21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það komu fram hér í ræðu hv. 11. landsk. þm. skoðanir hans á því, um hvað þetta frv. fjallaði og hvernig hæstv. ríkisstj. tæki á málefnum Húsnæðismálastofnunarinnar. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hann sagði þar, en vil aðeins benda á, að frá mínu sjónarmiði er hér fyrst og fremst verið að gera tvær breytingar, annars vegar fella niður vísitölubindingu, sem verið hefur á húsnæðismálalánunum, svo og hitt, sem kannske er af sjónarhóli hæstv. ráðh. og flokksmanna hans ekki síður þýðingarmikið, að gera breytingar á stjórn Húsnæðismálastofnunar, þannig að hægt verði að fá nú á þessu þingi uppkosningu, sem mundi þýða samkv. þessu frv., eins og það er hér lagt fram, að hans flokkur næði einum manni inn í þá stjórn. Það er ljóst mál að ekki hefði verið hægt að hafa sömu tölu og leggja til, að endurkosning færi fram. Það var of áberandi, hvað þá var verið að gera. Í stað þess er lagt inn á þá braut að leggja til, að fækkað verði í Húsnæðismálastofnuninni, og allir sjá, hvað raunverulega býr þar að baki.

Hæstv. félmrh. hafði hins vegar þau orð um þessa stofnun og stjórn hennar, að það ætti ekki að fara höndum um þessar lánaumsóknir af pólitískt kosnum mönnum, og þess vegna vildi hann meina, að ekkert slíkt vekti fyrir sér. Vel má vera, að hann vilji láta svo út líta, en ég held, að allir sjái, hvað hér er á ferðinni. Við þekkjum það nefnilega frá nokkuð löngu liðnum tíma, að ríkisstj. hefur tekið sig til og skipt um stjórnir og ráð, breytt kosningu þeirra, í aðeins einum ákveðnum tilgangi, til þess að koma að öðrum mönnum en þar hafa setið. Fjölgun var gerð í þessari stofnun, í stjórn þessarar stofnunar, fyrir ekki löngu, einfaldlega til þess að reyna að tryggja það, að stjórn þessarar stofnunar væri byggð á sem lýðræðislegustum grundvelli. Það er að sjálfsögðu jafnlýðræðisleg kosning að kjósa fimm menn á Alþ. og kjósa sjö, en það hefur nú verið reynt að fá út úr kosningu stjórna, m. a. fjölgað í nefndum þingsins, til þess að allir þingflokkar gætu átt aðild að þeim, en mér sýnist, að með þessu frv. sé stigið hvað þetta snertir spor aftur á bak og sú lýðræðisást, sem fram hefur komið a. m. k. í ræðum Alþb.-manna hér að undanförnu, sé öll horfin og verði ekki litið á þetta mál af þeim sjónarhóli.

Hv. 3. landsk. þm. hefur þegar flutt brtt. við frv. og lýsir því, að hún sé flutt í anda hæstv. félmrh. Vel má svo vera, en ef litið er á þá till., þá gerir hún ráð fyrir því, að hæstv. félmrh. væru hæg heimatökin að ráða tveimur af þremur stjórnarmönnum Húsnæðismálastofnunar, öðrum sem félmrh. og hinum sem forseti Alþýðusambands Íslands, en það er gert ráð fyrir, að stjórn ASÍ skipi annan manninn. Þá eru fundin þriðju samtökin, Samband ísl. sveitarfélaga, og þeim ætlað að tilnefna einn mann. Vel má vera, að þessi till. um, að hæstv. félmrh. geti tilnefnt eða haft áhrif á tvo menn í stjórn þessarar stofnunar, sé eins og hv. þm. sagði í anda hans, en ég held, að sú breyting, sem hv. 3. landsk. þm. leggur til, að gerð verði á stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins, sé ekki til bóta.

Það hefur verið svo mörg undanfarin ár hjá þeim ríkisstj., sem setið hafa, að þær hafa glímt við þann vanda að útvega Húsnæðismálastofnun ríkisins fjármagn. Sú ríkisstj., sem situr í dag, glímir enn fremur við þennan vanda, og þannig verður þetta að sjálfsögðu með ört vaxandi byggingarframkvæmdum, að það verður að vinna að lausn fjármála þessarar stofnunar á ári hverju, á meðan ekki tekst að skapa eða skaffa þessari stofnun tryggan tekjustofn. Hugmyndir hafa komið fram um það og ég minnist þess, að af hálfu sjálfstæðismanna var á sínum tíma bent á, með hvaða hætti væri hægt að tryggja þessari stofnun fjármagn svo og hvað eðlilegast væri um stjórn þessarar stofnunar, en í þeim tillögum fólst m. a., að ákveðin prósenta af sparifjáraukningu landsmanna, sem bankarnir hefðu yfir að ráða, yrði sett til þess að tryggja fjármagn til Húsnæðismálastofnunarinnar og bankarnir sem slíkir ættu fulltrúa í stjórn Húsnæðismálastofnunar, sem sæju um útlánin.

Ég vildi aðeins koma fram með þessa hugmynd hér eða rifja hana upp um leið og ég læt í ljós skoðun mína á því, hvert tilefni er með breytingu á stjórn Húsnæðismálastofnunar. Í báðum tilfellunum, hvort heldur er frá hæstv. félmrh. eða samflokksmanni hans, hv. 3. landsk. þm., er gert ráð fyrir því, að núv. félmrh. fái tækifæri til þess að skipa formann úr hópi manna, sem kjörnir eru af Alþ. Það er ljóst mál, til hvers breytingin er gerð hvað það snertir, og í öðru lagi verður að fara þá leið að fækka í þessari stjórn og þar með gera það að verkum, sem augljóst er, að þingflokkar allir ná ekki tækifæri til þess að kjósa menn í þessa stofnun.