21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér fjórar breytingar á löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þrjár af þeim eru minni háttar, en ein breytingin er nánast um afnám vísitölubindingar á húsnæðislánum, og er það meginefni þessa frv.

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um húsnæðismálalöggjöfina almennt, áður en ég vík að efni frv., skal þó ekki vera mjög langorður. Lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins var breytt í grundvallaratriðum á árinu 1970. Ýmsar þær breytingar, sem þá voru á löggjöfinni gerðar, eru tvímælalaust til bóta, en þó hygg ég, að að sumu leyti hafi verið stigin spor aftur á bak að því er snertir þessa endurskipulagningu húsnæðismálalánanna. Það er enn þá þetta mark á húsnæðismálalöggjöfinni, að hún hvílir mjög á flokkspólitískum grundvelli, sem ég verð að lýsa yfir sem minni persónulegu skoðun, að sé mjög til hins verra, og hv. Alþ. ætti að reyna að komast úr þeim farvegi með þessa löggjöf. Við það verður hún á margan hátt þunglamaleg í framkvæmd. Sjónarmið, sem ekkert erindi eiga inn í afgreiðslu húsnæðismálanna, koma þar við sögu og verða jafnvel ríkjandi og- ráðandi, afgreiðslur þunglamalegar. Það er t. d. yfir Húsnæðismálastofnuninni níu manna stjórn, og vafalaust er það gert til þess að flokkarnir fái allir aðstöðu til þess að hafa fulltrúa í stjórninni til þess að fara höndum um allar umsóknir um húsnæðislán hvaðanæva að af landinu og þukla þessar umsóknir, auðvitað út frá flokkspólitískum sjónarmiðum. Ég álít, að þetta eigi ekkert erindi inn í húsnæðismálalöggjöfina, og við þurfum sem fyrst að ná samstöðu um að komast hjá þessu formi í þessum þýðingarmikla málaflokki almennings.

Enn þá hjákátlegri er þó kannske endurskipulagningin á verkamannabústöðunum. Þar eiga að vera í hverju héraði sjö menn í stjórn, sjö aðalmenn og sjö til vara. Það á sem sé að tilnefna í stjórn verkamannabústaða í hverju smákauptúni á Íslandi 14 menn. Og það hefur orðið allmikil leit að þessum 14 fjölskyldufeðrum, — venjulega hefur verið talið við hæfi, að það væru fjölskyldufeður, sem væru í húsnæðismálastjórninni, — og mikill dráttur orðið á því, að þeir aðilar, sem eiga að tilnefna þessa 14 menn, gætu lokið verkinu. Sumar sveitarstjórnir eru ekki búnar að því enn eftir hálft annað ár. Sveitarstjórnir eiga að tilnefna þrjá, húsnæðismálastjórnin suður í Reykjavík á að tilnefna þrjá í stjórn verkamannabústaða hingað og þangað úti um landið og verkalýðsfélög á staðnum einn, sjö aðalmenn þannig og sjö varamenn.

Þar að auki vil ég segja það, að kaflinn um Byggingarsjóð verkamanna er þannig, að ég tel þar á margan hátt mjög stefnt í öfuga átt frá því, sem áður var, þegar byggingarfélög verkamanna störfuðu, en þau voru lögð niður með þessari endurskoðun laganna. En allur kaflinn er í raun og veru svo þunglamalegur í framkvæmd, að reyndin virðist vera sú, að það hálft annað ár eða nærri tvö ár, sem liðin eru síðan lögin voru sett, sá tími hefur mestmegnis víðast hvar á landinu farið í undirbúningsvafninga og lítið komið til framkvæmda enn þá við byggingu verkamannabústaða samkv. þessum kafla. Þó hafa verið gerðar á honum nokkrar breytingar, m. a. s. á þessu þingi, og tel ég því ekki rétt að fara í það að umbylta þessum kafla nú og hef þannig ekki tekið með endurskoðun á honum að neinu ráði, tel rétt, úr því að undirbúningur mætti nú teljast búinn, að þá þurfi a. m. k. að fá á þessu ári reynslu af því, hvernig kaflinn reynist í framkvæmd, og vil ég því ekkert hlaupa að því núna að gera þá grundvallarendurskoðun á kaflanum um verkamannabústaði, IV. kafla laganna, sem mér sýnist þó, að muni þurfa að gera. Eftir að öllum undirbúningsvafningum er lokið, þá er einn megingallinn á verkamannabústaðakaflanum sá, að smærri kauptún, fámennari kauptún geta ekki notfært sér kaflann. Þau eiga að gera fjögurra ára áætlun um byggingarþörf verkamannabústaða, en reglurnar eru þær, að kauptún af meðalstærð með þúsund íbúa fengju aðeins rétt til þess að byggja um það bil eina íbúð á ári. Það bætir ekki úr þörf kauptúnanna yfirleitt. Kauptún með 300–400 manns fá aðeins rétt til þess að byggja hluta úr einni íbúð á ári, og þó að það væri gerð fjögurra ára áætlun, munu þau fámennustu tæplega búin að öðlast rétt samkv. löggjöfinni til þess að byggja eina íbúð. Er alveg auðsætt, að þessi ákvæði verður að taka til endurskoðunar og verður ekki við þau unað. Þetta byggist að verulegu leyti á ákvæðunum um þau framlög, sem sveitarfélögin eiga að leggja fram til verkamannabústaða, en þau eru 200–400 kr. á mann í sveitarfélaginu miðað við s. l. ár. Og þó að hámarkið sé notað, kemur þetta svona út, að kauptún af meðalstærð geta ekki öðlazt rétt til þess að byggja eina íbúð á ári. Það verður aðeins hluti úr íbúð hjá öllum smærri kauptúnunum.

