18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé nú mjög við hæfi, að ég taki það strax fram, að orð mín verða örfá. Það kom fram greinilega í þeim umr., sem fóru fram um þetta mál hér fyrr í dag, að hér er um mjög viðamikið mál að tefla, þar sem um er að tefla frv., sem legið hefur fyrir hér lengst af þinghaldinu, um mannanöfn, og sýnist sitt hverjum í því efni. Örugglega mun þetta mál koma til kasta næsta þings. Ég verð að segja, að mér hefur fundizt hálfóviðfelldið, hvernig eitt nafn hefur verið dregið sérstaklega inn í þessar umr., og mér er nær að halda, að sú till. á þskj. 940 frá hv. allshn., sem orðast svo: „Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang með lögum, og skal hann þá taka sér íslenzkt fornafn“ o. s. frv., þessi till. sé komin til af því, að þeim hafi sýnzt einfalt mál að snúa fornafninu Vladimir yfir í Valdimar. Ekki get ég séð neina auðveldari skýringu á því uppátæki. Menn hafa varað,við því að hrófla mjög við þessu, og talið, að það gæti skapað hættuleg fordæmi. En mín afstaða er sú og mitt álit hyggist fyrst og fremst á því, að ég álít það hina mestu óhæfu, að þeim, sem komnir eru til vits og ára og sækja um að verða íslenzkir ríkisborgarar, skuli gert það að skyldu að skipta um eiginnafn.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um það, hvers vegna ég álít það óhæfu, en ég skora á menn að líta í eigin barm, hvað það mundi kosta menn að standa frammi fyrir því að verða að gerbreyta um nafn, eins og flest þetta fólk neyðist til þess að gera eftir þeim lögum, sem nú gilda. Mér sýnist langeinfaldast, að lausn á þessum vanda verði fundin, sem við stöndum frammi fyrir nú og nefndur hefur verið, með því að samþykkja þá brtt. á þskj. 915, sem flutt er af hv. 5. þm. Reykv.

Örugglega verður þetta mál tekið til ítarlegrar athugunar og breytingar verða á þessu gerðar. Það efa ég ekki. Þess vegna felst í því engin hætta að gefa nú dómsmrh. heimild til þess að veita undanþágu frá þessu, sem ég vil kalla hin mestu ódæmi.