17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun að þessu sinni ekki flytja mjög langt mál. En hins vegar verður að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að hér er á ferðinni mjög undarleg afgreiðsla á einu stjfrv. Það er ekki aðeins, að samstarfsmenn hæstv. félmrh. áskilji sér rétt til að fylgja og bera fram brtt., heldur mun samfara því einnig liggja fyrir, að hæstv. félmrh. hóti jafnvel að slíta hjúalögum þeim, sem hann býr undir í hæstv. ríkisstj., ef þetta frv. nái ekki fram að ganga. Og þær undarlegu staðreyndir liggja fyrir, að meginatriði þessa frv. eru á þann veg, að ekkert liggur á að samþykkja þau ákvæði fyrr en með næsta hausti. Það virðist vera, að þarna sé á ferðinni metorðagirnd hæstv. félmrh., og er þó undravert af manni á hans aldri að láta hana hlaupa með sig í gönur, búinn að gegna þeim stöðum, sem hann hefur gegnt á undanförnum árum, þ. á m. embætti félmrh. í fyrri vinstri stjórninni. En þegar málin eru skoðuð betur, skilst manni auðvitað, hvað verið er að fara. Það er staðreynd, að hæstv. félmrh. var forseti Alþýðusambandsins á þeim tíma, þegar samið var um vísitöluákvæðin á lánum húsnæðismálastjórnar. Það var auðvitað ákaflega skiljanlegt, þegar hann og aðrir sömdu af sér, að talið hefði verið af öllum þorra landsmanna, sem hafa orðið að búa við þessi ákvæði, að hann þyrfti að fá nokkrar bætur á því. Það skil ég ákaflega vei. og ég skal styðja hann í því að fá þessi ákvæði afnumin. En þar fyrir utan breytir hann ekki neinu með þessu frv. fyrir þann mikla fjölda, sem þarf að borga þessar afborganir með þeim ákvæðum, sem á hvíla á þessu ári, því að það er þegar gjaldfallið. Þá stendur eftir: Á að fara í það að breyta stjórn Húsnæðismálastofnunar?

Eigum við hv. þm. að dansa eftir þessu gamla stefi þeirra vinstristjórnarmanna: hægri, hægri, vinstri, vinstri, tja, tja, tja? Eiga að vera fimm í dag, sjö á morgun, eiga að vera sjö í dag og fimm á morgun, allt eftir því hvernig bezt gefur fyrir hæstv. félmrh.?

Ég tel, að það sé engin ástæða til þess að afgreiða þetta frv. núna. En ef hæstv. ríkisstj. vill fá þetta ákvæði sem krans á þann stóra róðukross, sem hefur nú verið hafinn upp fyrir þjóðinni og ber afrekaskrá núverandi hæstv. ríkisstj., þá er sjálfsagt að verða við því og samþykkja vísitöluákvæðið, en þó held ég, að hæstv. Alþ. ætti að hafa nokkuð í huga ábendingar húsnæðismálastjórnar, sem kjörin er af hæstv. Alþ., um það, hvaða leiðir hún vilji fara. Og ekki er víst, að tillögur um slíkar breytingar séu afgreiddar á einum degi uppi í félmrn., heldur þarf kannske fleiri aðila við til þess að benda á leiðir til úrbóta.

Það er talað um, að ef ákvæði 3. gr. nái fram að ganga, geti jafnvel svo farið, að Byggingarsjóður sjálfur verði gjaldþrota á nokkrum árum. Nú ætla ég ekki að ræða það, sjálfsagt hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir þessu og kemur með tillögu um, hvernig megi koma þar á móti, enda hlýtur það að vera, ég veit, að þeir hafa hugsað þannig. En vegna þess að ég á sæti sem þingkjörinn fulltrúi í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem er annar stærsti lánveitandinn í þessar byggingarframkvæmdir, — ég held, að lán hans nemi um 700 millj. kr. í dag, — langar mig að spyrja hæstv. félmrh.: Hefur náðst samkomulag við þennan sjóð? Og nú veit hæstv. ráðh. eins vel og ég, að það er ekkert leyndarmál, að formanni þessa sjóðs var falið að ræða við félmrh. um það, hvernig mætti leysa þetta vandamál. Hefur þetta vandamál verið leyst, hvernig megi bæta þessum sjóði það tap, sem ég get ekki annað séð en að hann hljóti að verða fyrir, ef þessi lög verða samþykkt? Þar fyrir utan hlýtur það að vera stóra málið fyrir alla húsbyggjendur hér í landi, hlýtur auðvitað stóra spurningin að vera burtséð frá öllum frv., sem hæstv. ríkisstj. flytur um breytingar á stjórn, breytingar á vöxtum og öllu slíku, stóra spurningin hlýtur að vera: Hefur hæstv. félmrh., hefur hæstv. ríkisstj. tryggt þeim, sem eru að byggja, það fjármagn, sem á þarf að halda á þessu sumri, á þessu ári? Hvernig hafa hæstv. félmrh. gengið samningarnir við lífeyrissjóðina? Hann hafði skrifað þeim bréf og óskað eftir ákveðinni þátttöku þeirra til þess að fjármagna lánaþörf húsnæðismálastjórnar. Ég frétti síðast í gær, að hann hefði ekki einu sinni sýnt þessu þann áhuga að tala við ákveðna lífeyrissjóði eða ákveðinn þátt þeirra, eins og t. d. sjóði Alþýðusambands Íslands. Eiga þeir að vera stikkfrí í þessu dæmi hjá hæstv. félmrh. eða eru það bara einhverjir aðrir sjóðir, sem eiga að koma með þetta fé, sem þarf til að fjármagna lánsþörf húsnæðismálastjórnar? Ég held, hv. alþm., að áður en þetta frv. fer héðan út úr þessari deild, þá þurfum við að fá frekari upplýsingar frá hæstv. félmrh. um húsnæðismálin, lánaþörf og getu lánastofnana til þess að standa undir lánaþörfinni, og það, sem hér er á ferðinni, sé hreinn hégómi miðað við aðalatriðin, sem eru látin bíða utangarðs, en ættu kannske að vera hér til umr. fyrst og fremst.