Hv. Alþ. gerði hér fyrir jólin þá breytingu á, að hlaupið á milli lágmarks og hámarks skyldi verða miklu víðtækara, eða frá 200 kr. á mann upp í 1200 kr. á mann. Er þá smákauptúnunum ætlað að brjótast í gegn og víkka rétt sinn til byggingar verkamannabústaða með því að leggja allt að 1200 kr. á mann sem framlag til verkamannabústaða, og öðlast þá sveitarfélagið sama rétt á móti frá ríkinu. Þetta yki mjög fjáröflunina til byggingar verkamannabústaða, en ég er afar hræddur um, að smáu sveitarfélögin ráði ekki við þetta, geti ekki lagt grundvöllinn að því að fá úr ríkissjóði þessa upphæð með því að leggja þetta á fólkið heima fyrir. Ég er afar hræddur um, að þetta ákvæði verði dautt, vil þó sjá til þetta ár og flaustra ekkert að því að breyta þessu núna, og þetta væri þá fyrsta árið, sem reynsla fengist á það.

Þannig eru mýmörg atriði í lögunum, sérstaklega í kaflanum um verkamannabústaði, sem ég held að þurfi gagngerðrar endurskoðunar við en ég hef þó ekki tekið með í þá breytingu, sem núna er borin fram. Aðalatriði hennar er, eins og ég áðan sagði, afnám vísitölukvaðar af lánum húsnæðismálakerfisins.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að við ættum sem allra mest að færa afgreiðslu húsnæðismálalána inn fyrir ramma veðdeildar Landsbankans og ef mögulegt væri að koma því við, að afgreiðslan á lánunum gæti sem mest átt sér stað í bankaútibúum úti um landið, og mundi þá jafnvel stefnt að því, að Húsnæðismálastofnun ríkisins væri lögð niður sem slík, en hins vegar væri teiknistofa hennar rekin í tengslum við veðdeildina líkt og Búnaðarbanki Íslands hefur teiknistofu fyrir landbúnaðinn. Okkur hættir allt of mikið við því að hafa tvær stofnanir sums staðar, þar sem ekki þarf nema eina, og í þessu tilfelli held ég, að væri langeðlilegast og heppilegast, ef fyrir fjárþörfinni er séð á annað borð, að þá væri þetta hreint og beint bankaleg afgreiðsla og allt flokkspólitískt þukl á umsóknunum fjarlægt.

