér að gera. vil ég segja þetta. Það segir í 2. gr. frv. um veitingu ríkisborgararéttar, að menn, sem heita erlendum nöfnum, skuli ekki öðlast ríkisborgararétt með lögum þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn. Ég held, að þetta ákvæði sé svo skýrt og afdráttarlaust, að jafnvel ekki forsætisráðherra landsins geti farið í kringum það. Þess vegna kom mér mjög á óvart sú yfirlýsing, sem hann gaf hér áðan. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel það alveg tvímælalaust móðgun við Alþ., að gefin sé slík yfirlýsing af ráðh„ og er sama hvaða ráðh, það er og ekki sízt, ef það er forsrh., sem er nú lagaprófessor.

Ég vil nú segja eins og er: Það hefur orðið töluverð vakning, og það hjá mönnum, sem hafa lítið látið sig skipta breytingar á þessu á undanförnum árum. vegna þess að það kemur fram nú í frv. um ríkisborgararétt umsókn heimsfrægs manns. Þá er sagt, að ekki nái nokkurri átt, að það ákvæði eigi að gilda um hann, að hann þurfi að skipta um nafn. En ég spyr: Hvað er með alla hina? Eru ekki nöfn manna þeim jafnkær, hvort sem þeir eru heimsfrægir eða ekki? Hvað er um umkomulítið fólk, sem hingað hefur flutt til landsins á liðnum árum og hefur orðið að sæta þeim afarkostum af löggjafanum að verða að skipta um nafn til þess að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt? Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil ekkert vera að draga fólk í dilka eftir því, hvort það er heimsfrægt eða ekki. Ég tel það jafnfráleitt að setja slík ákvæði og hafa þau í gildi árum og áratugum saman og það eigi ekki að þurfa að koma heimsfrægur maður til þess að opna augu íslenzkra alþm. fyrir jafnsjálfsagðri breytingu og hér á að eiga sér stað. Þess eru mörg dæmi, að þeir, sem sótt hafa um ríkisborgararétt, hafa fallið frá því, af því að þeir vildu ekki láta af sínu nafni. Ég hygg, að þannig mundi fara fyrir flestum þm., að þeir vildu ekki láta af sínu nafni, sem þeir hefðu borið frá því, að þeir hlutu skírn. Sumir, sem hafa sótt um ríkisborgararétt, hafa gert grín að þessu ákvæði í íslenzkri löggjöf. Einn kunnur listamaður, Baltasar, óskaði eftir því að fá að bera nafnið Egill Skallagrímsson og honum var synjað um það. Ég hefði þó haldið, að Egill Skallagrímsson væri rammíslenzkt nafn. En auðvitað sá dómsmrn., að þessi listamaður, umsækjandi um ríkisborgararétt, var að gera grín að löggjafanum. Hann fékk ekki að bera nafnið Egill Skallagrímsson. Aðrir, sem hafa verið hér áratugum saman og eru orðnir góðir Íslendingar, alveg eins og við erum, kannske ekkert síðri eða fremri, hafa ekki viljað sækja um ríkisborgararétt, af því að þeir hafa ekki viljað sæta þessum afarkostum að leggja niður nafn sitt.

Ég fyrir mitt leyti tel, því að eins og fyrri daginn er þetta mál á síðustu tímum þingsins, mjög eðlilegt að gefa hér a. m. k. undanþáguákvæði, eins og till. hv. 5. þm. Reykv. hér með sér, og ég held, að það sé nauðsynlegt þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hann eða hver sá maður, sem fer með embætti dómsmrh., þurfi að fá heimild í lögum til þess að verða við þeim óskum. sem hafa verið gerðar að umræðuefni hér fyrr í dag.