17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að ræða hér nokkuð atriði, sem mér finnst mjög óljós í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., áður en það fer til atkvgr.

Í fyrsta lagi vildi ég minnast á það, sem hæstv, ráðh. sagði, að fyrrv. ríkisstj. hefði lánað svo mikið til húsbygginga á sínum valdatíma, að lítið fé væri eftir á þessu ári vegna þess í Byggingarsjóði ríkisins. Ef svo hefði ekki verið gert, hefði bara auðvitað byggingarþörfin verið þeim mun meiri á þessu ári. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Því að ef ekki hefði verið byggt jafnmikið í tíð fyrrv. ríkisstj. og gert var, væri auðvitað óbrúað bil þar í húsbyggingum, þá mundi byggingarþörfin vera þeim mun meiri á þessu ári.

Mig minnir — og hæstv. ráðh. leiðréttir mig, ef ég man það ekki rétt, — að hann hafi sjálfur sagt hér við umr. í hv. d., að fjárþörfin á þessu ári til þess að húsbyggingar gætu haldið áfram eins og eðlilegt væri og þörf væri fyrir væri á milli 350 og 500 millj. kr. Þetta minnir mig, að hæstv. ráðh. hafi sagt sjálfur, og hann leiðréttir mig, ef hann hefur ekki sagt þetta. Það hefur verið upplýst hér, að Atvinnuleysistryggingasjóður muni kannske lána 60 millj. kr. í þetta og að farið hafi verið þess á leit við lífeyrissjóðina, að þeir lánuðu 200–250 millj. kr. Þarna skilst mér að vanti talsvert á, en það, sem er kannske höfuðatriði, er þetta, að þetta er hvort tveggja í mikilli óvissu, og líka það, að mér hefur borizt til eyrna, að hæstv. ráðh. hafi boðið lífeyrissjóðunum vísitölutryggð spariskírteini í þessu efni. Þá er spurningin þessi: Um leið og verið er núna að afnema vísitölubindinguna, sem ég eins og aðrir hv. dm. er samþykkur, en um leið og verið er að gera það að óathuguðu máli og verið að taka eða hugsa um að taka lán til Byggingarsjóðs með vísitölubindingu aftur á móti, er þá ekki verið að gefa út blankan víxil á framtíðina og er ekki rétt að athuga þessi mál í samhengi? Ég sé ekki annað en eðlilegt sé að gera það. Nú er komið fram yfir gjalddaga, það er ekki vefengt, lán Byggingarsjóðs er komið fram yfir gjalddaga á þessu ári og þess vegna breytir það í raun og veru sáralitlu eða engu að samþykkja þetta ákvæði um afnám vísitölubindingarinnar fyrir þá, sem þessi lán hafa á þessu ári. Það er unnt að gera það á næsta hausti og þá kemur það jafnt niður fyrir þá, en þá er það orðið líka ljóst, hvort fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins verði mætt með öðru móti en að taka vísitölutryggð lán til hans, þá er það orðið ljóst. Og þá er hægt að fara að taka á málinu. Einhver verður að borga. Annaðhvort verður ríkissjóður þá að borga mismuninn eða einhver annar verður að borga mismuninn, ef Byggingarsjóður ríkisins á ekki að fara beina leið á höfuðið. Það er þetta höfuðatriði, sem mér finnst, að hv. þm. hér í hv. d. þurfi að fá vitneskju um, áður en þeir fara að samþykkja þetta frv. Mér finnst það vera hreint út í bláinn að hraða þessu máli svo, að menn hafi ekki hugmynd um þessi atriði.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vil aðeins spyrja hæstv. ráðh. að lokum: Er það ekki rétt hjá mér, að hann bjóði lífeyrissjóðunum vísitölutryggð spariskírteini til þess að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins? Er það ekki rétt hjá mér, að hann telji fjárþörfina vera 350–500 millj. kr.? Og hvernig ætlar hann að leysa mismuninn og hvernig ætlar hann að leysa það að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins með vísitölutryggðum lánum, hver á að borga?