Því miður verður að játa það, að Húsnæðismálastofnun ríkisins hefur vafið upp á sig eins og aðrar stofnanir og er orðin stórt og mikið bákn, og kostar rekstur hennar um 18 millj. kr. á ári. Mér dettur ekki í hug, að komizt verði hjá öllum þeim kostnaði, þó að hún yrði lögð niður og starfsemin færð inn í veðdeild og bankana. Eitthvað mundi sú þjónusta þar kosta vafalaust. En ég held, að þetta sé um of að hafa þarna sérstaka stofnun í þessum tilgangi, sem er þá ekki annað en það, sem gæti tilheyrt venjulegri bankaafgreiðslu. Ég sé í raun og veru ekki, hvað það er, sem þarna þyrfti að vera umfram venjulega bankaafgreiðslu í þessum málum, þar sem lögin segja fyrir um stærð íbúðanna, hámarksstærðina, teikningarnar ákvarða, með hverjum hætti þær skuli vera, sem stofnunin leggur til, og þar fram eftir götunum, og þá er aðeins eftir að afgreiða þetta í þeirri röð sem umsóknirnar berast og leggja mat á það, hvort þær fullnægi lagalegum ákvæðum. Allt slíkt gæti bankastarfsmaður leyst af hendi.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð fleiri um mínar persónulegu skoðanir á húsnæðismálalöggjöfinni og agnúa þá, sem á henni eru. Ég hef tekið það fram, að ég vil láta koma á hana reynslu á þessu ári, harma mjög þann drátt, sem hefur orðið á framkvæmd verkamannabústaðabygginga síðan lögin voru sett, og hygg ég, að það hljóti að vera af því, að sveitarfélögin yfirleitt una ekki þeim ákvæðum eða telja sér ekki fært að notfæra sér þau.

Fyrsta breytingin er um það að fækka í húsnæðismálastjórninni úr níu manns í sex. Ég hefði gjarnan viljað hafa þetta helzt þriggja manna stjórn, en mönnum þykir það of mikið stökk, og nú er hér lagt til, að það verði sex menn, þar af fimm kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Ég hefði talið alveg fullnægjandi, að þetta væru þrír menn auk fulltrúa veðdeildar Landsbankans, og helzt hefði ég talið rétt, að stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar væri ekki kosin pólitískri kosningu af Alþ. Þetta er efni 1. gr., þ. e. fækkun í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar, en kosningafyrirkomulag er það sama eins og nú er í lögum, þ. e. hlutfallskosning á Alþ. á þeim mönnum.

Þá er í 2. gr. breyting á 4. mgr. 8. gr. laganna. Þar segir í núgildandi lögum, með leyfi hæstv. forseta: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að verja allt að 50 millj. kr. árlega til lánveitinga til kaupenda eldri íbúðarhúsa. Ráðh. setur með reglugerð ákvæði um úthlutun, lánstíma og tryggingar slíkra lána að fengnum till. húsnæðismálastjórnar.“

Sú reynsla er fengin, að þessi heimild að verja allt að 50 millj. kr. til kaupa á eldri húsum hefur komið sér vel og leyst nokkurn vanda, tryggt betri nýtingu húsnæðis, sem til er í landinu, og þannig vafalaust dregið eitthvað úr nýbyggingum. og tel ég þetta hagkvæmt. En upphæðin hefur reynzt of lág. Þess vegna er lagt til í 2. gr. frv., sem hér er til umr., að í stað 50 millj. komi 70 millj. kr., og er reynsla fyrir því, að af slíkri upphæð muni ekki veita, ef hægt á að vera að veita nokkra úrlausn í þessu efni. Af fjárskorti hefur húsnæðismálastjórn ekki treyst sér til að veita hærri lán en 150 þús. kr., að ég hygg, og er það í sumum tilfellum of lítið fé, og þessi upphæð hefur verið þrotin löngu fyrir árslok.

