17.05.1972
Efri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

281. mál, hjúkrunarskóli í Reykjavík

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt og athugað frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að stofna og reka hjúkrunarskóla í tengslum við Borgarspítalann í Reykjavík og mælir eindregið með samþykkt frv. óbreytts. Einn nm., frú Auður Auðuns, var fjarverandi.

Hæstv. menntmrh. gerði hér í d. í gær grein fyrir frv., fyrir þörf og mikilvægi þess, og mun ég því ekki hafa mörg orð um þessa ákvörðun okkar, en heilbr.- og félmn. vildi fyrir sitt leyti leggja áherzlu á þann áhuga, sem hún hefur á framgangi þessa máls. Vildi gera það með því að láta það ekki dragast að halda sérstakan fund til að ræða þetta mál og freista þess, að það mætti komast í gegnum d. nú í dag. Öll þekkjum við hinn mikla hjúkrunarkvennaskort, er við höfum átt við að búa á undanförnum árum. Þessi mál hafa verið margrædd hér í hv. Alþ. og munu allir vera á einu máli um það, að mikil þörf sé á úrbótum í því efni. Hér er um raunhæfa úrbót að ræða, þótt fleira þurfi til að koma, og þess vegna vonum við, að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu.