18.05.1972
Neðri deild: 87. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

281. mál, hjúkrunarskóli í Reykjavík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Vegna þess hversu vinnubrögðum hefur verið háttað hér í þinginu síðustu daga, hafa orðið þau mistök, að ósk um lítilfjörlega breytingu á því frv., sem fyrir liggur, komst ekki til skila til n. Sú breyting varðar 2. gr., þar sem ákvæði eru um skipun skólanefndar við hjúkrunarskóla þann, sem í ráði er að stofna í tengslum við Borgarspítalann í Reykjavík. Vegna þess að gert er ráð fyrir, að inn í skólanefndina komi fulltrúi borgarstjórnar Reykjavíkur, getur skipun þessarar skólanefndar ekki með öllu verið hliðstæð skipun skólanefndarinnar við Hjúkrunarskóla Íslands, en þetta frv., eftir því sem efni standa til, er sniðið eftir lögum um þann skóla. Því hefur upphaflega fallið út fulltrúi heilbrigðisyfirvalda í skólanefnd við hinn nýja skóla. Við nánari athugun þykir þetta óeðlilegt. Það þykir eðlilegra, að það sé fulltrúi Læknafélags Íslands, sem ekki sé í þessari nefnd, en fulltrúi sé þar frá heilbrigðisyfirvöldum. Því vil ég leyfa mér, herra forseti, að flytja skriflega brtt. við 2. gr., 1. málsl., á þessa leið:

„Í stað orðanna „Læknafélags Íslands“ komi: heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.“ Sem sagt, heilbr.- og trmrh. skipi einn mann í þessa skólanefnd í stað þess, sem gert er ráð fyrir, að Læknafélag Íslands skipi í frv. eins og það liggur fyrir, og vil ég leyfa mér að leggja fram þessa skriflegu brtt.