16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

281. mál, hjúkrunarskóli í Reykjavík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. er vafalaust öllum ljós hin mikla þörf, sem á því er að fjölga í stétt hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna á landi hér. Það mál hefur oftar en einu sinni komið til kasta Alþ. og ætla ég ekki að þessu sinni að eyða tímanum með því að rekja ýmis þau atriði, sem þar hefur verið bent á til úrbóta. En hér er lagt fyrir hv. d. frv. um framkvæmd einnar af þeim leiðum, sem menn hafa komið auga á til þess að fjölga þeim, sem hljóta hjúkrunarmenntun. Þar er um það að ræða, að stofnaður verði hjúkrunarskóli í tengslum við Borgarspítalann í Reykjavík. Þetta mál var tekið upp í borgarstjórn Reykjavíkur s. l. vetur, og síðan hefur málið verið til umr. milli fulltrúa heilbr.- og trmrn., borgarstjórnar og menntmrn. Árangur af þeim viðræðum og niðurstaða er það frv., sem hér er lagt fyrir og er eins og menn sjá fyrst og fremst heimildarfrv., frv. um að heimila stofnun sérstaks hjúkrunarskóla í tengslum við Borgarspítalann. Eins og borið hefur á góma á Alþ. áður, hefur það mjög staðið í vegi fyrir fjölgun hjúkrunarnema, að vandkvæði hafa verið á að tryggja lærða hjúkrunarkennara, en nú stendur svo á, að við Borgarspítalann starfa þegar konur, sem eru útlærðir hjúkrunarkennarar, og það liggur fyrir, að þær mundu fást til starfa við skóla, sem tengdur væri við Borgarspítalann. Ráð er fyrir því gert, að þessi nýi hjúkrunarskóli taki við 25–30 nemendum á ári, þannig að þar yrðu samtímis 75–90 nemendur með þriggja ára námstímabil. Aukninguna í hjúkrunarstéttinni, sem þessu mundi fylgja, má marka af því, að s. l. tvö ár hafa útskrifazt frá Hjúkrunarskóla Íslands rúmlega 80 manns hvort ár. Þarna mundi verða nálægt því um þriðjungs aukningu að ræða.

Það frv., sem hér er lagt fram, er eins og ég sagði fyrst og fremst heimildarlög til þess að heimila stofnun þessa skóla, en jafnframt vil ég tjá hv. d., að það er ætlun mín að láta endurskoða lögin um Hjúkrunarskóla Íslands með það fyrir augum, að sett verði ný heildarlöggjöf um hjúkrunarskóla og hjúkrunarnám.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. heilbr.- og félmn.