Þá er þriðja breytingin, sem felst í 3. gr. Hún er við C-lið 8. gr. laganna, og er þar lagt til að meðaltalsársvextir allt lánstímabilið, sem er 25 ár, skuli að meðtalinni þóknun veðdeildar aldrei vera hærri en 71/4%, og viðbót sú, sem fellur til á afborganir samkv. þessum staflið, telst vextir. Þetta mál, að afnema vísitölukvöðina á húsnæðislánum, reyndist vera allflókið. Þetta var sent til könnunar í Seðlabankanum, og var það mál hér til umr. fyrr í vetur. Það var einnig sent til athugunar fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands. Niðurstöðum þessara aðila um það, hver þróun vaxtabyrðarinnar væri fyrir liðna tímann frá því 1965, bar að verulegu leyti saman, en samt var ágreiningur um málið allt saman og niðurstöðurnar gerólíkar. Seðlabankamennirnir töldu, að það væri staðreynd, að vextirnir væru nú að sjö ára lánstíma liðnum ekki komnir upp fyrir venjulega vexti af veðtryggðum lánum, en fulltrúi Alþýðusambandsins taldi, að þarna væri nú þegar komið upp fyrir eðlilega vexti. En hvorir tveggja aðilarnir voru sammála um það, að þegar liði á lánstímann og ekki sízt að honum loknum, 25 árum, með sams konar þróun í verðlagsmálum og verið hefði á þessu sjö ára tímabili, þá mundu vextirnir verða orðnir þungbærir, jafnvel óhóflegir. Það varð því sú niðurstaða, sem var tekin til skoðunar af fulltrúa frá félmrn. og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og þeim falið jafnframt að gera tillögur um, hvernig ætti að komast frá vísitölukvöðinni á lánunum og breyta þannig lánskjörunum. Niðurstaða þeirra varð sú, að mjög erfitt væri að hagga við lánum, sem þegar hefðu verið afgreidd, og þúsundir manna hefðu í höndum samning um lánskjörin. Einnig væru allmargir aðilar, um 20 talsins, sem hefðu keypt þessi verðbréf, og væru þó tveir þeir langstærstu Byggingarsjóður ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóður. Breytingu væri ekki hægt að gera á þessu, án þess að ná samkomulagi a. m. k. við þá stærstu aðila á þessu sviði, sem þarna hefðu keypt verðbréf Húsnæðismálastofnunarinnar. Þegar fulltrúi Alþýðusambandsins og fulltrúi félmrn. fjölluðu um þetta mál, sögðu þeir m. a. þetta í álitsgerð sinni, þar sem þeir fjölluðu um leiðir til úrbóta:

„Hvað snertir fyrra atriðið, sem nefnt var hér að framan, þá er þar úr nokkuð vöndu að ráða. Lánakjörin eru ákveðin með skilmálum í þegar útgefnum og seldum bankavaxtabréfum veðdeildarinnar. Eftirstöðvar þeirra bréfa, sem í umferð eru, námu hinn 31. des. 1971 3 209 1 18 428 kr. Skuldarar þessara bréfa skipta þúsundum, en eigendur bréfanna eru hins vegar innan við 20 talsins. Það má telja ómögulegt að ná samningum við skuldara um breytingu á ákvæðum skuldabréfanna í heild, enda aðstaða þeirra innbyrðis mjög ólík, þannig að áhugi þeirra t. d. á afnámi vísitöluákvæðis og samsvarandi hækkun nafnvaxta hlýtur að vera æðimisjafn. Sé hins vegar athugað, hverjir eru eigendur bankavaxtabréfanna, kemur í ljós samkv. yfirliti veðdeildar, sem við höfum aflað okkur, að þar er fyrst og fremst um tvo aðila að ræða, þ. e. Byggingarsjóð ríkisins, sem er eigandi að bréfum, er námu að eftirstöðvum 2 488 862 638 kr., og Atvinnuleysistryggingasjóð, sem á bréf að eftirstöðvum 665 766 579 kr. Aðrir skuldabréfaeigendur eru með miklu lægri fjárhæðir, frá 200 þús. og upp í 19 millj. Það sýnist því vera fær leið að reyna einhliða samninga við eigendur bankavaxtabréfanna um breytingu á ákvæðum þeirra að því er vísitöluákvæðið eitt snertir, því að að sjálfsögðu þýðir ekki, samkv. því sem áður er sagt, að breyta nafnvöxtum án samþykkis nokkurs skuldara.“

Þetta þótti mönnum á tímabili einna líklegasta leiðin. Snerta ekki við hví gamla, en ná samningum og samkomulagi fyrir framtíðina og setja ákveðinn vaxtafót, en afnema vísitölukvöðina frá gildistöku nýrra laga. Við nánari skoðun á því kom í ljós, að þá yrðu vaxtakjörin gífurlega mismunandi, alveg ólík frá ári til árs hjá einni og sömu stofnun. Vaxtakjörin væru orðin þyngst hjá þeim, sem hefðu tekið lánin 1965, svo ívið lægri 1964 og langsamlega hagstæðust hjá þeim, sem tóku lánin á liðnu ári, eða 4%. Ef þessi lán ættu síðan að vera með 4% vöxtum áfram og það lögfest, en svo kæmi nýr vaxtafótur, 7 eða 8% eða hvað það nú yrði ákveðið, þá verða þarna gerólík vaxtakjör hjá flestöllum lántakendum Húsnæðismálastofnunarinnar, og þetta þótti, þegar nánar var á þetta litið, eiginlega ófær leið.

