19.05.1972
Efri deild: 94. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Við þetta frv. eins og það fór frá Ed. á sínum tíma hefur Nd. gert tvær breytingar. Við 3. umr. í Nd. var tekinn inn einn umsækjandi, Hendrik Óli Tausen, Færeyingur. Hann hefur verið hér á landi frá 1965 og hafði þá sama ár kvænzt íslenzkri konu og þau búið hér síðan. Skrifstofustjóri Alþingis hefur farið yfir umsóknina og telur, að öll skjöl, sem fylgja eiga, séu þar með og hann fullnægi öllum þeim skilyrðum, sem með þarf til þess að öðlast ríkisborgararétt. Ég tel, eftir að hafa litið á þessi skjöl að það standi ekkert í vegi fyrir því, að hann fái þennan rétt, sem hann sækir um, og tel ekki ástæðu til þess, að frekar sé athugað af hálfu þeirrar n., sem þetta annars mundi heyra undir, að væri tekið til yfirvegunar. Þessi umsókn lá fyrir í fyrra á þingi, en einhvern veginn fór svo, að hún hafði orðið út undan á sínum tíma við afgreiðslu mála.

Í annan stað hefur Nd. nú rétt í þessu samþykkt brtt. við frv. á þá lund, að dómsmrh. sé heimilt að veita undanþágu frá upptöku íslenzks nafns fyrir erlendan mann, sem fær ríkisborgararétt. Og persónulega tel ég eftir atvikum, þar sem ræðir alveg um sérstakt tilfelli, rétt að samþykkja þá brtt. En að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að kalla saman allshn. þessarar d. til þess að ræða frekar um þessa brtt., ef ósk kemur fram um það.