19.05.1972
Neðri deild: 89. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Vegna þess að heyrzt hafa raddir um það, að þessi till. ætti ekki að koma til atkv. nú, vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel að forseti fari nákvæmlega rétt að með því að bera till. upp, því að hún er heimild um að veita undanþágu frá þessu ákvæði, en í þeirri brtt., sem búið er að samþykkja, er m. a. ákveðið, að hinn erlendi ríkisborgari skuli taka sér íslenzkt fornafn, þ. e. breyta skírnarnafni eða a. m. k. öðru þeirra, og enn fremur ákvæði um það, að börnin skuli taka sér íslenzk nöfn, þó að að vísu sé ákaflega erfitt að skilja, hvað átt er við með því. Það getur þýtt bæði skírnarnöfnin og eftirnafnið líka, svo að ég tel, að bæði formlega og efnislega geti till. á þskj. 915 fyllilega staðizt og sé því rétt að bera hana upp, eins og hæstv. forseti hefur lagt til.