Það, sem nú er lagt til í 3. gr. frv., svo að ég stytti mál mitt um þetta, er breyting við C-lið 8. greinar. Eins og ákvæðin um vaxtakjörin eru núna, þá er C-liður 8. gr. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ársvextir af lánum þessum skulu vera 4%. Þau skulu vera afborgunarlaus fyrsta árið, en endurgreiðast síðan að fullu á 25 árum með jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana (annuitet). Hvert lán skal vera tryggt með 1. veðrétti í viðkomandi íbúð. Á vexti af lánum þessum fyrsta árið, og af ársgreiðslum af þeim síðar, skal skuldari greiða hlutfallslega viðbót, sem svarar helmingi þeirrar hækkunar, er hverju sinni hefur orðið á kaupvísitölu (sbr. 5. mgr. 5. gr.) frá lántökutíma og til 1. febr. næst fyrir hverja ársgreiðslu. Til greiðslu á kostnaði veðdeildar Landsbankans vegna starfa hennar í þágu Byggingarsjóðsins skulu skuldarar árlega greiða sem svarar 1/4% af lánsfjárhæðinni. Skal gjald þetta reiknað á sama hátt og árlegir vextir, og við það skal lögð hlutfallslega sama vísitöluviðbót og greidd er á ársgreiðslu af láninu hverju sinni.“

Samkvæmt þeirri hugmynd, sem felst í 3. gr. frv., sem við nú ræðum, er ætlunin að láta þetta ákvæði, eins og ég hef nú lesið það, standa óbreytt, en við greinina bætist, og þar með sé komið í veg fyrir óhóflega hækkun vegna vísitöluákvæðisins, við greinina bætist:

„Meðaltalsársvextir allt lánatímabilið skulu þó, að meðtalinni þóknun veðdeildar, aldrei vera hærri en 73/4. Viðbót sú, sem fellur til á afborganir samkvæmt þessum staflið, telst vextir.“

Vextirnir eru þá samkvæmt þessu 73/4% og þóknun veðdeildarinnar 73/4% og færu vextirnir að meðaltali yfir allan lánstímann ekki upp úr 73/4%. Þetta þýðir það, að þeir sem lán tóku 1965 og eru þannig komnir líklega yfir 9% vexti, fá lækkun á þeim niður í meðaltalsvextina 73/4%. Allir, sem eru fyrir neðan þetta og eru núna t. d. allt niður í 4%, fá smám saman á lánstímanum hækkun, þannig að meðaltalið verði 73/4, þannig að lánskjörin verða samkv. þessari tillögu eins hjá öllum, hvort sem þeir taka lánin nú eftir gildistöku laganna eða hafa tekið þau á tímabilinu frá 1965. Öllum þessum mönnum er þessi breyting til kjarabóta, til hagsbóta, svo að það ætti ekki að verða vandi að fá þá til þess að beygja sig undir þessa nýju lagasetningu, þó að hún sé ekki í samræmi við samninginn á skuldabréfi þeirra, þar sem þeir að öllu óbreyttu yrðu þá að taka á sig vísitöluhækkanirnar eins og þær kunna að verða vegna vaxandi dýrtíðar allt lánstímabilið. Hins vegar má vænta þess, að eigendur bréfanna, eins og t. d. Atvinnuleysistryggingasjóður, sem er stærsti aðilinn þar, kunni að sætta sig illa við þá kjaraskerðingu, sem hann verður fyrir með þessari lagabreytingu, en það hefur þegar verið hafður fundur um þetta í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórnin gert samþykkt um að sætta sig við þessa breytingu, þótt það kosti sjóðinn verulegt fjármagn sem framlag þarna til húsnæðismálanna. Það er tryggt, að ekki mun standa á því. Byggingarsjóðurinn sjálfur er eign ríkisins. Það verður hægt að framkvæma þessa reglu að koma 73/4% vöxtum ásamt þóknun á alla lántakendur yfir allt lánstímabilið. Önnur og einfaldari aðferð til þess að ráða bót á þessu hefur ekki fundizt af þeim aðilum, sem um málið hafa fjallað. Málið var síðan rætt við miðstjórn Alþýðusambandsins, og það er vitað, að hún sættir sig við þessa breytingu og þennan vaxtafót, sem þarna er lagt til að verði 73/4%, en á kemur svo þóknun veðdeildar.

