18.05.1972
Neðri deild: 87. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið tveimur þskj. frá allshn. Ég vil fyrst gera grein fyrir brtt. n. á þskj. 941. Þegar n. kom til fundar í dag, lá þar fyrir umsókn eins manns um ríkisborgararétt. Þessi umsókn er seint fram komin af ástæðum, sem voru bæði honum sjálfum og n. óviðráðanlegar, en n. mælist þó eindregið til, að hv. þm. taki umsókn hans til greina. Hér er um færeyskan mann að ræða, sem búsettur hefur verið hér á landi síðan 1965 og fullnægir öllum skilyrðum. N. mælir einróma með því, að brtt. þessa efnis verði samþykkt.

N. var falið það mikilvæga verkefni að reyna að meta brtt., sem fram hefðu komið við 2. gr. frv. Eins og hv. þm. vita, var lítill fyrirvari á þessum fundi og því erfitt verk að vinna. Það má þó segja, að það hafi bjargað nokkru, að þetta mál hefur oft verið til umræðu, eins og hér hefur verið bent á. Hvorki um brtt. frá hv. 5. þm. Reykv., Gunnari Thoroddsen, né um brtt. frá hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, o. fl. varð samstaða, og ég hygg, að það sé til lítils að rekja hér þann skoðanamun, sem þar varð. Í stórum dráttum má segja, að þær raddir komu fram, að brtt. hv. 5. þm. Reykv. opnaði leið til mismununar, að í þessu efni ætti hið sama að ganga yfir alla, en ekki veita sérréttindi. Um brtt. fimmmenninganna er það helzt að segja, að þar eru slitin tengsl milli barns og foreldris, sem þykja mikilvæg. Ég gæti komið með eitt dæmi til skýringar því, hvað ég á við. Hugsum okkur telpukorn, sem væri Pálsdóttir, en hún gæti samt ekki bent á neinn Pál sem föður sinn, heldur héti hann allt annað, t. d. Vincent eða Silvan. Ég hygg, að það gæti orðið nokkur þolraun fyrir þetta barn að útskýra samhengið.

N. varð sammála um að leggja fram till. Þó vil ég geta þess, að hv. 9. landsk. þm. veitir till. brautargengi með fyrirvara. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Gísla Guðmundssonar hér áðan, þá er þetta málamiðlunartillaga í þeirri von, að unnt reynist að ná samstöðu. Um það bil 30 manns bíða eftir því, að Alþ. samþykki íslenzkan ríkisborgararétt þeim til handa, og það væri leitt, ef frv. dagaði uppi. Brtt., sem allshn. leggur til, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang með lögum, og skal hann þá taka sér íslenzkt fornafn. Börn hans skulu taka sér íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn.“

Ég hygg, að þarna sé farinn millivegur og reynt að halda hvoru tveggja í heiðri, aðlögun að íslenzku málkerfi og nafnvenjum annars vegar og hins vegar tillitssemi við þá útlendinga, sem kann að reynast erfitt að skilja við nafnið sitt á miðri ævi. Auðvitað urðu umr. um það í nefndinni, hversu langt skyldi ganga, en þetta varð niðurstaðan með fyrirvara eins nm.

Hér hefur nokkuð verið rætt um frv. til l. um mannanöfn og afgreiðslu Ed. á því. Ég er ekki undir það búin að ræða langt mál um það frv., en ég hygg, að nokkuð langt sé síðan frv. hefur komið fram, sem gerir ráð fyrir jafnaugljósu ranglæti gagnvart konum og nöfnum þeirra. Það hefur verið bent á, að í þessu frv. sé gengið til móts við þá útlendinga, sem sækja um ríkisborgararétt og er sárt að skilja við nafnið sitt. En um leið er í frv. gerð tilraun til þess að leiða þennan sama ófögnuð yfir íslenzkar konur. Í þessu frv. eru a. m. k. 1001 ákvæði um það, hvernig fara skuli að, þegar kona giftist manni með ættarnafni eða þegar kona skilur við mann með ættarnafni og ef hún kynni svo að giftast þriðja manni með ættarnafni. Ég vil leyfa mér að henda hv. þm. á það að gæta samkvæmni í málflutningi. Það, sem þeir geta ekki hugsað sér að leiða yfir útlenda karlmenn, það skulu þeir ekki heldur leiða yfir íslenzkar konur.