Ég held, að ég skýri ekki málið með því að fara fleiri orðum um þessa meginbreytingu laganna, en þetta er vitanlega stór breyting á lánakjörum þeim, sem bundin hafa verið vísitölukvöð.

Í 4. gr. er breyting á skipan á stjórn verkamannabústaða úti um landið og segir þar, að ráðh. skipi stjórn verkamannabústaðanna í sveitarfélaginu. Í stjórn þessari eigi sæti fjórir menn, sem skipa skuli þannig: Tveir eftir tilnefningu sveitarstjórnar, einn eftir tilnefningu verkalýðsfélaga í sveitarfélaginu og einn án tilnefningar, sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ég hefði talið alveg fullnægjandi, að þarna væri þriggja manna stjórn, einn frá verkalýðsfélagi, einn frá sveitarfélagi og einn frá rn. En ýmsir eru þeirrar skoðunar, að af því að sveitarfélögin þurfa að taka á sig svo miklar fjárhagslegar byrðar vegna byggingar verkamannabústaða, sé sanngjarnt, að sveitarstjórnirnar eigi þarna tvo fulltrúa og hafi þannig nokkru meiri ráð en aðrir aðilar í ákvörðunum þessara mála. Það má vera, að það sé heppilegt frá öryggissjónarmiðum sveitarfélaganna, að þau hafi þarna tvo fulltrúa, og á það hef ég fallizt, en hins vegar óttast ég það í framhaldi af þeirri reynslu, sem orðin er, að sveitarstjórnirnar spyrni við fótum um byggingu verkamannabústaða og þeim mun frekar, sem þær hafa meiri íhlutun í stjórninni. Þær eiga þarna að taka ákvarðanir, eins og lögin eru núna, um að leggja á þegna sveitarfélagsins frá 200 og upp í 1200 kr. á mann, ef ákveðið skal að byggja verkamannabústaði, og má því vera, að þær neyti aðstöðu sinnar til þess að koma í veg fyrir byggingu verkamannabústaða, ef þær ráða þarna of miklu um, og það er reynslan núna, að með þeirri aðstöðu, sem sveitarstjórnirnar hafa, hafa fjöldamörg sveitarfélög ákveðið að notfæra sér ekki ákvæðin um byggingu verkamannabústaða. Þarna er sem sé um að ræða mikla fækkun í stjórn verkamannabústaða úti um landið. Í stað þeirra sjö plús sjö, sem nú á að kjósa í sveitarfélögunum, yrði þarna um fimm menn að ræða og fimm til vara.

Að lokum er svo í 5. gr. ákvæði um það, að húsnæðismálastjórn verði kosin þegar eftir gildistöku laganna og falli þá umboð núverandi húsnæðismálastjórnar niður. Jafnframt skuli ráðh. skipa stjórnir verkamannabústaða, en umboð núverandi stjórnarmanna verkamannabústaða falli þá niður frá gildistöku laganna.

Þetta er innihald þessa frv. og dylst engum, sem á mál mitt hefur hlýtt, að aðalefni þess er það að létta vísitölukvöðinni af húsnæðismálalánunum, aðallega vegna þess, hvernig horfði með þróun mála. Allir viðurkenna, að vaxtabyrðin yrði óhóflega þung, þegar liði á lánstímann, ekki komið í bráðaóefni eins og er og því rétti tíminn núna að gera breytingu á vaxtakjörunum. Það virðist vera meiri hreyfing á því, að sveitarfélögin notfæri sér kaflann um byggingu verkamannabústaða, á árinu 1972 heldur en á árinu 1970 og 1971, og því þykir mér rétt að bíða með að leggja til breytingar á því í grundvallaratriðum. Í skýrslu Seðlabanka Íslands, ársskýrslu 1971, segir um húsnæðismálin þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Bygging íbúðarhúsa mun hafa aukizt um 13.5% árið 1971, sem má teljast eðlileg aukning miðað við, að árið 1970 jukust þær aðeins um 1%, eftir að hafa dregizt saman um 22% næstu tvö árin á undan.“

Árin 1968 og 1969 var samdráttur í byggingu verkamannabústaða um 22%, 1970 var aukningin 1% og 1971 hefur bygging íbúðarhúsa í heild aukizt um 13.5%, og það virðist vera eðlileg aukning.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði nú að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.